Morgunblaðið - 07.12.2006, Page 50

Morgunblaðið - 07.12.2006, Page 50
|fimmtudagur|7. 12. 2006| mbl.is staðurstund Strengjasveitin amiina er ný- komin úr tónleikaferðalagi um Evrópu og Bandaríkin en spilar á Íslandi í kvöld. » 52 tónlist Bergþóra Jónsdóttir fjallar um tónleikahald á aðventu og veltir því fyrir sér hvort markaðurinn sé mettur. » 53 af listum Þrettán efstu plötur Tónlistans eru íslenskar og aðeins fimm erlendar eru á meðal þeirra efstu þrjátíu. » 52 tónlistinn Helga Þórey Jónsdóttir var mjög hrifin af tónleikum evr- ópsku dívanna og gefur þeim fjórar stjörnur. » 55 gagnrýni Eddie Murphy og Mel B eru hætt saman, og sömuleiðis Jennifer Aniston og Vince Vaughn. » 63 fólk Eftir Bergþóru Jónsdóttur begga@mbl.is Þ að er farið að kalla allar söngkonur dívur, hvort sem þær hafa komið ná- lægt óperusöng eða ekki. Ég sit hugsi í setu- stofunni á Hótel Sögu, bíð eftir við- mælanda mínum, Denyce Graves, sem er væntanleg á hverri stundu, en hún á að syngja á tvennum tón- leikum með Sinfóníuhljómsveit Ís- lands, í kvöld og á laugardag í stað Jessye Norman sem forfallaðist. De- nyce Graves er díva, er mér sagt, en ég þekki nánast ekkert til hennar; veit bara að það var hún sem fékk það sem ég get ímyndað mér að hafi verið óbærilega erfitt hlutverk; að hugga heiminn með söng eftir árás- ina á tvíburaturnana í New York 11. september 2001. Það var hún sem var valin til að syngja við opinbera minningarathöfn um þá sem fórust. Hún gengur í salinn, hávaxin og tíguleg í fasi og – satt best að segja – óhemjufögur. Spurning hvort svo- leiðis lýsingar séu liðnar á prenti nú til dags. Hún hefur glæsta áru, en líka fyrirboða og fylgju. Fyrirboðinn er tveggja ára stelpuskottið, sem er umsvifalaust búin að hlaupa uppi öll skúmaskot forsalarins á Sögu og heilsa öllum innvirðulega að amer- ískum sið, og fylgjan er amman, sem eltir með orðunum: „Ella dear!“ Dívan tékkar sig inn og spjallar við tónleikastjóra Sinfó, fer með ferðatöskurnar sex inn á herbergið sitt, en segir mér að að því búnu fái ég allan hennar tíma. Þær eru ekki allar með tiktúrur dívurnar. „Ég veit ekkert við hverju ég á að búast hér,“ segir Denyce Graves þegar hún er sest í rauða stólinn á móti mér. „Ég set mér það auðvitað að leggja mig eins vel fram og ég mögulega get. Ég vona bara að fólk njóti þess sem ég hef fram að færa. Ég hlakka til að heyra í hljómsveit- inni og kynnast hljómsveitarstjór- anum og íslenskum áheyrendum. Í mínum huga snýst þetta allt um það að deila með fólki ást á tónlistinni.“ Evrópsk eða amerísk? Ég asnast til að fara að tala um það að við hérna megin Atlantshafs- ins þekkjum hana lítið, og bið hana að segja mér af sínum högum, ferli, velgengni, frægð. Þá kemur auðvit- að á daginn – og mér í koll um leið, að þótt hún hafi að mestu gert garð- inn frægan í heimalandi sínu síðasta áratuginn, þá hófst söngævintýri hennar í Evrópu árið 1989. „Ertu galin? Þetta er bráðfyndið,“ segir hún og hlær þannig að ég finn að hún svolítið hissa á fáfræði minni. „Upphaf ferils míns var algjörlega bundið Evrópu, og það svo rækilega, að þegar ég fór að syngja meira heima, fyrir um átta árum, þá kallaði fólk mig evrópska söngkonu. Núna þegar ég er farin að halla mér meira að Evrópu aftur, þá er ég amerísk söngkona. Í mínum huga er ég fyrst og fremst listamaður – söngkona, sem nýtur þess að syngja – ét voila!“ segir hún með frönskum stæl. Upplifi sjálfa mig sem mig Ég má til með að forvitnast frekar um þessar hnattfræðilegu skilgrein- ingar á söngkonum. „Það eru ýmsir sem halda þessu fram sem heilögum sannleika, en ég er ekki viss um að ég gæti nokkurn tíma fallist á hann. Það er sagt að amerískir söngvarar séu mjög ná- kvæmir og syngi allt eftir bókinni, á meðan evrópskir söngvarar leggi meira upp úr persónulegum stíl. Finnst þér þetta ekki rosaleg alhæf- ing?“ Auðvitað er ég sammála De- nyce Graves, þótt ef til vill leynist örlítið sannleikskorn í kenningunni. „Ég á erfitt með að setja mig inn í svona skilgreiningar. Ég upplifi sjálfa mig sem mig. Ég er drama- tískur messósópran, og þótt það sé alltaf sagt að ég sé þekktust fyrir túlkun mína á Carmen og Dalílu, þá hef ég sungið svo margt, margt fleira sem mér hefur ekki þótt neitt minna til koma. Í vetur hef ég til dæmis verið að syngja Júdit í Kast- ala Bláskeggs [eftir Bartók]. Síðustu misserin hef ég líka verið að syngja titilhlutverkið í nýrri óperu, Marg- aret Garner, eftir Richard Dani- elpour og Toni Morrison. Sú ópera var samin fyrir mig. Margaret Gar- ner hefur verið feiknavel tekið, og ég hef verið að syngja hlutverkið víða að undanförnu. Svo hef ég líka verið að syngja í Il trovatore, Amneris í Aídu, enga Ebolí ennþá, [í Don Carlo], en vonandi verður það fljót- lega; Charlotte í Werther hef ég sungið oft og mörgum sinnum, Nik- laus í Ævintýrum Hoffmanns, Or- feus, og margt, margt fleira. Ég botna ekkert í því af hverju nafn mitt er alltaf tengt við Carmen, því það er svo margt annað sem mér hefur verið kært. Kannski er það bara vegna þess hvað Carmen er vinsæl ópera, og það er hægt að stóla á að það er verið að sýna hana nánast alls staðar í heiminum á hverju ári, og hún fær mikla kynn- ingu. Það er meira að segja langt síðan ég hef sungið Carmen og syng hana ekki aftur fyrr en næsta sumar í Aþenu. Það er einhvern veginn bú- ið að stimpla feril minn svo rækilega með Carmen, hvort sem mér líkar betur eða verr. Og enn annað; ég er ekki einu sinni fyrst og fremst óp- erusöngkona, því ég syng miklu meira á tónleikum en á óperusviði. Ljóðasöngur er mér til dæmis mjög kær og svo margt annað.“ Margaret Garner er hrá Það er augljóslega ekki sígaunak- vendið kvika sem stendur næst hjarta Denyce Graves af öllum þeim miklu kvenkostum, stássmeyjum og gyðjum sem prýða óperubókmennt- irnar; það er augljóst að það er per- sónan sem sköpuð var fyrir óminn af hennar eigin rödd. Það er auðvitað ekki hvaða óperusöngkona sem er sem fær heila óperu samda fyrir sína rödd. Margaret Garner á stærra pláss í huga viðmælanda míns en sí- gaunastúlkan í vindlaverksmiðjunni, og án þess að ég þurfi að hafa fyrir því að spyrja, er hún komin á flug. „Þetta er gríðarlega persónulegt hlutverk fyrir mig. Sagan er líka sönn og fjallar um lífsreynslu banda- rískrar konu af afrískum uppruna sem lifir á tímum þrælahalds – og lýsir því hvernig hún braust úr þræl- dómi til frelsis. Sagan og hlutverkið rista dýpra í mitt hjarta vegna þess að það er amerísk saga og snertir alla sem á hana hlýða. Það er allt annað fyrir mig að syngja þetta hlut- verk en til dæmis gyðjur evrópskrar goðafræði. Það er svo auðvelt að fela sig bak við þær; setja upp slæðuna og verða sú persóna. Margaret Gar- ner er hrá og tilfinningarnar kvik- naktar. Það besta er hvað óperan hefur átt mikilli velgengni að fagna og hvað hún snertir fólk djúpt. Tón- listin er guðdómleg; mjög melódísk og nær greiðlega til fólks. Ég vildi óska að Margaret Garner fengi full- kominn byr undir báða vængi svo hún verði í tímans rás skráð á spjöld sögunnar sem ein af okkar bestu óp- erum. Hún verðskuldar það. Fyrir sjálfa mig var það mikill ábyrgðarhluti að takast á við hana. Venjulega þegar ég sest niður til að læra hlutverk, er ég uppnumin af því að eitthvert löngu dáið tónskáld skuli virkilega hafa sest niður og skapað dásamlega tónlist sem ég fæ svo tækifæri til að miðla. En ég þekki Richard Danielpour. Við stóð- um hlið við hlið á ground zero, grunni tvíburaturnanna í New York, og gengum saman í gegnum sköp- unarferli þessa verks. Hann lagði sig fram við að koma og hlusta á mig í óperuhúsum hér og þar til að læra á litbrigði og möguleika raddarinnar minnar. Við gengum í gegnum gleði og sorg á þeim fimm árum sem það tók hann að semja óperuna og at- burðirnir hræðilegu sem urðu í miðju sköpunarferlinu og saga Margaret Garner fylltu mig lotn- ingu, virðingu og æðruleysi gagn- vart dauðanum og þjáningu fólks. Ég met líka alla þá vinnu sem tón- skáldið og gimsteinninn okkar hún Toni Morrison lögðu í að skapa þennan minnisvarða um frelsið. Ég fann mjög til ábyrgðar minnar gagn- vart þessu öllu saman, en gleðin sem fylgdi sköpunarferlinu var mikil.“ Steig út úr sjálfinu og söng Ég stend frammi fyrir því, að De- nyce Graves hefur tekið ráðin af mér í þessu viðtali; – allt sem ég ætlaði að spyrja hana um er farið fyrir bí; þetta er það sem hana langaði að tala um. Ég veit vel að á tónleik- unum hér mun hún syngja flott at- riði úr öllum flottustu óperum heims – það verður enginn svikinn af þeirri efnisskrá, en í ljósi þess hvað henni er hjartkært að miðla sögum af sinni óperu, sínu fólki og glímunni fyrir frelsi, get ég ekki annað en spurt hana hvernig glíman hafi verið við það stóra hlutverk að hugga heiminn með söng, að viðstöddum valda- mestu mönnum heims, andspænis örlögum landa sinna 11. september. „Ég var stolt af því að eiga eitt- hvað að gefa á þessum degi, þegar svo mikið var tekið frá okkur. Stað- reyndin er nú samt sú, að hörm- ungar sem þessar gerast á hverjum degi og við tökum ekki eftir þeim. En fyrir okkur Bandaríkjamenn var þetta nýtt og áfallið var gríðarlegt. En söngur minn við minning- arathöfnina snerist ekki um mig. Mitt hlutverk var að fjarlægja sjálfa mig frá þeirri staðreynd að mér var boðið að syngja þarna, og hleypa hljóðfærinu mínu, röddinni minni að. Ég einbeitti mér að því að söngur minn væri fyrst og fremst miðill styrks og kærleika, fegurðar og huggunar. Einhvern veginn tókst mér að sjá mig og heyra mig eins og ég stæði utan við sjálfið; því ég þurfti rétt eins og aðrir á huggun tónlistarinnar að halda. Ég var mér fullkomlega meðvitandi um hve mik- ilvægt þetta augnablik var. Það snerist að engu leyti um mig eða til- finningar mínar þá, það snerist að öllu leyti um mátt tónlistarinnar til að hugga og sefa og gefa von. Í þeim mikla harmleik og á þeirri stundu var tónlistin afl sem gat tjáð allt það sem enginn hefði getað fært í orð.“ Snerist um mátt tónlistarinnar til að hugga, sefa og gefa von Morgunblaðið/Golli Díva „Finnst þér þetta ekki rosaleg alhæfing?“

x

Morgunblaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.