Fálkinn - 27.09.1965, Qupperneq 11
talab við foreldra eiims
OC FLLLORDID FÓLK
FLESTIR sem hafa smábörn undir höndum, fá fleiri góð
ráð frá vinum og vandamönnum en þeir komast yfir að
fylgja. Hver og einn virðist hafa óbrigðult ráð á takteinum,
hvað svo sem um er að ræða.
Einn vill, að barnið sé alið á
brjóstamjólk a. m. k. í hálft ár,
— annar telur fullt eins gott
að gefa því mjólkurbland frá
fæðingu, sumir vilja gefa börn-
um fasta fæðu sem fyrst, —
aðrir kjósa að draga það, þar
til barninu hefur vaxið að
nokkru fiskur um hrygg. Sum-
ir telja þjóðráð að venja börn
á léttan klæðnað úti sem inni,
— aðrir telja tryggara að hafa
þau með ullarhnoðra við brjóst-
ið. Ótal bækur hafa verið skrif-
aðar um þetta efni bæði fyrr
og nú.
IAMERÍKU er barnalæknirínn Benjamin Spock, sem skrifað
hefur bók um heilbrigða skynsemi í umliirðu og uppeldi
barna og varð þar með átrúnaðargoð — ekki aðeins amerískra
foreldra — heldur og ótaldra foreldra vítt um veröld, sem
lesið hafa þessa bók, annað hvort á frummálinu eða í ein-
hverri þeirra þýðinga, sem gerðar hafa verið. — Enn hefur
þessi bók ekki birzt í íslenzkri þýðingu, að því er við vitum
bezt.
í nágrannalöndum okkar er Spock þegar velþekkt nafn, —
og ef þið heyrðuð á tal ungra mæðra til dæmis í „velsældar-
ríkinu“ Svíþjóð, munduð þið oft heyra minnzt á Spock. Spock
segir þetta, Spock segir hitt, — er orðið að viðkvæði.
í dómum um þessa bók hefur meðal annars verið sagt,
að þar sé að finna allt það, sem fólk almennt þurfi að vita
um börn, — og það er alls ekki svo lítið!
Bók Spocks er skrifuð í svo alþýðlegum stíl, að allir for-
eldrar eiga auðvelt með að skilja, hvað hann er að fara í
hverju máli. Hann tekur þarna til meðferðar flest, — ef
ekki allt, — það sem leitar á huga nýbakaðra foreldra, og
þótt dauður bókstafur geti aldrei komið í staðinn fyrir mann-
leg tengsl — þ. e. viðræður við sérfræðing í sama efni, — þá
eru handbækur af þessu tagi ómetanlegar.
Spock virðist einnig hafa þá sérstæðu skoðun, að það sé
óhætt að tala við foreldra eins og fullorðið fólk, — en svo
virðist, sem ýmsir menn í hans stöðu telji oft á tíðum ekki
á slíkt hættandi eða þá ekki leggjandi verk upp á það.
SVÍAR eru, að allra dómi, komnir langt í þjóðfélagslegri
þróun, ef miðað er við aðrar þjóðir, — enda er land
þeirra kallað „velferðarríki“. — Þar er Spock ekki aðeins
góðvinur flestra foreldra heldur er mikið um innlendar bók-
menntir, sem fjalla um þetta sama efni, umhirðu og uppeldi
hinna ungu borgara. — Þar fær sérhver verðandi móðir fjölda
bæklinga í hendur, þar sem henni eru gefin hagnýt ráð, bæði
hvað varðar heilsurækt sjálfrar hennar og barnsins. En ýmis-
legt er þar öðruvísi en hér heima.
I Svíþjóð er til dæmis ef til vill lögð ennþá meiri áherzla
á nauðsyn þess að hafa börn á brjósti í að minnsta kosti sex
mánuði. Það eru ekki einungis læknarnir — sem — eins og
hér á íslandi — halda fram óvéfengjanlegum kostum þessa, —
heldur er almenningsálitið á þann veg, að það sé heilög skylda
hverrar móður, sem hún geti naumast skotizt undan.
Eins og allir vita er almenningsálitið sá húsbóndi sem flestir
hlýða, og því er mun algengara þar en hér, að konur hafi
börn sín lengi á brjósti, — og það þó þær vinni úti að
meira eða minna leyti.
Yfirleitt er seinna byrjað með fasta fæðu þar en hér. Hvort
sem það er af því, að börnin eru svo lengi á brjósti og njóta
brjóstamjólkurinnar eingöngu eða einhverju öðru eru börn
þar, að því er virðist, öðru vísi í holdafari en hér á íslandi
og munu margir, sem kaupa fatnað á börn sín erlendis kom-
ast að því, að ekki dugir annað en kaupa nokkuð stærra á
íslenzk börn en ætlað er á þau útlendu. — Ef til vill mót-
mæla læknar, — en þetta er reynsla flestallra foreldra. —
Fimm ára sænsk stærð er mátulega stór á mörg þriggja ára
íslenzk börn.
Börnin eru miklu mun minna klædd þar en hér. Innanhúss
er þar talið nægja, að börnin séu í einni bómullar-treyju, plast-
buxum yfir bleyjunni, bómullarbuxum þar utan yfir og punkt-
um og basta. Ullarskyrtur eru óþekkt fyrirbæri og ullarpeys-
ur eru einungis til útibrúks og er þó oft kalt í Svíþjóð hinni
köldu. — Talið er, að það sé stórum hættulegra að klæða
börn of mikið en of lítið. Það valdi því aðeins, að þau verði
kvefsæknari og kveifarlegri. Bómullar- eða ullarteppi eru
látin nægja ofan á þau enda eru dúnsængur og gæsafiður-
sængur óþekkt fyrirbrigði.
Hand- og fótkuldi er t. d. að Spocks dómi, eðlilegt fyrir-
brigði. Þess vegna telur hann það ekki mælikvarða á líðan
barnsins, þótt útlimirnir séu kaldir, og eigi ekki að kapp-
klæða það, þar til hiti komi í þá. Þetta mun mörgum þykja
hart aðgöngu, — en Spock kærir sig kollóttan, segir að ullar-
háleistar og skór séu til dæmis algjörlega óþarfir innanhúss
fyrsta árið, ef sæmilega heitt sé inni.
I Svíþjóð er mikið um það deilt, livort það sé hollara að
fá börnum snuð eða láta þau totta fingurna, þegar þau vilja.
Spock mælir ákveðið með snuðinu og færir máli sínu til
stuðnings einkum tvær ástæður: í fyrsta lagi segir hann, að
börn, sem noti snuð kasti því yfirleitt miklu fyrr en hinn
hópurinn hættir að sjúga þumalfingurinn, — í öðru lagi tel-
ur hann, að minni hætta sé á, að tennurnar aflagist af snuð-
notkun en fingratotti.
Aðrir vilja halda því fram, að hinn mikli kostur við þumal-
fingurinn sé, að hann sé alltaf til staðar og tiltækur hvenær
sem eigandi hans þarf á honum að halda til huggunar, hvenær
sem er á ævinni, ef áhyggjur eða angist píni sálina. Börn
sjúgi ekki fingur fram eftir öllum aldri, sökum þess, að það
sé svo gott út af fyrir sig, heldur af því, að það hrjái þau
eitthvað andlegt stríð, sem þurfi lækningar við. Þegar sú
lækning sé fengin, muni þau hætta að sjúga fingurna. f öðru
lagi telja áhangendur þessarar kenningar, að fingurinn sé
miklum mun „eðlilegri" sálusorgari en gúmmísnuð.
Miklum mun meira eftirlit er haft með börnum við leik
þeirra útivið erlendis en hér tíðkast. Þar þykir það yfirleitt
ekki forsvaranlegt, að börn innan fimm til sex ára aldurs
fari ein út fyrir hússins dyr í borgum þar sem bíla er von.
Það er því algeng sjón, t. d. í Sviþjóð að sjá mæður sitja
yfir böi-num sínum, á meðan þau leika sér í almennings
sandkassa.
Sinn er siður í landi hverju og eflaust er erfitt að kveða
upp úr um það, hvað bezt er og réttast í þessu sem öðru. En
það er forvitnilegt að vita hvað aðrir eru að gera. Óefað
mundu íslenzkir foreldrar fagna upplýsingabókmenntum um
þetta efni, hvort heldur væri eftir erlenda eða innlenda sér-
fræðinga. Það skaðar ekki að lesa sér til þótt heilbrigð skyn-
semi sé kannski bezti leiðbeinandinn í barnauppeldi eins og
Spock segir.
FALKINN
11