Réttur - 01.06.1952, Blaðsíða 57
RÉTTUR
185
því heldur til að dreifa, að afstaðan til Gissurar hafi getað ráðið
fylgi þessara manna við konungs vilja. Oddaverjar voru hinir
ákveðnustu andstæðingar Gissurar, en nú hafði hann stigið
sporið ákveðið í konungs þjónustu með svardögum í Hegranesi.
Hér getur því ekki verið um neitt annað að ræða en það, að Sturla
er beinlínis að segja frá samblæstri, sem hann stóð fyrir, til að
standa gegn konungs vilja. Það sem Sturla segir hér, hafa verið
svo vitaðar staðreyndir, að Sturla sér ekkert við það unnið að
draga fjöður yfir þær. Hitt telur hann meira ráð að segja svo
frá, að ekki verði hann sakaður um, að undan sé dregið.
Og nú kemur að atriðinu, sem veigamest hefur verið í augum
Sturlu og undirrót bersöglinnar. Hrafn Oddsson hefur hrakið hann
úr landi sem sakamann á konungs fund. Fjandskap Hákonar
konungs uggði hann mest. Ekki er vel ljóst, hvað Sturlu var
gefið að sök við konung. En sakir Sturlu í konungsgarði voru
ekki nýjar af nálinni, eins og áður hefur verið tekið fram. Nú
er líklegt, að bætzt hafi við ákæra um samblástur gegn konungs
vilja. Þessa sök viðurkennir hann í frásögn sinni í sögu Hákonar.
En hann gerir meira. Hann gerir ákærandann, Hrafn Oddsson,
samsekan. „Allir inir stærstu menn í Vestfjörðum“ stóðu saman.
Engin nöfn eru nefnd. Sturla er auðvitað einn í hópnum, og
Hrafn er ekki undanskilinn. Og sök Hrafns er enn meiri. Hall-
varður hafði komið málum svo, að Vestfirðingar hétu að koma
til Þórsnessþings fyrir alþing og „sverja konunginum þar land og
þegna“. En það ferst fyrir, — af því að Hrafn Oddsson kom
þangað ekki. Var það ekki grunsamleg konungshollusta, að hann
skyldi láta það undir höfuð leggjast, þar sem svo mikið stóð til?
Og Sturla gerir ekki aðeins alla Vestfirðinga samseka. Hann gerir
alla þjóðina samseka. Á þingi er almenningur svo á móti konungs
vilja, að Gissur verður að fara bænarveg að þingheimi, að hann
bjargi lífi hans, sem ella var í hættu af völdum konungs, „kall-
aði fjörráð við sig, ef eigi gengi þeir undir“. Á stórmannlegri
hátt gat íslendingur ekki fellt þennan þátt inn í sögu Hákonar
konungs.
Ég endurtek enn, að það mun ekki þykja nein ástæða til að
efa, að Sturla skýri rétt frá atburðum í sögu sinni. Um hitt má
deila, hvað á bak við þessa atburði búi. Eins og ég hef gefið í skyn
hér að framan, ætti Sturlu að hafa tekizt að vinna Hrafn til
fylgis við sig um að standa á móti skatti og hollustueiðum við
konung. Ýmsum mun finnast fjarri lagi, að svo hafi getað verið.
En í þessari sömu frásögn lætur Sturla enn fylgja eitt athyglisvert
atriði. Eftir að eiðarnir hafa verið ákveðnir á Þórsnessþingi, þá