Morgunblaðið - 12.11.2007, Blaðsíða 12
12 MÁNUDAGUR 12. NÓVEMBER 2007 MORGUNBLAÐIÐ
ÚR VERINU
Fiskneyzlan virðist vera að breytast íBretlandi. Þorskurinn og ýsan ríkjaþó enn eins og kóngur og drottningí ríki sínu og eldislaxinn nýtur
feikilegra vinsæla. Aukning hefur verið á sölu
þessara tegunda á árinu, en frekar lítil. Al-
menn fiskneyzla eykst jafnt og þétt og þar
koma nýu tegundirnar sterkar inn. Þar má
nefna smokkfisk, beitarfisk, laxaborra, ástr-
alskan lungnafisk og ufsa, en sala á honum
hefur aukizt um hvorki meira né minna en
900% á árinu. Þá sækir hinn víetnamski eld-
isfiskur pangasius í sig veðrið á mörkuðunum.
Skýringin á sókn nýrra tegunda inn á
brezka markaðinn er í raun eðlileg. Framboð
á þorski hefur dregizt verulega saman en
ýsuframboðið er reyndar nokkuð gott. Aukið
fiskát hlýtur því að leiða til neyzlu á öðrum
tegundum, sem í flestum tilfellum eru líka
ódýrari en þorskurinn og ýsan. Brezku smá-
sölunni hefur tekizt að fá neytendur til að
prófa nýjar tegundir og sætta sig við þær í
staðinn fyrir þorsk og ýsu. Yngra fólkið er
ekki eins íhaldssamt og það eldra og neyzlu-
mynstrið breytist.
En af hverju er verið að spá í þessa þróun?
Getur hún reynzt neikvæð fyrir okkur? Það
er góð spurning. Íslendingar standa nú
frammi fyrir minnsta þorskafla í um hundrað
ár. Þessi litli kvóti veldur því svo að líklega
nást ekki leyfilegar heimildir í öðrum teg-
undum eins og ýsu, vegna mikils þorsks sem
meðafla. Þetta leiðir til minna framboðs frá
Íslandi og það getur til þess komið að ekki
reynizt unnt að svara eftirspurn á einhverjum
mörkuðum. Það getur svo leitt til þess að aðr-
ar tegundir fylli upp í gatið og það getur
reynzt afar erfitt að bola þeim burt, þegar
þorskafli hér eykst á ný. Það blasir líka við að
lítið verður um þorskkvóta næsta sumar. Ef
ekki verður hægt að standa við stöðugleika í
afhendingu fyrir helztu kaupendur á ferskum
fiski á þeim tíma geta mjög verðmæt við-
skiptasambönd glatazt. Fiskinn verða stór-
markaðirnir að fá og fáist hann ekki frá Ís-
landi verður hann auðvitað sóttur eitthvað
annað. Þetta er mikilvægast í ferska fiskinum
og því má gera ráð fyrir því að hlutfall fisks
sem fer í þá vinnslu aukist samfara nið-
urskurðinum í þorskinum. Það þýðir þá á
móti að minna fer í aðra verkun eins og sölt-
un. Þá getur farið svo að eftirspurn eftir salt-
fiski verði ekki annað. Kaupendur á Spáni,
Portúgal og Ítalíu verða þá að leita eitthvað
annað. Finni þeir hagkvæma lausn á þessum
vanda, er vart við því að búast að sá mark-
aður vinnist á ný, nema með því að bjóða
lægra verð en nú fæst.
Það er því ljóst að það skiptir máli fyrir
okkur hvað fisk Bretarnir borða. Það skiptir
líka máli hvernig við bregðumst við nið-
urskurðinum. Á hvaða markaði við leggjum
áherzlu og hverja ekki. Við getum ekki þjón-
að öllum undir þessum kringumstæðum.
Kóngur og drottning í ríki sínu
» Almenn fiskneyzla eykstjafnt og þétt og þar koma
nýu tegundirnar sterkar inn.
Bryggjuspjall
Hjörtur Gíslason
hjgi@mbl.is
Eftir Hjört Gíslason
hjgi@mbl.is
HÓPUR Frakka, skipstjórar og út-
gerðarmenn, voru í síðustu viku hér
á landi að kynna sér veiðar með
dragnót. Þeir hafa stundað útgerð
og veiðar á trollbátum, en hafa í
hyggju að reyna dragnótina. Þeir
komu hingað vegna þess að þeim var
kunnugt að hér væru stundaðar
verulega veiðar með dragnót. Notk-
un hennar er fátíð í Frakklandi.
Frakkarnir voru hér í tæpa viku.
Þeir heimsóttu Netaloftið, netaverk-
stæði í Grindavík, og kynntu sér
ýmsar útfærslur á dragnótinni. Þeir
fóru í róður með þremur dragnóta-
bátum frá Keflavík. Það var neta-
gerðarbraut Fjölbrautaskóla Suð-
urnesja, sem hafði veg og vanda af
heimsókninni og fræddi Frakkana
um dragnótina. Frakkarnir voru
mjög ánægðir með heimsóknina,
sérstaklega róðrana. Nú eru tæki-
færi til þess að smíða nýja báta í
Frakklandi og því vilja þeir í það
minnsta hafa möguleika á að nota
dragnótina til viðbótar við trollið,
þegar nýju bátarnir verða hannaðir
og smíðaðir. Þess vegna kynntu þeir
sér einnig dragnótarvindur frá Ósey
og íhuga nú hugsanleg kaup á búnaði
til veiðanna, bæði veiðarfæri og
vindur.
Hátt olíuverð ræður miklu
Dragnótin er talin góður kostur
vegna hins háa olíukostnaðar, sem
plagar útgerðina um allan heim.
Mun minni olíunotkun er við veiðar
með dragnót en troll. Staðan í
Frakklandi er slæm núna, því ekki
eru lengur veittir styrkir til kaupa á
olíu og stendur yfir verkfall útgerð-
ar- og sjómanna vegna þess.
Lárus Pálmason, forstöðumaður
netagerðarbrautarinnar, segir að
Frakkarnir hafi verið ánægðir með
heimsóknina, enda hafi þeir fengið
fræðslu um alla þætti veiðanna og
gerð veiðarfæranna. Þeim hafi verið
sýndar ýmsar gerðir af dragnót í
veiðarfæratanki skólans. Þeir hafi
líka farið í róðra með bátunum Sigga
Bjarna, Geir og Njáli, sem voru að
veiðum á þorski, ýsu og kola.
Sérstakt fyrirtæki
stofnað við skólann
En hvers vegna komu Frakkarnir
hingað?
„Við stofnuðum fyrirtæki hér fyrir
nokkru, skólameistari, ég og fleiri
aðilar út atvinnulífinu, sem heitir
International School of Fishing Gear
Technology. Við höfum verið með
auglýsingar reglulega í alþjóðlega
sjávarútvegsblaðinu Fishing New
International, þar sem boðið er upp
á ýmis námskeið á sviði veið-
arfæratækni. Þetta er fjórði hóp-
urinn, sem kemur hingað frá Frakk-
landi. Sá fyrsti kom hingað í gegnum
þetta fyrirtæki í kjölfar auglýsing-
anna. Síðan hefur þetta spurzt út.
Segja má að þetta sé orðið bisness
og gefi okkur tækifæri til þess að
halda deildinni opinni lengur en ella
væri.
Sá sem kom hingað fyrstur frá
Frakklandi í fyrra, Nicholas Pen-
ison, gerir þar út bát og er þriðji ætt-
liðurinn í því. Eftir komuna hingað
ákvað hann að breyta bátnum sínum.
Hann átti bát sem stundaði veiðar á
túnfiski í nót. Nú er breytingunum
að ljúka og hann reiknar með því að
fara að hefja veiðar í dragnót um
miðjan mánuðinn. Hópurinn sem var
hjá okkur er líka að fylgjast með því
hvernig það gengur.
Lítið um að vera innanlands
Það er lítið að gerast í þessum
málum innanlands eins og er. Við
stofnuðum því þennan alþjóðlega
skóla til að færa út kvíarnar og ná í
fleiri verkefni að utan, vegna sam-
dráttarins heima fyrir. Hann skýrist
af breytingum í útgerðinni og flóru
netaverkstæða, en þar hefur mikil
samþjöppun orðið undanfarin ár.
Aðsóknin hefur farið minnkandi en
nú erum við með fimm nemendur í
fjarnámi. Við höfum líka verið með
verkefni fyrir Sjávarútvegsháskóla
Sameinuðu þjóðanna. Höfum tekið
hingað nemendur í sérstök námskeið
sem hafa verið á veiðitæknilínunni
og verið að einbeita sér að veið-
arfærunum. Sú lína er hins vegar
ekki í gangi hjá þeim í ár,“ segir Lár-
us.
Hann segir að aðsóknin að braut-
inni hafi smátt og smátt verið að
dala. Netaverkstæðum sé að fækka
og þar hafi í raun tvær blokkir myn-
dazt í landinu, Ísfell og Hampiðjan.
Sum verkstæði hafi verið lögð niður
og starfsfólki fækkað á öðrum vegna
hagræðingar, enda sé að fækka þeim
aðilum, sem þurfi þjónustu verk-
stæðanna. Það sé í samræmi við
fækkun skipa og tilfærslur í útgerð-
inni.
Frakkar læra á dragnót
Alþjóðlegur skóli í veiðarfæratækni við Fjölbrautaskóla
Suðurnesja kynnti þeim veiðarfærið og notkun þess
Morgunblaðið/Hjörtur
Fiskveiðar Hópur Frakka, útgerðarmenn og skipstjórar, hafa verið hjá FS til að kynna sér veiðar með dragnót.
Í HNOTSKURN
»Nú eru tækifæri til þess aðsmíða nýja báta í Frakk-
landi og því vilja þeir í það
minnsta hafa möguleika á að
nota dragnótina til viðbótar
við trollið.
»Staðan í Frakklandi erslæm núna, því ekki eru
lengur veittir styrkir til kaupa
á olíu og stendur yfir verkfall
útgerðar- og sjómanna vegna
þess.
»Segja má að þetta sé orðiðbisness og gefi okkur tæki-
færi til þess að halda deildinni
opinni lengur en ella væri.
HÆGT er að aðskilja tegundir í botn-
vörpu að verulegu leyti, svo sem
þorsk og ýsu. Þetta kom fram í leið-
angri Hafrannsóknastofnunarinnar,
sem farinn var í október. Úrvinnslu
gagna er ekki að fullu lokið og mun
stofnunin vinna frekar að úrvinnslu
og rannsóknum á lagskiptri botn-
vörpu á næstu vikum svo unnt verði
að leggja til breytingar á fyrirkomu-
lagi botnvörpuveiða.
Rannsóknirnar fóru fram með lag-
skiptri botnvörpu í samstarfi Haf-
rannsóknastofnunarinnar og HB-
Granda. Gerðar voru tilraunir með að
aðskilja þorsk og ýsu í botnvörpu
þannig að tegundirnar hafni í sitt
hvorum vörpupokanum, efri og neðri.
Var rannsóknin gerð þannig að netþil
var sett í endilanga vörpuna svo fisk-
ur sem heldur sig ofarlega í vörpunni
safnast í annan hluta poka en sá sem
heldur sig í neðri hluta vörpunnar.
Tilgátan var að með þeim hætti mætti
til dæmis aðgreina ýsu og þorsk enda
er þekkt að þessar tegundir sýna mis-
munandi atferli gagnvart botnvörpu.
Hámarka veiðni
Hugmyndin með þessum prófun-
um var að athuga hvort atferli fisks-
ins leiddi til aðskilnaðar tegundanna í
vörpunni. Ef slíkt ætti sér stað myndi
það ekki einungis auka gæði afla og
auðvelda vinnslu hans heldur gæti
það leitt til þess að hægt væri að há-
marka veiðni vörpunnar fyrir fleiri en
eina tegund af mismunandi stærðum.
Þannig mætti hámarka veiðni hennar
með því að nota eina möskvastærð til
að halda ýsu samkvæmt gildandi
reglum um undirmál og um leið má
nota aðra möskvastærð til að sleppa
til dæmis smáþorski út úr vörpunni.
40 tog tekin
Við rannsóknina voru notuð veið-
arfæri Örfiriseyjar RE 4 en þeim sér-
staklega breytt fyrir tilraunina. Í leið-
angrinum náðust 40 tog og var gerður
samanburður á mismunandi út-
færslum veiðarfærisins, mismunandi
möskvastærðir og lengd milliþils, við
mismunandi botngerð, harður botn
og leir, og einnig með tilliti til tíma
dags. Í ljós kom að stærð möskva í
milliþili hafði áhrif á aðskilnað ýsu og
þorsks þannig að með stærri möskva
jókst hluti ýsu í efri poka, fór úr 78%
með 80 millimetra möskvastærð í
96% með 370 millimetra þili. Jafn-
framt kom í ljós að hlutur ýsu í efri
poka var meiri að degi til, en að nóttu
með stórriðna þilinu.
Botnlag hefur áhrif á þorskinn
Ekki voru merkjanlegar dægur-
sveiflur í hlutfallaskiptingu með 80
millimetra þili, hvorki fyrir þorsk né
ýsu. Botnlag hafði áhrif á hlutfalla-
skiptingu þorsks í poka, en ekki ýsu.
Á hörðum botni var hlutfall þorsks í
efri poka með 80 millimetra þili ein-
ungis 12%, en 59% á mjúkum botni.
Með stórriðnu þili jókst hlutfall
þorsks úr 12% í 73%. Hlutfallaskipt-
ing fisks í poka var lengdarháð fyrir
bæði þorsk og ýsu, og var hlutfall
smáfisks í neðri poka lítillega hærra
en hlutfall stærri fisks.
Hægt að skilja
þorsk og ýsu
að í botnvörpu
Unnið að tillögum að breytingum
á fyrirkomulagi botnvörpuveiðanna
Í HNOTSKURN
»Gerðar voru tilraunir með aðaðskilja þorsk og ýsu í botn-
vörpu þannig að tegundirnar
hafni í sitt hvorum vörpupok-
anum, efri og neðri.
»Á hörðum botni var hlutfallþorsks í efri poka með 80
millimetra þili einungis 12%, en
59% á mjúkum botni. Með stór-
riðnu þili jókst hlutfall þorsks úr
12% í 73%.
»Með stærri möskva jókst hlutiýsu í efri poka, fór úr 78%
með 80 millimetra möskvastærð í
96% með 370 millimetra þili.
Morgunblaðið/Alfons Finnsson
Rannsóknir Hægt er að aðskilja þorsk og ýsu í botnvörpu og þannig leggja
áherzlu á aðra hvora tegundina og jafnframt bæta gæði fisksins.