Morgunblaðið - 01.06.2008, Page 42

Morgunblaðið - 01.06.2008, Page 42
42 SUNNUDAGUR 1. JÚNÍ 2008 MORGUNBLAÐIÐ UMRÆÐAN ÞEGAR kemur að þeim áfanga í lífi margra að verða andlega og líkamlega fatlaður sökum veik- inda, elliglapa eða annarra orsaka og þurfa á daglegri umönnun fag- fólks að halda, þá kemur oft sá beiski kaleikur á borð aðstand- enda að þurfa að ráða fram úr því vandamáli hvað ein- staklingnum er fyrir bestu. Heimilisaðstæður eru oftast þær að um- hverfið er hættulegt, allir nákomnir víðs fjarri að keppast við sitt daglega brauð- strit og í besta falli maki á svipuðum aldri og ásigkomulagi eftir á heimilinu til að ann- ast viðkomandi ein- stakling, sem af ein- hverjum ástæðum missir tökin á dag- legum nauðþurftum til sjálfs- bjargar. Þá er enn í okkar samfélagi þannig háttað málum að úr- slitakosturinn er að vista ein- staklinginn á heilsugæslustofnun sem býður reyndar uppá fagþjón- ustu fólks sem allt er af vilja gert til að láta öllum líða sem best má verða við þær aðstæður sem í boði eru. EN – það eru aðstæðurnar sem aðstandendum í þessum sporum blöskrar og þeir geta ekki sætt sig við að velja sínum nánustu til ófyrirsjáanlegrar dvalar. Það er ekki boðlegt, þeim sem enn eiga eftir talsvert af mann- legri reisn og stolti, að vera holað niður á mjóan rúmbás með eitt lít- ið sjúkrastofunáttborð skorðað í minnsta afmörkuðu plássi, á her- bergi með öðrum í misjöfnu ferli og oft mikið lengra gengnum inn í eilífðina með því áreiti sem því fylgir. Okkar ríka þjóðfélag er nú sem betur fer fyrir nokkru búið að hrista af sér slenið í aðbúnaði van- gefinna og fatlaðra á öðrum sviðum, með heimilislegu fyr- irkomulagi á sam- býlum þar sem hver hefur sitt eigið her- bergi fyrir sig og e.t.v. einhverja prívat muni við hæfi. Og sólarhringsvaktir, úr- vals starfsfólks sem gerir allt sem per- sónulegast með nær- gætnu viðmóti. Heilbrigðisstofnun, eins og á Blönduósi hefur einnig á að skipa úrvals starfsfólki sem gerir allt með sinni hjartahlýju eins vistlegt og framast má verða. En, – það er lítilsvirðing við svo gott starfsfólk og óvirðing við elli- glapafatlaða einstaklinga sem verða fyrir þeim örlögum að þola þá reynslu, að bjóða þeim vistun við svo óviðunandi aðstæður . Sársauki þeirra, og þeirra nán- ustu er nógur fyrir þó ekki þurfi að fylgja ævarandi samviskubit af að dæma fólk til þeirrar viðveru. Það væri Húnvetningum til mikils sóma og mörgum til mik- illar gleði, ef nú yrði undinn bráð- ur bugur að því að byggja eða út- búa öldruðum heimilislegt sambýli við hæfi þegar elliglöp og orka útheimta þá þjónustu. Hnit- björg og aðrir búsetukostir eru fyrir hendi, en þarna er slitni hlekkurinn í umönnunarúrkostum þeirra sem ganga síðasta spölinn í vegferð sinni og eiga betra skilið. „Sá er eldurinn heitastur sem á sjálfum brennur“ Guðríður B. Helgadóttir skrifar um aðbúnað aldraðra með elliglöp » Það væri Húnvetn- ingum til mikils sóma og mörgum til mikillar gleði, ef nú yrði undinn bráður bugur að því að byggja eða útbúa öldruðum heimilislegt sambýli við hæfi... Guðríður B. Helgadóttir Höfundur er húsmóðir og skógarbóndi. Í FYRRA samþykktu alþing- ismenn lög sem tryggðu sem unnt var aðgang fræði- manna að opinberum gögnum frá tímabilinu 1945 til 1991 um svo- kölluð öryggismál. Um þessa lagasetningu tókst samstaða á al- þingi Íslendinga. Sagnfræðingurinn Kjartan Ólafsson hefur nú í krafti þessara laga upplýst nöfn húsráð- enda á 32 heimilum þar sem sími var hleraður á þessum árum, í sex mislöngum lotum, sam- kvæmt úrskurði dómara að ósk þá- verandi dómsmálaráðherra, vænt- anlega fyrir hönd lögreglu. Ástæður eða rök fyrir hlerun koma ann- aðhvort ekki fram hjá ráðherra eða dómara eða eru afar losaraleg. Gögn um þessar hleranir eru ekki til – öðr- um sagnfræðingi segist svo frá að op- inberir starfsmenn hafi árið 1976 brennt þau í götóttri olíutunnu við sumarbústað þáverandi lög- reglustjóra í Reykjavík. Víst er að gögnin voru ekki notuð í sakamáli á hendur einum einasta af íbúum heim- ilanna 32. Flest bendir til að hler- anirnar hafi einfaldlega verið njósnir sprottnar af pólitískum rótum – blandnar ofsóknarlævi þeirra tíma sem við kennum nú við kalt stríð. Hræelduð víglína þessara ára „um hjarta okkar þvert" er nútímamönn- um fjarlæg, og fer vissulega best á því að eftirláta sagn- fræðingum hin hat- römmu átök þeirrartíð- armanna. „Lát hina dauðu jarða sína dauðu," sagði hinn kald- lyndi meistari. Einn er þó sá aðili þessa máls sem sóma síns vegna getur ekki unað við að bíða eftir dómi sögunnar. Það er íslenska ríkið. Rann- sókn Kjartans sýnir svo illa verður um villst að ríkisvaldið var á þess- um árum misnotað við freklega inn- rás í einkalíf fólks sem það einmitt átti að vernda – og þar við bætist að því var beitt til njósna um atferli níu starfandi þingmanna af hálfu póli- tískra andstæðinga við stjórnvöl al- mannavaldsins. Einfalt er að stjórnvöld nú biðji fólkið á heimilunum 32 – og niðja þeirra mörgu sem þegar eru látnir í þeim hópi – afsökunar á þessu fram- ferði. Í slíkri afsökunarbeiðni fælist einnig yfirlýsing um að tímar kalda stríðsins séu allir á Íslandi, og ekki síður sú heitstrenging að ríkisvaldið verði aldrei aftur notað til þeirra verka sem um ræðir. Það virðist vera ógæfa núverandi ríkisstjórnar í þessu efni að dóms- málaráðherrann telur sig bera per- sónulega ábyrgð á gerðum þess fyrrverandi dómsmálaráðherra sem fór fram á flestar hleranirnar. Það hefði einmitt gefið afsökunarbeiðni stjórnvalda sérstakt táknrænt gildi ef Björn Bjarnason hefði haft djörf- ung til að hefja sig yfir viðkvæmni gagnvart þessum verkum föður síns, Bjarna Benediktssonar, sem allir eru nú sammála um að var einhver merkasti stjórnmálamaður íslensk- ur á 20. öld. Slík yfirlýsing hefði ver- ið stórmannleg af hálfu Björns Bjarnasonar – og einmitt vegna hinna nánu tengsla hefði hún getað greitt öðrum för til fullrar sáttar. Það er Birni Bjarnasyni því miður ekki til aukinnar sæmdar að nú skuli þurfa að bíða þess að aðrir leiði þetta mál til lykta. Því miður Mörður Árnason skrifar um símhleranir á síðustu öld »Rannsókn Kjartans sýnir að ríkisvaldið var á þessum árum mis- notað við freklega inn- rás í einkalíf fólks sem það einmitt átti að vernda Mörður Árnason Höfundur er varaþingmaður fyrir Samfylkinguna. Þó brautin væri brött og hál og beitt væri gegn þér röngu, langt fer sá er líf og sál leggur í sína göngu. (IA.) Ævisaga Guðna Ágústssonar, Af lífi og sál, kom út fyrir síðustu jól, seldist vel og hlaut góða dóma. Allt er sanngjarnt í fyrri hluta bók- arinnar, sem er hinn ágætasti ald- arspegill. Í síðari hlutanum gefur Guðni endanlega frá sér að komast yfir jörð og gerast bóndi en snýr sér þess í stað að stjórnmálavafstri. Þá rís frásögnin í svo skáldlegar hæðir að miklu meira minnir á heilags manns sögu en raunveruleikann. Sem fyrrverandi framsóknarmaður og oft á tíðum aðdáandi Guðna á ég dálítið bágt með að kyngja þeirri upphöfnu glansmynd sem þarna birtist. Harmleikur Í 90 ár hefur Framsókn lengstaf verið næststærsti stjórnmálaflokk- urinn með frá þriðjungs og niður í fjórðungs fylgi. 1995, þegar Guðni fer að ljóma sem landbún- aðarráðherra af stjörnuhimni flokksins, er fylgið 23,3% og þingmenn 15. Í vor var fylgið komið niður í 11,7% og sjö þingmenn og er enn í frjálsu falli, skv. skoðanakönn- unum. Væri ég sagnfræðingur eða rithöfundur mundi ég leggjast yfir þessar staðreyndir með sagnfræðirit eða skáldverk í huga. Bókarnöfn eins og Hnignun og hrun Fram- sóknarflokksins eða Morðið á maddömunni kæmi þar vel til greina. Guðni Ágústsson, fyrst þingmaður, síðan ráðherra í tólf ár, varaformaður frá 18. mars 2001 og loks formaður frá síðasta hausti, hlýtur að leika stórt hlutverk í þessum harmleik. Slangan og músin Í pólitík er fátt sem sýnist. Margir stjórnmálamenn eru eins og laukur. Það má fletta hverju laginu á fætur öðru utan af þeim eins og lauknum uns ekkert er eftir. Reyn- um þetta við Guðna. Framsóknarmenn hafa alltaf litið á íhaldið sem sinn höfuðandstæð- ing. Guðni byrjaði sinn þingferil með því að troða Davíð Oddssyni um tær og var því ekki virtur við- lits af forsætisráðherra allt það kjörtímabil. Svo gengu kratarnir úr skaft- inu 1995 og Davíð og Halldór Ásgrímsson tóku höndum saman um rík- isstjórnarmyndun. Davíð hafði áhyggjur af ónógri fylgisspekt Guðna við þessa ríkisstjórn enda líkti Guðni sjálfum sér í tíma og ótíma við Gunnar á Hlíð- arenda, Brennu-Kára og Njálssyni og þessi óárennilegi kappi hafði sem slíkur traust Sunnlendinga. Því boðaði Davíð hann til Þingvalla á einmæli haustið 1995 „Þú ert að verða ráðherraefni og því er nauð- synlegt að við getum talað saman,“ hefur Guðni eftir honum. Erlendis er vel þekkt að slöngur dáleiða bráð sína, t.d. mýs, og láta þær ganga sjálfviljugar upp í gin sitt. Eitthvað svipað virðist hafa gerst þennan haustdag á Þingvöll- um. Hafi Guðna verið vaxnar póli- tískar vígtennur voru þær allar hreinsaðar úr honum þar og hafa ekki sprottið aftur. Davíð breyttist í leiðtoga lífs hans og uppsteytur eða leiðindi við slíkan mann komu ekki framar til greina. Hafin var tólf ára möglunarlaus próventukerling- arvegferð maddömu Framsóknar hjá Valhallaríhaldinu. Í tilefni af sextugsafmæli Davíðs 17. janúar sl. leitaði DV eftir um- sögnum nokkurra samferðarmanna um afmælisbarnið. „Orðheldinn snillingur með ríka réttlætiskennd, ógleymanlegur vinur, hafsjór af skemmtan með yfirþyrmandi sterka nærveru, ætti helst að sitja við skriftir.“ Sá álitsgjafi er svo mælir er ekki Hannes Hólmsteinn heldur Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins. Guðni og KHG Kristinn H. Gunnarsson, þing- maður Alþýðubandalagsins hér á Vestfjörðum, færði sig yfir í þing- flokk Framsóknar 1998 án nokkurs samráðs við okkur, stuðningsmenn sína. Þetta mæltist illa fyrir en þó keyrði um þverbak þegar hann full- yrti í fjölmiðlum að gott samráð hefði verið haft og fylgismenn sínir mundu flestir elta hann til Fram- sóknar. Ég ritaði grein í DV þar sem Júdas heitinn Ískaríot og hinir 30 silfurpeningar koma nokkuð við sögu. Samstundis hringir Guðni og þar sem ég var að heiman tjáir hann konu minni samúð sína yfir að vera svona illa gift og kveður. Með næsta pósti fæ ég bréf frá Guðna þar sem hann rekur á sann- færandi hátt margvíslega kosti Kristins vinar síns og telur að hann muni verða Framsókn þarfur mað- ur. Í bréfslok harmar Guðni að ég „þetta náttúrubarn og veiðikló skuli opinberlega hafa skotið mig í fótinn“. Á Kristin var síðan hlaðið trún- aðarstörfum. Hann var formaður þingflokksins og orðaður við sjáv- arútvegsráðherrastól. En þegar hann gerðist samviska Fram- sóknar, svosem í Íraksmálinu, var hann sviptur öllum vegtyllum, rægður, hælbitinn og hrakinn úr flokknum án þess að vinur hans Guðni verði hann eða skrifaði skammarbréf til nokkurs manns. Guðni flaut bara áfram á sínum ráðherrastól sofandi að feigðarósi. Heilagur Guðni? Indriði Aðalsteinsson fjallar um Guðna Ágústsson og Framsóknarflokkinn » Það má fletta hverju laginu á fætur öðru utan af þeim eins og lauknum uns ekkert er eftir. Reynum þetta við Guðna. Indriði Aðalsteinsson Höfundur er bóndi á Skjaldfönn við Djúp

x

Morgunblaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.