Fálkinn


Fálkinn - 31.05.1961, Blaðsíða 33

Fálkinn - 31.05.1961, Blaðsíða 33
UM NORÐMENN - Frh. af bls. 19. komið, kynnzt jafnmörgu gáfuðu fólki og í höfuðborg Nor- egs, og ég þori fremur að segja þetta vegna þess, að nokkrir erlendir menn hafa sagt eitthvað svipað við mig að fyrra bragði. Nú dettur mér ekki í hug að trúa því, að Norðmenn séu betur af guði gefnir en ýmsar aðrar þjóðir. En ég held þetta stafi af þvi, að gáfur þeirra njóta sín betur vegna þess, hvernig þeir horfa á lífið og tilveruna. Þó að menn fæðist misjöfnum hæfileikum búnir, þá skiptir hitt ekki minna máli, hvernig þeir fara með þá vöggugjöf. Flestir menn verða miklu heimskari en þeir þyrftu að vera af því að hugsa of smátt, snúast í hringiðu ófrjórra, hversdagslegra viðfangsefna, leggja ekki á brattann, finnast öll mestu vanda- málin útrædd eða gagnslaust að reyna að brjóta þau til mergj- ar. Allt þetta eru ellimerki, bæði þjóða oð einstaklinga. Pla- ton sagði, að undrunin væri upphaf allrar vizku, og vér sjá- um daglega í kringum oss, hvernig hin djúpsæja undrun og forvitni barnanna, sem horfa stórum augum á dásemdir lífsins, dofnar og þrengist. Þau fara að líta á hið furðulega sem sjálfsagt, vaninn sljófgar þau, dauð þekking kemur í stað lifandi spurninga. En ég hef hvergi fundið minna af þessari venjubundnu þreytu hugsunarinnar meðal menntaðra og reyndra manna en í Noregi, hvergi fleiri menn, sem opna augun við lífinu, furðuverkum þess og vandamálum, eins og það blasir við hverjum manni, sem vill sjá. Það er engin furða þótt slík þjóð eignist skáld, listamenn og vísindamenn, því að meginþáttur í hæfileikum þeirra er að kunna að koma auga á hið undursamlega í því hversdagslega og hið nýstár- lega í því gamalkunna. Allt of mörgum vor hættir við að andvarpa líkt- og Alfred de Musset: Je suis venu trop tard dans uns monde trop vielle — (ég er fæddur of seint inn í heim, sem er orðinn of gamall) — í stað þess að beina huganum að æsku heimsins, sjá þar nýskapaða veröld eins og Wergeland. En verður þá ekki úr þessu barnaskapur og einfeldni? Vitanlega kemur það fyrir. En Norðmenn eru sjálfir á varðbergi gegn þeirri hættu, svo að stundum fara þeir í því sem öðru út í öfgar. Þeir eru bæði dómvísir og meinfyndnir, slá einatt alvörunni upp í gaman, henda allan naglaskap á spjótsoddum háðsins og virðast jafn- vel hneigðir til að vega á móti barnslund sinni og tilfinn- ingasemi með kaldranalegri glettni, sem engu þyrmir. En hjá þroskuðustu einstaklingunum kemur fyrir samræmi óspilltr- ar æsku og djúpsærrar gamansemi, sem getur minnt á vor- daga hinnar forngrísku menningar. V. Táp og fjör Norðmanna lýsir sér ekki sízt í dugnaði þeirra að hreyfa sig og á eflaust mjög rætur sínar til þess dugnaðar að rekja. Þótt þeir hafi átt og eigi ýmsa ágæta íþróttamenn og methafa, er slíkt lítils vert hjá því, hversu almenna rækt þjóðin leggur við áreynslu undir beru lofti, gönguferð- ir um fjöll og merkur á sumrin og skíðaferðir á vetrum. Þegar Oslóbúar á sunnudögum fara upp í Norðurmörk, hinn víðlenga skóg, sem liggur þar á hæðunum fyrir ofan borgina, eru þar ekki fámennir hópar ungra göngugarpa, sem á brekk- una sækja. Það líkist heilum þjóðflutningum, konur jafnt og karlar, stálpuð börn og gráhærðir öldungar. Auk þess eiga margir sér kofa þar efra til útilegu um helgar. Veðrið er duttlungafullt, oft óblítt, og vegir torsóttir. En loftið er hress- andi og styrkjandi, það stælir kraftana að príla upp og niður óslétta skógarstígana eða vegleysu yfir stokka og steina. Samt reyna skíðaferðirnar enn meira á þol og dug, og ekki eru þær slakar, enda kvarta Norðmenn ekki jafnsárt yfir neinu tíðarfari og ef þeim bregst nægur vetrarsnjór. Það er ómetanlegt hvað þeir eiga þessum þjóðarsið að þakka. Bjarni Thorarensen talar um að silfurblár ægir eigi að halda vörð um ísland „sem kerúb með sveipandi sverði“, en „fjöll sýni torsóttum gæðum að ná“. Hann hugsar þar eflaust um fjöll- in séð tilsýndar. En Norðmenn láta sér ekki nægja að líta augum upp til fjallanna eða út á hafið. Þeir heimta kynni, glímu við náttúruna, þótt þeir séu orðnir borgarbúar og ekki til þess neyddir að sækja föng sín í greipar henni. Því er sjávarselta og háfjallablær ofin inn lífi þeirra og sál, ekki aðeins sæfarir þeirra og harðræði, heldur jafnt listir þeirra og vísindi. FRAMHALDSSAGAN - Frh. af bls. 25 „Þarna sjáið þér .... við fréttaritararnir notum svo marg- vísleg dulnefni. Þér hafið ekki hugmynd um, hvort það er í raun og veru ég, sem skrifa bréfadálkinn á kvennasíðunni og framhaldssöguna handa börnunum. Það eina, sem þér vitið með vissu er, að þér hafið séð nafn mitt undir afbrota- málafréttum við og við .... er ekki svo?“ Hún brosti um leið og hún sagði síðustu orðin — og brosinu var ætlað að bræða ísjaka. „Jú, ég viðurkenni það.“ Hann brosti á móti. „Hafið þér nokkuð á móti því að segja mér dálítið um sjálfan yður og loðskinnaverzlunina yðar,“ spurði Helen brosandi. Cornell steig nokkur skref fram á gólfdúknum. Svo nam hann staðar og kveikti sér í nýjum vindlingi. Helen tók eftir að höndin var ekki vel styrk, er hann var að kveikja. Hann gleymdi að bjóða henni vindling. „Það leggst ónotalega 1 mig að þér séuð komin hingað sem glæpamálanjósnari, en ekki vegna kvennasíðunnar yð- ar,“ sagði hann harkalega. „Hvers vegna dettur yður það í hug?“ spurði Helen Tru- by og hleypti brúnum. „Ekki hafið þér aðhafzt neitt .... eh — glæpsamlegt?“ „Það er einmitt það, sem þér dróttið að mér,“ hrópaði Cornell í bræði. „En ég aðvara yður. Þér hafið ekkert til að hengja hattinn yðar á.“ „Hatturinn minn er stöðugur, þar sem hann er,“ svaraði Helen og hló stuttaralega. „Gerið yður ljóst, herra Cornell, að bruninn í verzlun yðar er sá tíundi í röðinni af dular- fullum brunum, sem borgarlögreglan hefur haft til með- ferðar síðustu tvo mánuðina?“ „Hvern fjárann varðar mig um það? Get ég gert að því að verzlunin mín brenni til kaldra kola? Eða kannske þér viljið halda því fram, að það sé ég, sem hafi kveikt í verzluninni?“ Helen stóð upp og gekk að borðinu, þar sem hún hafði séð vindlingahylki Cornells liggja. Hún tók hægt einn vind- linginn og stóð og beið eftir að hann liti upp, og hann tók eftir því, að hana vantaði eldspýtu. Hann fór og kveikti í hjá henni. „Þér ættuð að tala við taugalækni, herra Cornell,“ sagði hún lágt. „Hvers vegna ætti ég að gera það?“ hreytti hann út úr sér. „Þér eruð skjálfhentur. Ég skil yður svo vel .... Verzl- unin yðar, allar hinar verðmætu birgðir yðar af grávöru .... Það er hræðilegt áfall fyrir duglegan kaupsýslumann.“ Augu þeirra mættust eins og sverð skylmingamanna. „Hvað vitið þér um verzlun mína?“ spurði hann með þjósti. „Hún gekk .... að því er sagt er .... frekar treglega. Ekki illa — alls ekki. En heldur ekki vel. Yður hefði verið þörf á að komast í betri stað. En það kostar peninga .... peninga í nýjar auglýsingar, vandaðan frágang innanstokks og stór skilti.“ „Þér haldið enn, að ég hafi kveikt í verzluninni minni .... En ég get sannað yður, að ég var staddur í næturklúbb með ýmsum kunningjum mínum þegar eldurinn kom upp. Framh. FÁLKINN 33

x

Fálkinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fálkinn
https://timarit.is/publication/351

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.