Andvari - 01.01.1952, Qupperneq 76
72
Vilhjálmur Þ. Gíslason
ANDVARI
Ég efast um, að síðan á dögum Snorra Sturlusonar hafi nokk-
ur maður fengizt við íslenzk fræði af meiri þekkingu, af skemmti-
legra jafnvægi lífs og listar og af hófsamlegri skilningi og þó
djörfum og djúpum á afstöðu listar og lærdóms og lífsins sjálfs.
Snorri lýsti þessu í formála Eddu sinnar, Sveinbjörn í nokkr-
um óprentuðum skólaræðum. Þar segir hann sína húmanistísku
lífsskoðun, soðna saman við smíðaeld íslenzkrar sögu og tungu
úr platónsku og kristindómi. Þar talar hann um, að dyggð og
þekking renni af samkynja rótum, — að dyggðin, sem er elskan
til þess góða, verði að krafti í viljanum, og þekkingin, sem er
elskan til þess sanna, að krafti í skilningnum. Hann talar um,
að vísindin séu þá fyrst rétt stunduð, þegar þau eru stunduð af
sannleikselsku og menn geri sig móttækilega fyrir hinu háleita í
þekkingunni.
Þannig vildi Sveinbjörn Egilsson lifa lífi sínu og stunda fræði
sín og list.
Minningu Sveinbjarnar hefur verið haldið í heiðri en varla
í hávegum. Hans er minnzt sem hins merka fræðimanns og
ágæta og málsnjalla þýðara. Hann var einnig annað og miklu
meira. í öllu lítillæti hjarta síns og stolti starfshyggju sinnar var
hann eitt af stórmennum íslenzkrar menningarsögu. Hann er
tákn heillar menntastefnu, sem í honum náði hæstum blóma
sínum og endanlegri fyllingu, áður en hún fór að fjara út, —
hinnar klassisku kristilegu lífsskoðunar á þjóðlegri rót. Hann
var síðasti og glæsilegasti Grikkinn í íslenzkri mennt. Sumt er
úrelt af þeim fræðum, eins og verða vill, og þótt verk hans 1
íslenzkum fræðum séu enn í gildi á vígvelli þeirra vísinda, er
hans klassiski skjöldur varla borinn lengur í lifsins stríði. En a
skjöld Sveinbjarnar Egilssonar hefur ekki fallið. Hann er enn
merki liðins glæsitíma, sem var auðugur í einfaldleik sínum,
merki hins fagurgóða manns, sem var í senn tákn tírnans og yfir
hann hafinn í lærdómi sínum og list. Þess vegna er Sveinbjörn
Egilsson lifandi og frjósamur kraftur í íslenzkum fræðum hundrað
árum eftir dauða sinn og verður lengi enn.