Sjómannablaðið Víkingur - 01.04.1944, Síða 12
I dögun komum við að hafnarmynninu í
Miklagarði, en því var þá lokað af keðju einni
mikilli, sem strengd var fyrir það, svo að eng-
ir gætu farið þar um að nóttu til. En Helgi,
sem ekki hafði neina löngun til þess að liggja
utan hafnar, þar sem búast mátti við fleiri
árásum, lét mikinn hluta skipshafnarinnar
fara aftur í skut og varð það til þess, að stefm
drekans reis hátt úr sjó. Þá tóku ræðararnir á
því sem þeir áttu til, og rann þá skipið aftur
að miðju, upp á keðjurnar, og hékk þar. Þeg-
ar í stað hlupu mennirnir úr skutnum og fram
i stefni, og seig þá stefnið niður.
Tóku nú ræðararnir loka sprettinn og rann
drekinn þá yfir keðjurnar og inn á höfnina í
Miklagarði.“
„Hvernig er borgin?“ spurði Leifur fullur
áhuga.
„Hvergi í heiminum finnst önnur meiri. Hún
er líkust bústað guðanna sjálfra, hinum vold-
uga Ásgarði, með gullnum hvolfþökum, háum
turnum og virkisveggjum, sem bera við himin-
inn.
Þar getur að líta rómverska hermenn girta
stuttum sverðum, brúna menn, sunnan úr eyði-
mörkunum, ríðandi á leifturhröðum gæðing-
um, eða skrítnum skepnum, með kryppu upp
úr bakinu; Grikki í logagylltum herklæðum, ak-
andi í hervögnum, og arabiskar konur, með
blæjur fyrir andlitinu, svo að enginn fái séð
fegurð þeirra.
Á hátíðisdögum safnast fólkið saman í stóra
hópa, til þess að horfa á menn berjast hvora
við aðra, eða gegn óarga dýrum, og falla marg-
ir þessara bardagamanna í þeim viðskiptum. í
bardögum við hina norrænu hermenn okkar,
stráfalla þó þessir Grikkir, því svo duglitlir eru
þeir, borið saman við víkingana, að fimm og
jafnvel tíu þeirra óttast að mæta einni víkings-
exi. Þetta er og alkunn staðreynd, þar sem keis-
ari Grikkja í Miklagarði, hefur aðeins menn af
víkingakyni í lífverði sínum, því að hann treyst-
ir engum eins vel og þeim, bæði sökum hreysti
þeirra og hollustu.
Þarna í borginni lá ég rúmfastur í langan
tíma, og vildi sár mitt ekki gróa. 1 blóði mínu
geisaði hitasótt, ólmari en hinn gríski eldur.
Þá kom til mín kona, ættuð sunnan úr eyði-
mörkinni. Hún þvoði sárið úr vínanda, smurði
það úr dökkri olíu, og lét mig drekka bragð-
vond meðul, svo að í staðinn fyrir að fara til
Valhallar, varð ég heill heilsu, að öðru leyti en
því, að fóturinn hafði visnað. Og samt mun
faðir þinn, Leifur, sem að ég hitti aftur nokkru
seinna í Noregi, geta sagt þér, að ég geti stýrt
dreka á við hvern sem er, þrátt fyrir minn
visna fót.“
Sigurður sat nú hljóður um stund og lét sig
dreyma um liðna daga og forna frægð. Loks
tók hann til máls aftur.
„Við Norðurlandabúar höfum siglt til fjar-
lægra landa og boðið hættum hafsins byrginn.
Við höfum siglt til Garðaríkis og landanna í
suðri, eins og ég hefi sagt ykkur. Göngu Hrólf-
ur sigldi til stranda Frakklands, og tók af
Frökkum allt hið mikla land, þar sem Nor-
mannar nú búa. Við Þrándheimsbúar sigldum
vestur á bóginn, tókum Dublin og réðum yfir
landinu í kring um hana, fórum til Orkneyja
og hingað til Islands, þar sem við reistum okk-
ur ný bú.
Sumir hafa kallað okkur þjófa og sjóræn-
ingja, okkur víkingana?“
Víkingurinn gamli rétti úr sér, þóttalega.
„Hvergi hefi ég þó hitt hraustari og betri
menn. Menn, sem tóku erfiðinu brosandi, hlógu
að hættunum, stóðu við orð sín, báru virðingu
fyrir konum, og fóru framan að óvinum sínum
í bardögum, en ráku þá ekki í bakið, eins og ég
hefi oft séð gert í Suðurlöndum. Þetta eru hin
óskráðu lög okkar víkinganna.
Það er ekki eingöngu sigurinn, sem um er að
ræða, heldur miklu frekar það, hvernig barizt
er, og aðeins hraustir menn fá að búa með hetj-
unum í Valhöll. Leggið ykkur orð mín á minni,
drengir.“
Að svo mæltu haltraði gamli maðurinn í
burtu.
Á siglingu.
Stafna á milli streymir foss,
stagir emja og væla,
Unnur votann kyssir koss,
köld er norðan gæla.
Þó skelli á byrðing skelfan þung,
og skjálfi mastra-dyrið,
aðeins dregur auga í pung
öldungur við stýrið.
Á verstöð einni undir jökli sendi formaður bátsverja
einn út, til þess að gá til veðurs. Kom hann inn aftur
og mælti fram eftirfarandi vísu:
Hann er svartur, svipljótur,
samt er blettur heiðríkur.
Loftið er bjart um landsuður,
ljótt er margt í útvestur.
92
VlKINGUR