Morgunblaðið - 12.09.2007, Blaðsíða 16
16 MIÐVIKUDAGUR 12. SEPTEMBER 2007 MORGUNBLAÐIÐ
ERLENT
FRÉTTASKÝRING
Eftir Ásgeir Sverrisson
asv@mbl.is
GREINARGERÐIR tveggja
helstu ráðgjafa George W. Bush í
málefnum Íraks frammi fyrir þing-
nefndum í Washington munu reyn-
ast Bandaríkjaforseta öflugt vopn,
trúlega allt til þess er hann hverfur
úr embætti í janúar árið 2009.
Skýrslur þeirra Davids Petraeus,
yfirmanns heraflans í Írak, og Ryans
Crockers, sendiherra Bandaríkja-
stjórnar í landinu, eru fallnar til að
tryggja að meginlínur stefnu Bush í
málefnum Íraks haldist óbreyttar út
embættistíð hans og auka þannig lík-
ur á að hann geti kvatt Hvíta húsið
án þess að um hann verði sagt að
hann hafi neyðst til að láta í minni
pokann fyrir andstæðingum sínum.
Greinargerðir þeirra Crockers og
Petraeus fela því í sér tiltekna „út-
gönguleið“ fyrir forsetann og varpa
ábyrgðinni á að ljúka afar erfiðu og
óvinsælu stríði yfir á herðar eftir-
manns hans.
Þeir Petraeus og Crocker komu
fyrir þingnefndir í gær og á mánu-
dag og gerðu þar ítarlega grein fyrir
stöðu mála í Írak í hernaðarlegu og
pólitísku tilliti. Hershöfðinginn
greindi frá þeim árangri sem náðst
hefði í kjölfar þeirrar ákvörðunar
forsetans fyrr í ár að fjölga í herlið-
inu um 30.000 manns. Hugsunin að
baki þeirri fjölgun var sú, að með því
móti mætti draga úr ofbeldinu og
skapa svigrúm fyrir víðtæku póli-
tísku samkomulagi fylkinga í land-
inu. Crocker fjallaði síðan um hverju
þessu herfræði hefði skilað á stjórn-
málasviðinu.
Líkt og vænta mátti er helsta nið-
urstaðan sú, að árangri á stjórnmála-
sviðinu verður ekki líkt við þann sem
náðst hefur í hernaðarlegu tilliti í
Írak á síðustu mánuðum. Sú ákvörð-
un forsetans að fjölga í herliðinu hef-
ur, að sögn Davids Petraeus, skilað
mælanlegum árangri en Crocker gat
ekki fullyrt að aukið svigrúm for-
ystumanna Íraka hefði komist nærri
því að skila þeirri niðurstöðu sem
stefnt er að. Hann hélt á hinn bóginn
uppi vörnum fyrir leiðtoga Íraka,
einkum Nouri al-Maliki forsætisráð-
herra sem sætt hefur mikilli gagn-
rýni vestra og beitti sendiherrann
m.a. þeirri röksemd að Bandaríkja-
menn hefðu öldum saman tekist á
um grundvallaratriði í þjóðskipulagi
sínu svo sem þrælahald. Írakar væru
nú í svipaðri stöðu.
Í fréttaflutningi af greinargerðum
ráðgjafa Bush hefur þung áhersla
verið lögð á þau ummæli Petraeus að
unnt verði að fækka smám saman í
heraflanum í Írak á næstu mánuð-
um. Þessi áhersla er hæpin að því
marki að fyrir lá að nauðsynlegt yrði
að fækka í liðsaflanum þar. Í apríl á
næsta ári verður óbreyttum fjölda,
168.000 manns, ekki lengur haldið
úti í landinu án þess að lengja dval-
artíma hermanna þar um þrjá mán-
uði hverju sinni eða að kalla út þjóð-
varðliðið. Í pólitísku tilliti má heita
útilokað að sú leið yrði fær Bush for-
seta og vitað er að æðstu ráðamenn
hersins treysta sér ekki til að mæla
með henni. Sú fækkun sem Petraeus
lýsti felur því í sér að í júlí á næsta
ári verða um 130.000 bandarískir
hermenn í Írak, sami fjöldi og þar
var í janúarmánuði er Bush forseti
ákvað að fjölga í liðsaflanum.
Varnarleikur demókrata
Boltinn er nú hjá bandarískum
demókrötum, sem þrátt fyrir stór
orð um að kalla beri herinn heim frá
Írak, hafa ekki reynst tilbúnir að
beita meirihluta sínum á þingi af full-
um þunga. Óánægja sökum þessa fer
vaxandi í röðum kjósenda demó-
krata og skoðanakannanir sýna að
traust almennings í garð þingheims
fer ört þverrandi. Vörn demókrata í
þröngri stöðu mun á næstunni eink-
um felast í því að þeir geti í raun litlu
breytt m.a. með tilliti til þess að þeir
búi ekki yfir nægum styrk í öldunga-
deildinni til að fá hnekkt neitunar-
valdi Bandaríkjaforseta. Frambjóð-
endur flokksins í prófkjörum vegna
forsetakosninganna á næsta ári
munu nú þurfa að laga sig að breyttri
stöðu mála og miða málflutning sinn
við að það komi í hlut viðkomandi að
ljúka stríðinu í Írak og kalla herafl-
ann heim.
Styrkari staða Bush mun létta
frambjóðendum Repúblikanaflokks-
ins lífið á næstu mánuðum. Þetta
gildir um þingmenn, sem leita eftir
endurkjöri, og frambjóðendur í próf-
kjörum repúblikana vegna forseta-
kosninganna næsta haust, sem nú
geta haldið því fram að fækkun í her-
aflanum í Írak sé fyrirsjáanleg þótt
þar ræði um innan við 20% hans og
fjöldinn verði eftir það sá sami og í
janúar í ár.
Í pólitískum efnum er flestum
grundvallarspurningum um framtíð
Íraks enn ósvarað, greinargerð
Crockers sendiherra var að þessu
leyti meingölluð. Í hernaðarlegu til-
liti verður ekki annað séð en stefnu
Bush forseta verði fylgt allt til loka
kjörtímabils hans. Bush kann að
telja heppilegt að fækka enn frekar í
herliðinu í Írak á síðustu mánuðum
sínum í embætti en flest bendir til að
þar verði haldið úti 100.000 manna
liðsafla, hið minnsta, þegar forsetinn
yfirgefur Hvíta húsið.
Óbreytt Íraksstefna út kjörtímabilið
Skýrslur tveggja helstu ráðgjafa Bandaríkjaforseta auka líkur á að George W. Bush nái að knýja
fram vilja sinn í málefnum Íraks og það komi í hlut eftirmanns hans að ljúka herförinni umdeildu
Í HNOTSKURN
»David Petraeus telur að„ótímabær“ fækkun í liðs-
afla Bandaríkjamanna í Írak
myndi hafa „hörmulegar af-
leiðingar“ og m.a. reynast
fallin til að styrkja stöðu
vígahópa þar, sem tengjast
al-Qaeda-hryðjuverkanetinu.
»Petraeus kynnti varfærn-islega áætlun um fækkun
í liðsaflanum í Írak og sagði
að ákvörðun um frekari
fækkun yrði vart tekin fyrr
en í mars á næsta ári. Féll sá
boðskapur í grýttan jarðveg í
röðum demókrata, sem and-
mæltu niðurstöðum hershöfð-
ingjans af auknum þunga í
gær.
ASSOCIATED PRESS
Gagnrýni Eindregnustu andstæðingar stríðsins í Írak beina nú spjótum
sínum að David Petreaus og draga hlutleysi hans og heilindi í efa.
TVÆR sænskar herþyrlur rákust
saman og hröpuðu nálægt bænum
Ryd í suðurhluta Svíþjóðar í gær og
allir um borð, fjórir menn, fórust.
Heræfing fór fram á svæðinu þegar
slysið varð, að sögn sænskra fjöl-
miðla, sem sögðu að kviknað hefði í
þyrluflökunum.
Fórust í þyrluslysi
LÖGFRÆÐINGAR Nawaz Sharifs,
fyrrverandi forsætisráðherra Pak-
istans, hafa áfrýjað brottvísun hans
úr landi til hæstaréttar sem hafði
áður úrskurðað að Sharif gæti snú-
ið heim úr útlegð. Lögfræðingar
hans segja brottvísunina lögbrot.
Sharif áfrýjar
ÍSRAELAR gerðu loftárás á sýr-
lenskt landsvæði á fimmtudaginn
var til að senda Sýrlendingum þau
skilaboð að þeir kæmust ekki upp
með að vopna Hizbollah-hreyf-
inguna í Líbanon, að sögn banda-
rískra embættismanna í gær.
Gerðu loftárás
LÖGREGLAN í Portúgal segir að
sýni, sem fundust í skotti bíls for-
eldra bresku stúlkunnar Made-
leine McCann,
séu ekki blóð,
heldur aðrir
„líkamsvökvar“.
Um 88% sam-
ræmi sé á milli
erfðaefnisins,
sem fannst í
bílnum, og
erfðaefnis Made-
leine.
Lögreglan
segir að svo mikið hafi fundist af
hári úr Madeleine í bílnum að það
hljóti að hafa komið beint frá lík-
ama hennar og hafi ekki borist
þangað með fatnaði eða leik-
föngum. McCann-hjónin leigðu bíl-
inn 25 dögum eftir að stúlkan
hvarf.
Madeleine McCann
Hár úr Made-
leine í bílnum
ÞESS var minnst vestur í Bandaríkjunum í gær að sex ár voru liðin frá
hryðjuverkaárásunum á New York og Washington, en þær kostuðu um
3.000 manns lífið. Minningarathafnir voru haldnar þar sem World Trade
Center stóð í New York en þar mátti finna þetta minnisspjald um eitt
fórnarlamba hryðjuverkaárásann, við Hvíta húsið og við skrifstofubygg-
ingu varnarmálaráðuneytisins, Pentagon, í útjaðri Washington.
Reuters
Sex ár frá hryðjuverka-
árásunum á Bandaríkin
Eftir Kristján Jónsson
kjon@mbl.is
SEX árum eftir að nær 3.000 manns
létu lífið í árásunum á Bandaríkin
2001 virðist sem hryðjuverka-
samtökin al-Qaeda séu fjarri því að
vera hrunin. Óvíst er samt hvort
samtökin eru nú fær um að skipu-
leggja sjálf umfangsmiklar aðgerðir
en ljóst að þau eru fyrirmynd fjöl-
margra hópa sem oft vinna alger-
lega sjálfstætt en sækja sér inn-
blástur í áróður al-Qaeda.
Leiðtogi al-Qaeda, Osama bin
Laden, sendi sl. föstudag frá sér
myndband þar sem hann hvatti til
frekari aðgerða gegn Bandaríkja-
mönnum og þeim sem styddu þá.
Annað myndband samtakanna var
birt í gær, þar les bin Laden textann
og hyllir minningu eins flugræningj-
anna, Waleed al-Shehri. Segir hann
al-Shehri hafa „meðtekið þann sann-
leika“ að leiðtogar arabaríkjanna
séu „handbendi“ Vesturveldanna og
þeir hafi svikið íslam. „Nú eigum við
eftir að uppfylla skyldur okkar,“
segir bin Laden.
„Brjálæðislegir skattar“
Athygli vakti á fyrra myndband-
inu að stíll bin Ladens hefur breyst
verulega, hann ver meiri tíma en áð-
ur í að fjalla um ýmis veraldleg
vandamál sem vestrænir borgarar
kljást við dags daglega. Hann harm-
ar að vísu ákaft stöðu múslíma og
trúarinnar í heiminum, múslímar
búi við kúgun og aðra vesöld vegna
þess að þeir hafi vanrækt skyldur
sínar við Guð og hunsað kröfuna um
heilagt stríð, jihad. Og leiðtoginn
segir Bandaríkjamönnum að eina
leiðin til að öðlast frið sé að snúast á
sveif með íslam. En hann notar einn-
ig orðfæri sem minnir á áróður
vinstri róttæklinga í Bandaríkj-
unum.
Bin Laden ávarpar Bandaríkja-
menn, segist vita að „margir ykkar
eru þjakaðir af hávaxtaskuldum,
brjálæðislegum sköttum og veðum
vegna húsnæðislána“. Einnig að
„hnattræn hlýnun og eymdin sem
henni fylgir“ stafi af „útblæstri frá
verksmiðjum stórfyrirtækjanna“.
Einnig hrósar hann visku málvís-
indamannsins og vinstrimannsins
Noams Chomskys.
Bandarískir leyniþjónustumenn
eru sannfærðir um að bin Laden
njóti nú ráðgjafar Adam Gadahn, 28
ára gamals Bandaríkjamanns sem
talið er að hafist nú við á sömu slóð-
um og bin Laden, í fjallahéruðum á
mörkum Afganistans og Pakistans.
Gadahn hefur komið fram í mörgum
myndböndum al-Qaeda og m.a. for-
dæmt hnattvæðingu. Hann er sagð-
ur stýra fjölmiðlaáróðri samtakanna
gagnvart enskumælandi fólki.
Gadahn skrifaði á unglingsárum
dóma fyrir tímarit sem fjallar um
þungarokk. Hann fluttist til Pakist-
ans árið 1998 og varð aðstoðarmaður
Khalid Sheikh Mohammed, sem tal-
inn er hafa verið aðalskipuleggjandi
hryðjuverkaárásanna 2001.
Bin Laden
gegn vaxtaokri
Fyrrverandi þungarokkari sagður
veita leiðtoganum fjölmiðlaráðgjöf
Osama bin Laden Adam Gadahn