Réttur - 01.06.1952, Blaðsíða 51
RÉTTUR
179
Sturlu Þórðarsyni? Hve líklegt verður ekki að teljast, að kon-
ungur hafi þótzt geta rakið rætur þeirra svika, sem hann þykist
hafa orðið fyrir af Þórði, til áhrifa hans. Það virðist að minnsta
kosti vera staðreynd, að Sturla er sér þess meðvitandi að hafa
unnið svo til saka við konung, að hann tekur það trúanlegt, að
konungur geri ráðstafanir til að ná lífi hans.
6. Sturla beinir trausti sínu til Þorgilsar skarffa.
En að lítilli stundu liðinni hefur Sturla sætzt við þennan ein-
lægasta allra íslenzkra konungserindreka þessara áratuga, mann-
inn, sem sagt var að tekið hefði að sér að ráða hann af dögum,
og gerist jafneinlægur fylgjandi hans og hann hafði áður verið
þeirra Sturlu og Þórðar. Nú fer það að vera ljóst, hvernig það
gat orðið.
Þegar hér er komið sögu, þá er það komið í ljós, að trúnaðar-
mannasveit Þórðar kakala reynist þess ekki megnug að halda
landi undir hann. Þá hlýtur Sturlu einnig að hafa verið það ljóst,
að vonlítið eða vonlaust væri um lausn Þórðar úr konungsgarði.
Ennfremur hefur Sturla séð, að enginn þessara trúnaðarmanna
Þórðar er þeim vanda vaxinn að taka forustuna í hans stað. Hrafn
og Eyjólfur eru harðfengastir, en eru báðir ríkari af ruddahætti
og óbilgirni Sturlu Sighvatssonar, sem Sturla Þórðarson hefur
nú áttað sig á, en riddaramennsku og lýðhylli Þórðar kakala.
Eyjólfur hafði þegar gengið undir sitt próf og kolfallið. Eftir
tveggja ára héraðsstjórn í Skagafirði hefur hann ekki getið sér
meiri orðstír en það, að „allir játtu fúslega að taka við Gissuri að
höfðingja yfir sig“, þegar hann kom á vettvang með sitt kon-
ungsbréf. í ljósi þessara staðreynda verður að skilja sætt þeirra
Þorgilsar og Sturlu.
Eins og áður hefur verið getið, þykja fræðimönnum sterk rök
liggja að því, að höfundur Þorgilssögu sé nánasti trúnaðarmaður
Þorgilsar, Þórður Hítnesingur mágur hans. Hann er með á öllum
þeim fundum með Sturlu og Þorgilsi, sem getið hefur verið að
framan, og það dylst ekki, að frásagnir af viðræðum á þeim
fundum eru svo nákvæmar og markvissar, að það eitt mælir með
því, að viðstaddur, sem um leið er þátttakandi, segi frá. Og nú
vill svo til, að í Sturlungu kemur afstaða manna til konungsvalds-
ins hvergi eins skýrt fram og í Þorgilssögu. Er það bending um,
að höfundurinn telji þá afstöðu hafa ráðið sérstaklegu miklu
um gang og úrslit mála.
Eftir fyrsta fund þeirra Sturlu og Þorgilsar eftir útkomu hans,