Náttúrufræðingurinn - 1969, Blaðsíða 34
138
NÁTTÚ RUFRÆÐI NGURINN
á dögum. Júlíus Cesar er sagður hafa notað þessa tækni í umsátinni
um Alexandríu, og aðferðin mun hafa verið notuð af sjófarendum
um langan aldur. Önnur aðferð til vinnslu á fersku vatni úr sjó
er sú að frysta sjóinn, en ísinn, senr við það fæst, er saltlaus, og
með því að bræða hann fæst ferskt vatn. Enda þótt minni orku
þurfi til þess að frysta sjó en eima, þá eru flestar af þeim 200
stöðvum, sem vinna ferskt vatn úr sjó, byggðar á eimingu. Kostnaður-
inn við eiminguna hefur farið mjög minnkandi síðustu árin, vegna
endurbóta á aðferðinni.
Með ódýrari orku má lækka þennan kostnað, og eru þá mestar
vonir bundnar við kjarnorkuna. Áætlanir hafa verið gerðar um
slíka stöð í Los Angeles, og er henni ætlað að framleiða 150 milljón
gallona, þ. e. nær 570 þúsund tonn af fersku vatni á sólarhring. En
hér kemur nýtt vandamál til sögunnar. í eimingarstöð af þessari
stærð falla til hvorki meira né rninna en um 20 þús. tonn af salti
á sólarhring, og hvað á að gera við allt þetta salt. Það er hér, eins
og oft er sagt, að ein syndin býður annarri heim. Þegar maðurinn
fer að grípa of mikið inn í rás hinna náttúrulegu viðburða, þá fer
oft eitthvað úr jafnvægi.
Hér var áður minnst á þýðingu vatnsins sem upplausnarefnis í
lifandi frumum jurta og dýra og alls konar efna í jarðveginum,
bæði lífrænna og ólífrænna. En vatnið er einnig á öðrum sviðum
mjög mikilvægt fyrir rás viðburðanna hér á jörðu og grípur inn
í líf og afkomu hvers manns. Er það fyrst og fremst veðurfarið
með öllum þess margvíslegu tilbrigðum, annars vegar úrhellisrign-
ingum með stórflóðum og öllu þeim tilheyrandi, og hins vegar
langvarandi þurrkum með allri þeirri eyðileggingu, sem þeir hafa
í för með sér fyrir akuryrkju og allan annan jarðargróður. í öðru
lagi er það liið rennandi vatn, lækir og ár, smáar og stórar, sem
snerta mjög samgöngurnar, bæði til hagræðis og óhagræðis, en eru
auk þess undirstaða þeirrar orkuvinnslu, sem fer fram í hinum
fjölmörgu vatnsaflstöðvum víðs vegar um heim.
Hin látlausa hringrás vatnsins milli yfirborðs jarðar og andrúms-
loftsins eru þeir mestu flutningar á efni, sem fram fara á jörðinni.
Við skulum nú gera okkur grein fyrir, hversu miklir þessir flutn-
ingar eru. Eins og áður var getið, þá er talið að allt vatn á jörðinni
séu 1340 milljón rúmkílómetrar, en einn rúmkílómetri er ten-
ingur, sem er einn kílómetri á hvern veg, og þar sem 1 rúmmetri af