Morgunblaðið - 10.04.2007, Blaðsíða 24

Morgunblaðið - 10.04.2007, Blaðsíða 24
daglegt líf 24 ÞRIÐJUDAGUR 10. APRÍL 2007 MORGUNBLAÐIÐ E f hægt er að tala um samnefnara þá má segja að ofbeldismenn eigi það sammerkt að vera óöruggir menn, sem hafa tileinkað sér mjög ófull- komnar aðferðir í samskiptum og nota ofbeldi sem tæki til að ná stjórn á aðstæðum. Þessir menn geta virkað allt frá því að vera mjög mælskir niður í það að eiga mjög erfitt með að tjá sig og eru birtingamyndir ofbeldishegðunar í daglega lífinu ótal margar, að sögn sálfræðinganna Einars Gylfa Jóns- sonar og Andrésar Ragnarssonar, sem sjá um meðferðina. Tilraunaverkefni lofaði góðu Ofbeldishegðun er ekki stétttengt með neinum hætti enda eru ofbeld- ismenn til í öllum þjóðfélagsstigum. Meðferð fyrir karla, sem beita of- beldi, er ekki alveg ný af nálinni hérlendis því þeir Einar Gylfi og Andrés voru kallaðir til að veita slíka meðferð á árunum 1998 til 2001 að frumkvæði karlanefndar Jafnréttisráðs og í kjölfar ráð- stefnunar „Karlar gegn ofbeldi" ár- ið 1997. Þeir fóru til Noregs og Sví- þjóðar til að kynna sér þau úrræði, sem þar voru í gangi, og hafa notað norska módelið sem grunn hér. Um tilraunaverkefni var að ræða sem fjármagnað var af Rauða krossinum og heilbrigðis- og félagsmála- ráðuneytum. Um áttatíu karlar sóttu meðferð á þessu þriggja ára tímabili og þótti árangurinn lofa góðu. Samkvæmt könnun, sem gerð var meðal skjólstæðinga og maka þeirra að aflokinni meðferð, hafði ofbeldi hætt eða minnkað verulega í öllum tilvikum og engin lögreglu- afskipti komu til af viðkomandi eftir að meðferð lauk. Makarnir nefndu aukna sjálfsstjórn og meiri ábyrgð í hegðunarmynstri karlanna og báðir aðilar töluðu um aukin lífsgæði. Meðferðin lognaðist út af þar sem pólitíska ákvörðun skorti um fram- haldið, en fyrir um ári síðan ákvað félagsmálaráðherra, ekki síst að til- stuðlan Kvennaathvarfsins, Stíga- móta og Jafnréttisstofu, að end- urvekja meðferðarúrræðið með því að setja það á föst fjárlög. Karl- arnir greiða þó tvö þúsund krónur fyrir hverja komu. Frá því í haust hafa sextán karlmenn komið til meðferðar, sem fram fer með bæði einstaklingsviðtölum og hóptímum. Meðferðin tekur allt upp í tvö ár og er nú mökum líka boðið upp á tvö viðtöl, í byrjun og lok meðferðar, sem ekki var áður, til að tryggja ör yggi annarra heimilismanna. Ný forritun við kunnáttuleysi „Ofbeldi er alltaf sálfræðilegt vandamál, sem lýsir sér í vanmætti. Ofbeldi snýst um viðbrögð viðkunn- áttuleysi því þessir menn kunna ekki á annan máta að bregðast við ákveðnum aðstæðum og sam- skiptum. Það má því segja að okkar meðferð lúti að því að forrita menn upp á nýtt og kenna þeim að bera ábyrgð á eigin gerðum," segja sál- fræðingarnir þegar þeir eru spurðir út í rót vandans, en þeir kjósa að skipta meðferðinni niður í fimm stig. „Fyrsta skrefið er að gera of- beldið sýnilegt til að staðfesta það fyrir gerandanum hvar ábyrgðin liggur. Gerandinn ber aleinn alla ábyrgð enda er ekkert það til sem réttlætt getur ofbeldi þó hann reyni að finna blóraböggla fyrir hegðun sinni. Það þarf að hjálpa mönnum að horfast í augu við gerðir sínar með því að lýsa atburðarásinni í smáatriðum og það getur verið sársaukafullt fyrir marga. Þeir karlar, sem leita sér hjálpar, hafa sektarkennd, en verjast henni gjarnan með því að gera sér óljósa mynd af ofbeldinu. Í öðru lagi þurfa menn að horfast í augu við ábyrgð sína. Þó viljinn sé gjarnan fyrir hendi að axla ábyrgð, er oft stutt í afsakanir og réttlætingar í byrjun meðferðar. Sumir afsaka sig t.d. með því að vera af mestu skap- hundaætt landsins á meðan aðrir taka það fram að konan sín viti sko nákvæmlega á hvaða takka hún þurfi að ýta til að ögra. Í þriðja lagi þarf að skoða í hvaða samhengi of- beldið á sér stað. Í sumum tilvikum er áfengi alltaf með í spilinu og stundum sjáum við ákveðið ofbeld- ismynstur, sem menn taka með sér úr bernsku. Í fjórða lagi er það bæði nauðsynlegt og sársaukafullt fyrir ofbeldismanninn að gera sér grein fyrir afleiðingunum, það er hversu mikla vanlíðan ofbeldi þeirra hefur orsakað inni á heim- ilunum. Andlegt ofbeldi er yfirleitt undanfari líkamlegs ofbeldis, en það rennur smám saman upp fyrir karlinum að hann er tapari númer eitt því hann fær hvorki öryggi né viðurkenningu fram með þeirri samskiptaaðferð, sem hann hefur tamið sér. Hann er búinn að brjóta niður með kerfisbundnum hætti bæði sjálfsmynd og sjálfsvirðingu konunnar. Hún býr við stöðuga angist og hræðslu, fer að óttast um líf sitt og kýs þögnina fram yfir allt annað. Og þó fullorðna fólkið haldi að börnin skynji ekki neitt, verða þau alltaf fyrir ofbeldinu á einn eða annan hátt með því að upplifa „stemmninguna" á heimilinu, brotna og beygða móður, leyndarmálin og þögnina. Loks kemur að bataferl- inu, sem er lokaskrefið í átt að „betra" lífi. Iðrandi syndarar lofa betrun Þegar karl beitir konuna sína of- beldi, hvort sem það er andlegt, lík- amlegt eða kynferðislegt, er ekki um hjónavanda að ræða heldur ein- staklingsvanda eingöngu. „Flestar konur láta sem betur fer ekki bjóða sér barsmíðar nema einu sinni, en aðrar fyrirgefa og halda áfram að búa með hinum iðrandi syndara, sem lofar bót og betrun. Það er auðvitað mannlegt að trúa og gefa mönnum annað tækifæri. Meðferð- arúrræðið „Karlar til ábyrgðar" er hvatning til þeirra, sem þurfa að læra nýjar samskiptaaðferðir og aukna sjálfsstjórn. Þetta úrræði hefur virkað mjög vel fram til þessa. Karlmenn, sem skammast sín fyrir framkomu sína, eru að nýta sér þetta úrræði og fyrir það eru þeir bara flottir," segja þeir Andrés og Einar Gylfi. Morgunblaðið/Árni Torfason Hún kann sko að ýta á rétta takka Morgunblaðið/Sverrir Sálfræðingarnir Karlar, sem beita ofbeldi, bera mun meiri ábyrgð í krafti líkamsburða en konur, sem kunna að ráðast á karla, segja þeir Andrés Ragnarsson og Einar Gylfi Jónsson.  Er ég farin að lifa í ótta?  Er ég farin að óttast vissar kringumstæður?  Þarf ég að umgangast hann með sérstökum hætti svo ekki sjóði upp úr?  Er hann sjúklega afbrýðisamur og ásakar mig stöðugt um framhjáhald, þó enginn fótur sé fyrir því?  Er hann farinn að beina þeim skilaboðum til mín að hann hafi síðasta orðið um mitt líf? Hver eru merkin? Heimilisofbeldi er al- varlegt vandamál, sem fer leynt þó því fylgi mikil skömm fyrir alla, sem málið varðar. Nú býðst karlmönnum, sem beita ofbeldi, með- ferðarúrræði undir yf- irskriftinni „Karlar til ábyrgðar". Jóhanna Ingvarsdóttir spurði sálfræðingana Einar Gylfa Jónsson og Andr- és Ragnarsson hvernig hægt sé að „lækna" þennan kvilla. Hafi karlar hug á meðferð við of- beldishegðun, þarf ekki annað en að panta tíma annaðhvort hjá Andrési Ragnarssyni eða Einari Gylfa Jónssyni eða hringja í 1717, vinalínu Rauða krossins, sem er símaþjónusta allan sólarhringinn. Í HNOTSKURN » Samkvæmt niðurstöðumkannana má ætla að 5-15% kvenna á Vesturlöndum búi við ofbeldi af einhverju tagi. » Ef einu sinni hefur komiðtil líkamlegs ofbeldis, er það einu sinni of oft. Líkur á end urteknu ofbeldi eru 80% og ef ofbeldisferli er einu sinni farið af stað, eru nánast öruggt að það fari stigversn- andi. » Rannsóknir hafa sýnt aðmeirihluti þeirra, sem beitir heimilisofbeldi, hefur orðið fyrir því í æsku. » Rannsóknir hafa á hinnbóginn líka sýnt að meiri- hluti þeirra, sem orðið hafa fyrir heimilisofbeldi í æsku, beitir ekki ofbeldi á fullorðins- árum. » Konur og börn, sem beitteru ofbeldi, eiga fullan rétt á að upplifa sig í lífshættu. » Karlar, sem beita ofbeldi,bera meiri ábyrgð í krafti lík amsburða, heldur en kon- ur, sem ráðast á karlana sína. Heimilisofbeldi Karlmenn, sem skammast sín fyrir framkomu sína, eru að nýta sér þetta úrræði og fyrir það eru þeir bara flottir," segja þeir Andrés og Einar Gylfi.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.