Náttúrufræðingurinn - 1976, Qupperneq 39
NÁTTÚRUFRÆÐINGURINN
141
verkun. Var notuð til lækninga, en þó mest úr annarri tegund,
kamillubaldursbrá, sbr. kamillute. í baldursbrá sérstaklega eru ase-
tylensambönd.
IV. Fleiri fyrirbrigði
Haustið 1957 fannst einkennilegur fagurfífill (Bellis) í Reykja-
víkurgarði. Upp úr körfu hans uxu nokkrir stönglar, sem báru
litlar körfur í toppinn. Frá Húsavík barst tryggðablóm (Chrysan-
themum), sem svipað var ástatt um. Nokkrum sinnum hafa fundist
fjalldalafíflar þar sem upp úr miðju blóminu óx annað blóm og
jafnvel það þriðja upp úr því, þó það sé miklu sjaldgæfara. Fjall-
dalafífillinn verður stundum ofkrýndur líkt og margar rósir, ]). e.
margir af fræflunum breytast í krónublöð, svo þau verða miklu
fleiri en vant er.
Stundum koma litarefni ekki fram í blómum jurta, t. d. sést
stöku sinnum hvítt blágresi og hvít bláklukka. Fundist hafa líka
hvítir hrafnar og hvítur hrossagaukur. Fyrir nokkrum árum tóku
blöð á einum njóla, norður á Hofi í Vatnsdal, upp á því að vaxa
saman á jöðrunum, svo að einungis endarnir voru lausir. Öðru
hvoru sjást flatir stönglar á ribsi og sólberjum og s. 1. sumar fannst
í Reykjavík fífill með flatan stöngul og tvær samrunnar flatar körf-
ur. Mörg eru fyrirbrigðin í náttúrunni, en hvernig stendur á því
að óvenjumikið var um flatar baldursbrár o. fl. óeðli í jurtum á
tímabilinu 1950 og fram um 1960? Sums staðar er illgresieyðandi
lyfjum um kennt, en ekki getur sú skýring staðist alls staðar. Skyldi
kannske geislavirkt ryk frá kjarnorkutilraunum stórveldanna líka
hafa haft einhver áhrif?
Myndir 1—3, sem eru úr Jurtabók AB, íslenzkri ferðaflóru eftir Áskel Löve,
Reykjavík 1970, eru teiknaðar af Dagný Tande Lid og birtast hér með góðfús-
legu leyfi útgefanda.