Náttúrufræðingurinn - 1990, Page 34
HIKKORÍA FRÁ TRÖLLATUNGU
Árið 1957 lýsti Jóhannes Áskelsson í Náttúrufræðingnum blaðbroti af hikkor-
íu (Carya) úr tertíerum setlögum í Þórishlíðarfjalli í Selárdal í Arnarfirði. Aldur
þessara setlaga er 14-15 milljónir ára og plöntuleifarnar í þeim tilheyra elsta
gróðursamfélagi, sem fundist hefur í íslenskum jarðlögum. Svo virðist sem
hikkoríublöð hafi ekki fundist annars staðar hér á landi þó að frjókorna hafi
verið getið úr Surtarbrandsgili hjá Brjánslæk, frá Tröllatungu og öðrum fundar-
stöðum tertíerplantna við Steingrímsfjörð og frá Hreðavatni.
Fyrir nokkrum árum skoðaði Walter L. Friedrich jarðfræðingur plöntu-
steingervinga í Ríkissafninu í Stokkhólmi og var þá bent á kassa, sem voru
merktir „Grönland Expedition 1883“. Þegar hann opnaði kassana komu í ljós
plöntusteingervingar ásamt berg- og steinasýnum frá Vestfjörðum. Finnandi
var tilnefndur Svíinn Gust. Fiink, en hann skrifaði nokkrar greinar um jarð-
fræði íslands, einkum steinafræði. Líklega hefur þessi „Grænlandsleiðangur“
ekki komist til Grænlands sumarið 1883, því svo virðist sem þeir hafi verið
mestallt sumarið við jarðfræðiathuganir á Vestfjörðum.
Meðal plöntusteingervinga úr kössum Grænlandsleiðangursins 1883 er sá sem
sýndur er á meðfylgjandi mynd, en hann fannst við Tröllatungu í Steingríms-
firði. Hér er um að ræða blaðbrot í ljósgráum siltsteini, 9,5 cm langt og 5,5 cm
breitt, en efsta hluta blaðsins vantar. Blaðið er aflangt með nær samsíða hliðar
um miðjuna og mjókkar í mjúkum boga í báða enda. Blaðrendurnar eru ofurlít-
ið aðdregnar við grunninn og alsettar hvössum smátönnum. Stór meginstrengur
liggur eftir endilangri blaðmiðjunni og frá honum liggja boglægir hliðarstrengir
út í blaðröndina. Við samanburð á þessu blaðbroti og blöðum valhnotutrés
('Juglans) og hikkoríu virðist vera betra samræmi við hikkoríublöðin. Þessi
greining styrkir þá niðurstöðu frjógreiningar að hikkoría hafi ennþá vaxið hér
fyrir 10 milljónum ára og fyrst horfið úr íslenskum gróðursamfélögum eftir að
setlögin við Tröllatungu mynduðust. Ljósm. Walter L. Friedrich.
Leifur A. Símonarson
Náttúrufræðingurinn 60 (3), bls. 144, 1991.
144