Morgunblaðið - 23.11.2008, Side 41
MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 23. NÓVEMBER 2008
Morgunblaðið/Ómar
Á
hverjum laugardegi
streyma nú þúsundir
manna á Austurvöll til að
mótmæla. Ástæðan blasir
við. Íslensku bankarnir
hafa hrunið og fjármála-
kerfið er í rúst. Við blasir
kreppa og það mun kosta
sitt að komast út úr henni.
Í aðdraganda hrunsins
brugðust þær stofnanir, sem áttu að hafa eft-
irlit með fjármálakerfinu, og stjórnendur
bankanna gerðust sekir um óafsakanlegan
glannaskap, sem gat viðgengist í góðæri, en
þoldi ekki ágjöf. Nánast hver einasti Íslend-
ingur hefur tapað á hruni bankanna og mun að
auki þurfa að gjalda fyrir það á næstu miss-
erum og árum. Ástæðan er sú að kostnaðurinn
við að rétta úr kútnum mun lenda á almenn-
ingi. Þess vegna flykkist fólk á Austurvöll. Al-
menningur átti ekki sök á hruninu, en hann
mun þurfa að bera kostnaðinn af því. Fyrir
vikið vill almenningur fá að fylgjast með.
Tortryggni í garð ráðamanna
Nú ríkir gríðarleg tortryggni í garð ráða-
manna. Á mótmælaspjöldum á Austurvelli má
lesa slagorð á borð við „Stöðvum spillinguna“.
Valdið á Íslandi hafði færst úr pólitíkinni í við-
skiptin og margar spurningar hafa vaknað um
hvernig farið var með það vald. Nú færist vald-
ið aftur í hendurnar á stjórnmálamönnunum
og kjósendur vilja vita hvað er á seyði. Kjós-
endur vilja fá upplýsingar um stöðuna. Kjós-
endur vilja fá að vita hvað bíður þeirra. Á
Austurvelli er farið fram á að ráðamenn víki og
kosið verði að nýju. Á Austurvelli eru settar
fram kröfur um lýðræði.
Morgunblaðið hefur ekki tekið undir það að
ganga eigi að kjörborðinu í vor, ekki síst vegna
þess að það myndi auka á glundroðann, sem
fyrir er. Eins og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir
utanríkisráðherra orðaði það eftir að tveir ráð-
herrar úr flokki hennar lýstu yfir því að þeir
vildu láta kjósa í vor: „Ég tel að við séum í
miðjum björgunarleiðangri núna og við eigum
að einhenda okkur í hann og það er eins og
verið væri að spekúlera í því hvort ætti að
halda aðalfund í Slysavarnafélaginu og velja
nýja stjórn þar. Ég held að það sé ekki tíma-
bært.“
Hins vegar er skiljanlegt að sú krafa skuli
koma fram að gengið verði til kosninga í vor.
Fólk spyr sig eðlilega hvort það gangi upp að
fólkið, sem stóð án þess að fá rönd við reist í
brúnni þegar himnarnir hrundu, sé hæft til
þess að standa vaktina þegar uppbyggingin fer
fram. Og ráðamenn þurfa að gera sér grein
fyrir því að myndast hefur gjá á milli þeirra og
borgaranna.
Gjáin myndaðist við hrunið og hefur dýpkað
og víkkað meðan á því hefur staðið, ekki síst
vegna þess hversu tregt flæði upplýsinga hef-
ur verið frá stjórnvöldum til almennings. Hvað
eftir annað hafa fjölmiðlar þurft að fara króka-
leiðir til að fá upplýsingar um það sem er að
gerast. Umræðan um samskiptin við Alþjóða-
gjaldeyrissjóðinn virðist til dæmis hafa verið
opnari í Ungverjalandi og Úkraínu, en á Ís-
landi. Mótsagnir í málflutningi um það hvað
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn vildi að kæmi fram
bættu ekki úr skák.
Fólk vill fá að vita hvað fór úrskeiðis þegar
bankarnir hrundu þvert á málflutning flestra
ráða- og bankamanna um að allt væri í himna-
lagi. Fólk vill fá að vita hvers vegna ekki var
brugðist við varnaðarorðum þeirra, sem sáu
hvað bankarnir stóðu tæpt.
Ótti við að allt fari í gamalt far
Margir binda vonir við að úr rústum hrunsins
rísi heilbrigðara samfélag á Íslandi. Eftir því
sem vikurnar líða er hins vegar farið að örla á
ótta við að allt fari í gamalt far. Tekið er eftir
því að í nýju bönkunum er mikið til sama fólk í
lykilstöðum og var í gömlu bönkunum. Fólk
veltir því fyrir sér hvernig samningar gangi
fyrir sig inni í nýju bönkunum þegar fortíðin
er gerð upp, hvað ráði för þegar skuldirnar eru
afgreiddar og ákveðið hverjir skuli lifa og
hverjir lognast út af. Reglur um bankaleynd
gera það að verkum að ekki er hægt að segja
alla söguna, en ferlið allt verður að vera gagn-
sætt. Reglurnar þurfa að vera skýrar, ljóst að
allir sitji við sama borð og menn hvorki hagnist
á tengslum sínum og samböndum, né gjaldi
fyrir þau.
„Ég er lýðræðissinni,“ sagði Geir H. Haarde
forsætisráðherra í Kastljósi á fimmtudags-
kvöld. Lýðræði er ekki aðeins fólgið í því að
kjósa á fjögurra ára fresti. Lýðræði felur í sér
miklu meira. Eigi lýðræði að vera virkt þurfa
fjölmiðlar að vera frjálsir og umræða opin og
óttalaus. Samfélagið þarf að vera opið eigi að
ýta undir gerjun og nú er gerjunar þörf sem
aldrei fyrr. Lýðræðið er hins vegar sjaldnast
hraðvirkt. Það tekur tíma og leiðin að markinu
er iðulega krókótt. En hvað verður þá um lýð-
ræðið þegar neyðarástand skapast og bregð-
ast þarf hratt við? Er þá allt í lagi að setja lýð-
ræðið í geymslu þar til betur árar og aftur
verður tími til að fara hinar tímafreku leiðir
þess?
Þegar bankarnir hrundu gripu stjórnvöld til
þess ráðs að setja neyðarlög til að auðvelda
þeim að bregðast við. Neyðarlögin voru vissu-
lega sett með lýðræðislegum hætti, en í eðli
sínu eru þau hins vegar ekki lýðræðisleg. Þau
eru sett til þess að hægt sé að sniðganga hinar
lýðræðislegu starfsvenjur.
Frá lýðræði til einræðis?
Carl Schmitt nefnist þýskur lögspekingur,
sem velti fyrir sér umgjörð lýðræðsins og
merkingu þess að bregðast við óvenjulegum
aðstæðum, undantekningar- eða neyðar-
ástandi. Schmitt þótti einstaklega skarpur
hugsuður, en hann gekk í nasistaflokkinn á
fjórða áratugnum og beittu nasistar hug-
myndafræði hans fyrir vagn sinn. Tengsl
Schmitts við nasista hafa torveldað alla skír-
skotun í verk hans, sérstaklega á vinstri
vængnum, þar sem hugmyndir hans hafa haft
ákveðið aðdráttarafl, en hrellt um leið. Schmitt
fannst bannhelgi og feimni í kringum orðið
„einræði“ óþörf og hélt hann því fram að í
hvert skipti, sem þingræðið væri sniðgengið
væri einræði að verki. Hann sagði að í ríki með
lýðræðislega stjórnarskrá mætti kalla hvert
óvenjulegt frávik frá grundvallarreglum lýð-
ræðisins án samþykkis meirihlutans einræði.
Mörgum kann að þykja langt seilst að nefna
einræði í sömu andrá og rætt er um íslensk
stjórnmál, en stundum er nauðsynlegt að
draga fram óþægileg hugtök til að skerpa um-
ræðuna. Þingmenn hafa löngum gagnrýnt
framkvæmdavaldið fyrir að sniðganga löggjaf-
arvaldið hér á landi og telja að þingið gegni
hlutverki stimpils á stjórnarfrumvörp. Þessi
gagnrýni hefur meira að segja komið frá þing-
mönnum stjórnarflokkanna og varð sér-
staklega hvöss á Alþingi þegar viðræður stóðu
yfir við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Kvörtuðu
þingmenn sáran undan því að vera haldið al-
gerlega fyrir utan allar ákvarðanir þegar þjóð-
arhagur var í húfi.
Neyðarlögin hafa ekki heldur verið hafin yfir
gagnrýni. Í þeim er fólgið mikið vald eins og
fram kom í samtali Þorbjörns Þórðarsonar
blaðamanns við Ragnar Aðalsteinsson hæsta-
réttarlögmann í Morgunblaðinu 26. október:
„Valdheimildir Fjármálaeftirlitsins eru mjög
víðtækar. FME þarf ekki að virða stjórn-
sýslulögin, sem gerir það að verkum að eft-
irlitið getur tekið gerræðislegar ákvarðanir.
Vald skilanefndanna, undir FME, er gríðarlegt
einnig því ákvæði 4.-7. kafla stjórnsýslulaga
gilda ekki um málsmeðferð og ákvarðanatöku
nefnda samkvæmt ákvæðum neyðarlaganna.“
Hinn stjórnskipulegi neyðarréttur
Ragnar bendir á að réttarstöðu kröfuhafa sé
raskað með ákvæði neyðarlaganna um að inn-
stæðueigendur hafi forgangsrétt í þrotabú.
Komi til krafna muni reyna á eignarréttar-
ákvæði stjórnarskrárinnar. Þar muni ríkið
bera fyrir sig stjórnskipulegan neyðarrétt, en
það þurfi þá að sanna að skilyrði til að beita
honum hafi verið fyrir hendi og að þjóðin hefði
verið í stórfelldri hættu án laganna.
Í kjölfar neyðarlaganna kom fram frumvarp
um fjármálafyrirtæki, sem Atli Gíslason, þing-
maður Vinstri grænna, hefur gagnrýnt á Al-
þingi. Í tvígang hefur hann mælt fyrir minni-
hlutanefndaráliti sem fulltrúi VG í viðskipta-
nefnd. Sagði Atli að stefndi í réttarfarslegt og
þjóðhagslegt slys.
„Vert er að benda á að þessi gjaldþrota-
skiptalög, sem eru að verða 100 ára gömul með
breytingum, eru byggð að norrænni fyrirmynd
og frávik frá afar mikilvægum skilyrðum
gjaldþrotaskiptalaga við þessar sérstöku að-
stæður, eins og stefnt er að með frumvarpinu,
eru til þess fallin að valda tortryggni og grafa
undan trausti okkar jafnt innan lands sem og á
alþjóðavísu,“ sagði Atli í umræðum á Alþingi
11. nóvember. „Algerlega ástæðulaust er að
grípa til þessara breytinga á lögunum meðan
skilanefndirnar hafa ekki séð fyrir endann á
því hver staða bankanna er. Það var líka upp-
lýst á fundum viðskiptanefndar og ég ítreka að
þetta getur líka orðið á kostnað smærri inn-
lendra hluthafa. Hér ráða ferðinni hagsmunir
stórra erlendra lánardrottna. Það kom marg-
sinnis fram á fundum nefndarinnar. Var það
tilgangur neyðarlaganna? Ætluðum við ekki
að verja Ísland og íslenskan almenning?“
Þessi sjónarmið eru ekki dregin fram til að
kynda undir því að neyðarlögin hafi ekki átt
rétt á sér, heldur til að minna á hve varlega
þurfi að fara með þann eld, sem hefur verið
kveiktur. Þegar kerfið verður fyrir áfalli opn-
ast möguleikar til aðgerða, sem áður hefðu
verið útilokaðar. Spurningin er hvernig mögu-
leikarnir eru nýttir. Barátta Bandaríkjamanna
gegn hryðjuverkum í kjölfar árása hryðju-
verkamanna 11. september 2001 hefur orðið
tilefni til ýmissa aðgerða, sem hafa grafið und-
an mannréttindum. Nærtækast er að nefna
grænt ljós á pyntingar, en einnig hefur verið
þrengt að borgaralegum réttindum á öðrum
sviðum, meðal annars með rýmkuðum heim-
ildum til hlerana og eftirlits. Hryðjuverkalög
hafa verið sett víðar, þar á meðal á Bretlandi,
og beiting Breta á slíkum lögum gegn Íslandi
ber vitni þeirri hættu á misnotkun, sem er
samfara slíkri lagasetningu.
Aðgerðir íslenskra stjórnvalda eru vissulega
ekki af sama toga og hryðjuverkalög, en þær
spretta engu að síður af því að heilt samfélag
hefur orðið fyrir áfalli. Lýðræðið er ekki sjálf-
sagður hlutur. Það kostar stöðuga baráttu,
sem er á ábyrgð hvers og eins. Þess vegna er
sérstök þörf á gagnsæi og greinargóðri upp-
lýsingagjöf þegar stjórnvöld taka sér heimildir
og vald, sem gengur þvert á hefðbundnar leik-
reglur réttar- og lýðræðisríkisins. Í framhald-
inu þarf síðan að ráðast í að efla lýðræði á Ís-
landi og gera það beinna þannig að kjósendur
ráði för milliliðalaust þegar taka þarf ákvarð-
anir í lykilmálum og hafi meiri áhrif á um-
hverfi sitt en nú er.
Lýðræði á tímum neyðarástands og kreppu
Reykjavíkurbréf
221108
62%
Hlutfall þeirra sem telja að
efnahagsástandið væri betra í
dag hefðu fleiri konur verið við
stjórn fjármálafyrirtækja
undanfarin ár.
64%
Hlutfall þeirra sem hafa
neikvæð viðhorf í garð Breta.
2001 var 81% þjóðarinnar
jákvætt í garð þeirra.
27%
Hlutfall þeirra sem í byrjun
nóvember kváðust myndu kjósa
Vinstri græna. Hlutfallið hafði
hækkað um sjö prósentustig
milli mánaða.
Niðurstöðurnar eru úr Þjóðarpúlsi Gallups.
Mótmæli Þúsundir manna hafa safnast saman á Austurvelli undanfarnar helgar til að mótmæla og kalla stjórnvöld til ábyrgðar.