Morgunblaðið - 17.04.2008, Blaðsíða 37

Morgunblaðið - 17.04.2008, Blaðsíða 37
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 17. APRÍL 2008 37 söng 1. bassa, Friðjóni Þórðarsyni mági sínum 2. bassa og Gunnari Einarssyni 1. tenór. Þessir menn sungu líka í Karlakór Reykjavíkur um árabil. Leikbræður nutu mikilla vinsælda á sínum tíma og enn má heyra upptökur af söng þeirra á öld- um ljósvakans. Ástvaldur tók virkan þátt í fé- lagsstarfi Karlakórs Reykjavíkur. Hann gegndi embætti formanns frá árinu 1976 til 1980 en á þeim tíma ferðaðist kórinn til Kína, sem er lengsta ferð í sögu hans. Þá vann hann ötullega að húsbyggingarmál- um kórsins. Árið 1980 var hann gerður að heiðursfélaga í Karlakór Reykjavíkur. Fleira var Ástvaldi til lista lagt. Hann var hagmæltur og féllu af vörum hans fjölmargar tækifæris- vísur við hin ýmsu tækifæri í starfi kórsins. Hann var einnig listaskrif- ari og var hann oft fenginn til að skrautskrifa kveðjur með gjöfum sem félögum voru færðar á stóraf- mælum. Það þótti því vel til fundið þegar eldri félagar færðu Karlakór Reykjavíkur forkunnarfagran fé- lagsfána að gjöf í tilefni af 80 ára af- mælis kórsins árið 2006, að Ástvald- ur skrautritaði kveðju í kortið sem fylgdi, kveðju sem hann hafði ort. Sú kveðja bar vott um skýran hug og styrka hönd þrátt fyrir að háum aldri væri náð. Fyrir þessa kveðju þakka félagar í Karlakór Reykja- víkur enn og aftur og ekki síst fyrir samfylgd í rúma fjóra áratugi. Um leið sendum við fjölskyldu Ástvald- ar Magnússonar hugheilar samúð- arkveðjur. F.h. Karlakórs Reykjavíkur, Vigfús M. Vigfússon formaður. Er við Capri að ægi sígur hin gullna sól. Þannig orti Friðjón Þórðarson sýslumaður, mágur Ástvaldar, og þeir félagar í Leikbræðrum sungu. Þjóðin lærði á augabragði þau fal- legu lög sem Leikbræður fluttu vítt og breitt um landið, voru hljóðrituð og mikið leikin í útvarpi landsmanna á mínum ungdómsárum. En Ást- valdi og félögum var margt fleira til lista lagt en syngja, þótt tónlist og söngur hafi áreiðanlega verið mest- ur gleðigjafi í lífi þeirra félaga og fjölskyldna þeirra, en þar eru óvenjulega hæfileikaríkir tónlistar- menn á hverju strái. Ég kynntist Ástvaldi fyrst á þann veg að góðvinur hans og félagi, Sig- urður Baldursson hrl., sagði við mig einn góðan veðurdag í rúblunni á Laugavegi 18, þar sem við störfuð- um báðir: „Baldur, eigum við ekki að brjótast til valda.“ Sú gjörð var í því fólgin að fara suður í Hafnar- fjörð þar sem Ástvaldur starfaði sem útibússtjóri Iðnaðarbankans. Ég hreifst strax mjög af þessum fjölhæfa og gáfaða manni og þar hófust þau nánu og innilegu kynni sem hafa staðið allt til síðasta dags. Ástvaldur var um þær mundir for- maður Karlakórs Reykjavíkur og kom heim til mín eina bjarta nótt um vor og með honum í för voru Sig- urður Baldursson og Páll P. Páls- son, tónskáld og stjórnandi Karla- kórsins. Undir morgun var handsalað að frá og með þeim degi kæmi ég til liðs við kórinn. Ástvaldur var lífið og sálin í starfi kórsins. Hann var hrókur alls fagn- aðar á æfingum og ferðalögum, ágætlega hagmæltur og sífellt að kasta fram stöku. Enn treystust vináttuböndin þegar við gengum báðir til liðs við kór eldri félaga. Minnisstæðust eru mér hin mörgu söngferðalög okkar vestur í Dali, bæði á Jörfagleði og við önnur tæki- færi. Þá fóru þeir á kostum feðg- arnir Ástvaldur og Magnús. Strax og komið var í Hvalfjörð tók Friðjón sýslumaður við fararstjórn. Lýsing- ar hans og sögur af náttúru, mann- lífi, jafnt frumlegum mönnum og fyrirmönnum, lifnaðarháttum og pólitískri baráttu eru öllum sem nutu ógleymanlegar. Og jafnljúfur maður og Friðjón er lét sig ekki muna um að endurtaka sögustund- irnar í hvert sinn sem við fórum vestur. Síðasta söngferð okkar eldri félaga var tileinkuð Leikbræðrum og við sungum syrpu af lögum þeirra í Búðardal. Þar voru þeir Ástvaldur og Friðjón ákaft hylltir. Ástvaldur var mjög heillandi maður. Hann var hinn mesti kátínu- og gleðimaður og hver stund með honum var lifandi og skemmtileg. Allt lék í höndum Ástvaldar. Það var gaman að sjá hann ganga til verks þegar hann innréttaði skrif- stofu sína á Klapparstíg, en þar var ég um skeið daglegur gestur. Það er mikil gæfa að hafa verið samtíma- maður og vinur jafn mikilhæfs manns. En nú er hin gullna sól hnigin til viðar. En það er huggun harmi gegn að sólin mun aftur rísa úr sæ og af geislum hennar stafa mikil birta. Baldur Óskarsson. Við hittumst fyrst í Karlakór Reykjavíkur árið 1969. Hann söng þá 1. bassa, en kynni okkar urðu fyrst náin í Eldri félögum upp úr 1994 en þar stóðum við jafnan hlið við hlið í 2. tenór. Ástvaldur var mjög góður kórmaður og jafnframt ósérhlífinn félagsmálamaður sem vann ötullega að málefnum beggja kóranna. Við hjónin hittum Guðbjörgu og Ástvald oft á samkomum kóranna. Þau minntust þá gjarnan á heima- hagana vestur í Dölum og hvöttu okkur til að líta við í Brekku, sum- arbústað sínum á Breiðabólstað. Það gerðum við í ágúst 1997 og átt- um með þeim ógleymanlegan dag í ferð fyrir Klofning þar sem þau fræddu okkur um byggðina, eyjarn- ar og sögufræga staði. Í þessari ferð urðum við hjónin margs vísari um það fagra og menningarlega um- hverfi sem Ástvaldur var sprottinn úr. Nálægðin við skáldin Stefán frá Hvítadal og Jón frá Ljárskógum hlaut að hafa sín áhrif, enda urðu lög við ljóð þeirra síðar meðal við- fangsefna kvartettsins Leikbræðra. – Í viðtali við Ástvald í Tímariti MM (1. hefti 2008) segir hann m.a. frá Stefáni sem á fullorðinsárum hokr- aði með konu sinni og 10 börnum í Bessatungu í Saurbæ, næsta bæ við Fremri-Brekku, fæðingarbæ Ást- valdar; einnig frá Steini Steinari sem á unglingsárum sínum var um tíma vinnumaður á Fremri-Brekku. – Eftir lestur þessarar frásagnar má gera því skóna að dálæti föð- urömmunnar á kveðskap Stefáns hafi m.a. átt sinn þátt í því að kveikja áhuga Ástvaldar á ljóðum, söng og yrkingum. Honum veittist einkar létt að setja saman vísur. Hann var líka listaskrifari og leit- uðu kórarnir gjarnan til hans þegar skrautrita þurfti gjafakort vegna ýmissa tækifæra. Og allt sem tengd- ist trésmíði lék í hendi hans. Margir munu minnast Ástvaldar sem eins af félögunum í kvartettin- um Leikbræðrum sem stofnaður var 1945 „fyrir hálfgerða tilviljun“ eins og mágur hans Friðjón Þórð- arson orðaði það einhvern tíma við undirritaðan. Þessi „tilviljun“ átti sér stað í júní þetta ár í ferð Breið- firðingakórsins frá Stykkishólmi til Reykjavíkur. Ekið var um Kerlingarskarð og áð þar við lágan ás. Þar stungu fjór- menningarnir sér út úr hópnum, gengu norður með ásnum og námu staðar í kjarri vaxinni brekku sem þeir nefndu síðar Fögrubrekku. Þar sungu þeir saman Erla góða Erla og Ég vil elska mitt land. Þetta var upphafið á 10 ára nánu og farsælu samstarfi þeirra félaga. – Frásögn Ástvaldar um þetta birtist í tímarit- inu Breiðfirðingi (39.-40. ár, 1982) og var rifjuð upp er Eldri félagar sungu nokkur Leikbræðralög á Jörvagleði í Búðardal vorið 2005 í tilefni af 60 ára afmæli kvartettsins. – „Leikbræðraplatan“ kom út 1977 og eru lögin nú til á geisladiski. Ást- valdur átti stærstan þátt í að safna saman þeim lögum sem þeir fé- lagarnir sungu og búa undir prent- un heftið „Söngbræðralög – 40 sönglög“. Það kom út haustið 1990 og hefur nú verið endurútgefið. Meðal síðustu verka Ástvaldar var að skrifa sögu Leikbræðra og bíður það verk prentunar. Við hjónin geymum minningu um góðan dreng og sendum fjölskyld- unni og öllu venslafólki samúðar- kveðjur. Gunnar Guttormsson. „Þú verður að sjá rafstöðina,“ var eitt það fyrsta sem Ástvaldur sagði við mig, þegar ég kom síðla kvölds að Brekku, sumarbústað þeirra Guðbjargar Helgu og Ástvaldar á Breiðabólstað á Fellsströnd í Döl- um. Þarna höfðu hinar högu hendur Valda fangað bæjarlækinn, sem veitti nú birtu og yl í bæinn. Kvöldstundin og gistingin hjá þeim hjónum síðla sumars fyrir nokkrum árum hefur breyst í ein- staklega bjarta og notalega minn- ingu. Og í hlýlegri stofunni sagði Guðbjörg mér frá stráknum úr Saurbænum, sem hún var að skjóta sér í, en fékk ekki fararleyfi af Fellsströndinni til að hitta á ein- hverri samkomu unga fólksins í Döl- unum. Þá rifjaðist upp fyrir mér, þegar Ástvaldur fór í míkrafóninn í rútunni eftir vel heppnað kvöld á Góugleði í Búðardal og sagði sögur úr Dölum, m.a. þegar hann sýndi sínar bestu hliðar í íþróttum á hér- aðsmóti Dalamanna og Guðbjörg var í áhorfendahópnum. Kannski eru það vængir söngsins sem gera þetta allt svo rómantískt í minning- unni? Svo eru það Leikbræðurnir. Árið sem bassinn silkimjúki frá Ljár- skógum kvaddi sigldu fjórir ungir menn um spegilsléttan Breiðafjörð- inn á Jónsmessunni og það var spil- að og sungið, enda Breiðfirðinga- kórinn með í ferð. Á heimleiðinni var áð í skógarbrekku rétt vestan við Hítará og félagarnir settust að í kjarrivaxinni lautu og sungu; Ég vil elska mitt land og Erla góða Erla eftir Dalaskáldið Stefán frá Hvíta- dal. Leikbræður voru orðnir til sem söngkvartett og brekkan góða hlaut nafnbótina; Fagrabrekka. Nú er Friðjón Þórðarson einn eftir úr hópnum. Mér finnst á stundum sem í Döl- unum hafi tekist best að sameina ljóðið og lagið í mjúka ábreiðu, sem leggst yfir landið – undurblítt og söngurinn hljómar yfir dal og strönd. Þá koma í hug Ástvaldur og allir hinir Dalamennirnir sem ég hef staðið með á mismunandi pöllum til- verunnar. Í áratugi voru Karlakór Reykja- víkur og Eldri félagar kórsins einn af þessum söngpöllum. Ég ætla að nefna aðeins eitt orð um Ástvald Magnússon – mann- kostamaður. Blessuð sé minning þeirra hjóna; Guðbjargar og Ást- valdar – Dalamanna. Reynir Ingibjartsson. Leiðir okkar Ástvaldar lágu fyrst saman fyrir rúmum aldarfjórðungi á Siglingamálastofnun ríkisins þar sem við störfuðum saman í u.þ.b. tíu ár. Ástvaldur var sérstakur sóma- drengur. Hann var allt í senn fág- aður fagurkeri, félagslyndur og ein- stakur hagleiksmaður í hverju því sem hann tók sér fyrir hendur. Allt lék í höndum hans hvort sem var í leik eða starfi. Það skipti ekki máli hvort það var bókhald, smíðar eða söngur, öllu skilaði hann með slíkri fágun og stíl að tæpast verður betur gert. Það var mikill fengur fyrir Sigl- ingamálastofnun að fá Ástvald í sín- ar raðir, en þar starfaði hann á ann- an áratug, lengst af sem skrifstofustjóri og hafði umsjón með rekstrar- og starfsmannamálum. Hann hafði góð áhrif á starfsandann og átti stóran þátt í því að gera vinnustaðinn jafn skemmtilegan og raun bar vitni. Árshátíðir, sumar- ferðir og aðrar samverustundir starfsmanna utan vinnutíma voru oftast skipulagðar af Ástvaldi og hann var hrókur alls fagnaðar þegar á hólminn var komið. Æskuslóðirn- ar voru Ástvaldi einstaklega kærar. Hann var alla tíð mikill Dalamaður í hjarta sínu og því var ekki að undra að árleg starfsmannasamkoma okk- ar á þorra fékk fljótlega nafnið Jörvagleði, en það mun vera þekkt- asta samkvæmi að fornu meðal Dalamanna. Það er þó trú mín að þessar samkomur hafi átt lítið sam- eiginlegt annað en nafnið eitt. Ást Ástvaldar á Dölunum kom oft fram hjá honum í daglegu tali, en um- hyggja hans og natni við sumarbú- staðinn sem þau Ástvaldur og Guð- björg eiginkona hans byggðu sér á föðurleifð hennar á Breiðabólstað, sagði allt um þær hlýju tilfinningar sem hann bar til sveitarinnar. Við hjónin áttum þess kost að heim- sækja þau í tvígang í sumarbústað- inn þar sem þau dvöldu ávallt þegar færi gafst og í bæði skiptin var Ást- valdur í vinnugallanum að smíða og dytta að húsinu enda var hann sí- vinnandi og féll sjaldnast verk úr hendi. Fljótlega eftir að Ástvaldur hætti störfum á Siglingamálastofnun fyrir aldurs sakir tóku þau hjónin upp þann skemmtilega sið að líta við á heimili okkar Ragnheiðar eftir mið- nætti á gamlársdag þegar þau höfðu fagnað áramótum með fjölskyldu sinni. Þessar heimsóknir voru okkur mjög kærar og eftirminnilegar. Guðbjörg settist við píanóið, Ást- valdur leiddi sönginn og allir tóku undir af hjartans lyst langt fram undir morgun. Þannig var það reyndar jafnan að gleðin fylgdi þeim hvert sem þau fóru. Minnisstæð er starfsmannaferð Siglingamála- stofnunar sem farin var í Munaðar- nes vorið 1990. Guðbjörg sat úti á palli við skemmtarann og spilaði af fingrum fram og Ástvaldur hélt uppi fjörinu á þann hátt að Söngva- keppni evrópsku sjónvarpsstöðv- anna sem fram fór á sama tíma átti ekki möguleika að keppa við þau hjónin um athygli. Ástvaldur og Guðbjörg voru einkar samrýnd hjón og það var eft- irtektarvert að sjá þá umhyggju sem þau sýndu hvort öðru. Það var Ástvaldi mikið áfall þegar Guðbjörg féll frá á sl. ári og við fundum vel hve söknuður hans var sár. Við Ragnheiður sendum börnum Ástvaldar og fjölskyldunni dýpstu samúðarkveðjur um leið og við þökkum forsjóninni fyrir að hafa kynnst og notið vináttu þeirra Ást- valdar og Guðbjargar. Guð blessi minningu þeirra. Magnús Jóhannesson. Í rúm 40 hafa eldri félagar úr Karlakór Reykjavíkur sungið sam- an, enda er sagt að söngurinn lengi lífið og menn eru blessunarlega lausir við að finnast þeir gamlir, geti þeir staðið á söngpöllunum og sung- ið. En alltaf kemur að leiðarlokum og nú kveðjum við einn okkar elsta og besta félaga – Ástvald Magnús- son. Ástvaldur hefur sjálfsagt sungið allt sitt líf og verið í mörgum kórum. Lengi söng hann í Karlakór Reykja- víkur og var formaður kórsins um skeið, en færði sig síðan yfir í kór eldri félaga og var með allt fram á síðasta haust. Eitt það ánægjulegasta sem eldri félagarnir tóku sér fyrir hendur í söngnum var að syngja syrpu af lög- um, sem kvartettinn Leikbræður sungu fyrir meira en hálfri öld. Ást- valdur var í þessum kvartett og þeg- ar 60 voru liðin frá stofnun hans árið 1945 þótti mjög við hæfi að taka nokkur af þessum lögum á söngskrá kórsins. Annar félagi úr Leikbræðr- um var líka í hópnum, mágur Ást- valdar, Friðjón Þórðarson, og að sjálfsögðu var farið í Dalina og sungið þar. Ástvaldur var ekki aðeins góður söngmaður, heldur einstaklega hlýr og glaður félagi sem sárt er saknað úr hópnum. Fyrir rúmu ári lést Guðbjörg kona hans og það var ekki langt á milli þessara sæmdarhjóna, enda sérstaklega samrýnd. Við gamlir félagar þökkum fyrir mörg góð ár og sendum börnum og öðrum aðstandendum okkar inni- legustu samúðarkveðjur. F.h. eldri félaga í Karlakór Reykjavíkur, Lárus Lárusson. Þeim fækkar óðum eldri félögum Karlakórs Reykjavíkur, sem með mér störfuðu sl. 14 ár. Ég get þakk- að Ástvaldi það að ég réðst til að leiða söng þeirra félaga, en það var hann sem færði það fyrstur í tal við mig. Hann starfaði með mér öll árin og ég fann strax að þar fór enginn venjulegur maður. Það sem ein- kenndi hann fannst mér vera ljúf- mennska, dæmafá. Hann hafði mikla söngreynslu og hafði mikið að gefa. Oftar en ekki leitaði ég í smiðju hans þegar mig vantaði út- setningar. Ég minnist söngferðalaga okkar, einkum þegar Ástvaldur fór í hljóð- nemann, þá sagði hann okkur ým- islegt spaugilegt enda var hann hrókur alls fagnaðar í góðra vina hópi. Hann studdi mig í starfi með ráðum og dáð og var jafnan at- kvæðamikill í félagsstarfinu. Hann var þeirrar gerðar að öllum hlaut að þykja vænt um hann sem honum kynntust. Við starfslok mín vildi hann sæmd mína sem mesta og þeir feðgar buðu mér í mat og færðu mér síðar gjöf. Ég er þakklátur fyrir samfylgd- ina og votta ástvinum hans mína dýpstu samúð. Kjartan Sigurjónsson. Mikill drengskaparmaður er fall- inn frá (í hárri elli mundi hafa verið sagt hér áður), en á Ástvaldi Magn- ússyni var ekki elli að sjá þótt hann væri kominn hátt í nírætt, eða átta- tíu og sjö ára. Ástvaldi kynntist ég fyrst 1955. Með okkur skapaðist strax vinátta sem aldrei bar skugga á. Sá sem einu sinni hafði kynnst Ástvaldi hlaut að muna strax hans glaðlega skap og einstaklega góða umtal um alla er hann þekkti. Sam- leið okkar Ástvaldar minnkaði í nokkur ár. Atvikin voru kannski þau m.a. að talsverður aldursmunur var á okkur, og svo að áhugamálin voru ólík. Á árunum fyrir 1960 urðu kynni okkar nánari er við byggðum okkur íbúðir í Langholtshverfi, hann í Álfheimum 19 en við hjónin í Gnoðarvogi 18. Um 1960 keypti ég bíl af Ástvaldi, Mercedes Bens 220, 1952-módel. Þann bíl flutti Ástvald- ur inn og var hann vel með farinn og bar eiganda sínum svo sannarlega gott vitni. Löngu síðar er við Ást- valdur hittumst var hann að biðja mig afsökunar á smárispum sem höfðu verið á bílnum. Hann sagði mér að þau hjón hefðu átt sumarbú- stað á Brekku í Dölum en þar hefðu hestar nagað bretti bílsins. Mér sýndist þetta nú smámunir einir. Ég var á sjúkrahúsi er Guðbjörg Helga lést og sannarlega vissi ekki af því vegna sjúkdóms míns. Ég veit að góður guð blessar minningu þessara ágætu hjóna. Hafið þökk fyrir góð kynni. Ástvinum öllum færi ég blessun guðs, og bið þann er öllu ræður að leggja líkn með þraut. Karl Jóhann Ormsson. ✝ Þökkum auðsýnda samúð og hlýhug við andlát og útför eiginkonu minnar, móður, tengdamóður og ömmu, BÓELAR SIGURGEIRSDÓTTUR, Hávegi 9, Kópavogi. Hermann Kristinsson, Sigurlín Hermannsdóttir, Ingólfur Sigurjónsson, Rúnar Þór Hermannsson, Kristbjörg Hermannsdóttir, Ásta S. Karlsdóttir, ömmubörn og langömmubörn.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.