Vikan


Vikan - 19.12.1940, Blaðsíða 11

Vikan - 19.12.1940, Blaðsíða 11
VIKAN, nr. 51, 1940 9 Jólagjöfin hennar. Margrét kom inn í herbergið með Finn, yngri drenginn sinn, sem var fjögra ára. Sjálf settist hún á stól út við gluggann, en leyfði drengnum að hlaupa um herbergið. Margt var þar að sjá, sem líka þurfti að handleika og snáð- inn gerði sig ærið heima kominn. Elsa hafði hallað sér, ofan á sængurfötin í rúm- inu, til þess að hvíla sig ofurlítið eftir ferð- ina. Hún hafði gát á Finni, því að hann var að handleika glös og skálar á snyrti- borðinu. — Hann hlakkar svo mikið til morgun- dagsins, að hann er hálftrylltur, varð Mar- gréti að orði. — Ég vona, að þú sinnir honum ofurlítið fyrir mig seinna í dag. Satt að segja liggur við, að þeir séu mér stundum ofviða, drengirnir mínir. — Hvað um hana ömmu þeirra? sagði Elsa. Henni var nú ekkert sérstaklega um það gefið, að vera barnfóstra. Margrét brosti hróðug. — Mamma er eiginlega allt of hrifin af drengjunum. Hún eyðileggur þá alveg með eftirlæti. Núna getur hún ekki um annað hugsað en það, hvernig Þorbirni litla muni verða við, þegar hann sér jólatréð. Elsa mjakaði sér til í rúminu, til þess að sjá systur sína betur. Það var ekki um það að villast, að Margrét hafði breytzt til batnaðar. Fyrir átta árum var hún ekki annað en stuttur og digur stelpugopi. Núna var hún eins og nýútsprungin rós. Og hún var prýðilega til fara. — Hjónabandið virðist geta valdið furðulegum hlutum, tautaði Elsa eins og við sjálfa sig. Systir hennar leit til henn- ar, undrandi. Svo hló hún. — Ég er ákaflega hamingjusöm og ánægð. Og Óh vill, að ég sé vel til fara. Ég reyni þess vegna að halda mér ofur- lítið til .... — Með ágætum árangri! greip Elsa fram í. — En, Magga mín, gætir þú nú ekki komið af þér þessum stórgáfuðu af- kvæmum þínum ofurlitla stund, — þó ekki væri nema fáeinar mínútur, svo að við gætum rabbað saman í rólegheitum, eins og í gamla daga. Ég er hrædd um, þrátt fyrir allt, að ég sé hálf klökk yfir því, að vera komin heim. Mamma hefði átt að hafa hugsun á því, að láta ekki herbergið mitt vera s v o n a nákvæmlega eins og það var þegar ég yar stelpa. Hún gat séð gömlu húsagarðana út um gluggann, þar sem Margrét sat. Fáeinum nýjum dráttum hafði verið bætt við í þessa mynd á þessum átta árum. Og breyting- arnar, sem höfðu orðið á henni sjálfri, virt- ust verða að engu hér í þessu umhverfi. Það snjóaði ofurlítið, og snjórinn þyrlaðist upp, fyrir snörpum næðingi. Jörðin var að verða alhvít, en tré og runnar teygðu kol- svartar greinarnar upp úr hvítri mjallar- voðinni. Margrét stóð upp og tók Finn litla við hönd sér. — Við skulum ekki vera að trufla hana Elsu frænku, sagði hún. — Elsa er þreytt eftir ferðalagið og hana langar til að hvíla sig. Við skulum fara til hennar ömmu. Elsa horfði á eftir þeim, þegar þau hurfu út um dyrnar, og var hugsi. Mar- gréti hafði sýnilega þótt það, þegar hún fann, að drengurinn myndi ekki mega vera þarna . . . Drottinn minn dýri! Hún hefði átt að muna, hvað Magga var tiltektarsöm. En systir hennar kom aftur að vörmu spori. Hún hafði sennilega farið að hugsa Smásaga eftir E. B/V. Jensen. I .............................. sig um. Að minnsta kosti settist hún aftur í sæti sitt og virtist ekkert eiga annríkt. — Nú er hann að hjálpa henni ömmu sinni, að búa um jólagjafir, sagði hún bros- andi. — Hlakkarðu ekki til, að sjá hann Þorbjörn litla, þegar hann vaknar. Elsa kinkaði kolli. — Foreldrar eru auðvitað alltaf að hugsa um börnin sín, varð henni að orði. — Auðvitað. Annars eru nú drengirnir náfrændur þínir. — Já, og það er ákaflega gaman að því. En þetta er allt einhvern veginn svo trufl- andi. — Ertu nú farin að iðrast eftir því, að þú skyldir koma heim? spurði Margrét forviða. — Þegar maður ferðast langar leiðir, eins og til Ameríku — eða Indlands, býst maður víst alltaf við, að allt sé óbreytt og standi í stað heima. Og þegar allt er svo orðið öðru vísi en áður var, þá verður manni ónotalega hverft við, — þó að mað- ur kunni að átta sig fljótlega. I þessu til- felli liggja mistökin í því, að mamma skyldi búa um mig í þessu gamla herbergi mínu, þar sem allt er nákvæmlega eins og það var, þegar ég var hjá málaflutningsmann- inum og var á kvöldskóla. Og svo það, að þú, Gréta mín, ert orðin yndisleg kona, — og átt mann og börn, sem þú sérð ekki sólina fyrir. Það verður ekki eins erfitt og ég hélt, að hverfa héðan aftur. — Héðan aftur — og hvert? Margrét leit út um gluggann. — Er þig ennþá að dreyma um að komast í einhverja virð- ingarstöðu ? Elsa stundi við. — Þetta er kaldranalega að orði kom- ist! Ég veit ekki betur en að ég sé k o m - in býsna hátt, eftir því sem hér gerist! — Það er hverju orði sannara! En ég var nú að hugsa um, hvernig þér myndi líða. Þú ert svo óvær og áf jáð í að komast lengra — eins og þú hefir alltaf verið. Hvert er næsta takmarkið? Aðstoðar-for- stjóri í fyrirtækinu? — Fulltrúi í bráðina .. . Það er erfið- ara þar en hér, fyrir kvenmann, að kom- ast alla leið upp á efsta tindinn. — Hvernig borg er Chicago eiginlega? Margrét hagræddi sér í stólnum, eins og hún ætti von á æfintýri. — Hávaða-borg! sagði systir hennar hlæjandi. — Til samanburðar, þá er það eins og að vera komin til himnaríkis, að vera hérna í þessu herbergi. — Er eitthvað ... Margrét hikaði. — Er eitthvað, sem bindur þig, þarna hinu- megin hafsins? — Elsa hló. — Starf mitt! — Er nú fullnæging í því fyrir konu? Það leggur að mér grun um það, að þú hafir orðið fyrir vonbrigðum, hvað .. . — Hvað karlmenn snertir, áttu ekki við það, barnið gott? Elsa sveiflaði fótunum fram úr rúminu og seildist eftir sígarettu- hylkinu á snyrtiborðinu. Hún bauð systur sinni, en Margrét hristi höfuðið. Sjálf teyg- aði hún reykinn úr Lucky Strike með áfergi. — Maður jafnar sig fljótlega eftir slík vonbrigði, sagði hún hlæjandi. — Karl- mennirnir í viðskiptaheiminum hafa engin áhrif á mig lengur sem karlmenn. Fyrir mér eru þeir ekki annað en fésýslumenn. Annars hefi ég átt allt of annríkt síðustu árin til þess að hafa tíma til að dubla. — Þú ert nú samt agalega heillandi, sagði Margrét, og það var auðheyrt að hún talaði af sannfæringu. — Það er áríðandi skilyrði, til þess að komast nokkuð áfram. Allt í einu stökk hún á fætur og tók utan um herðarnar á systur sinni. — Sannleikurinn er sá, að þetta ætlar að fara í taugarnar á mér. Ég er ekki í skapi til þess að taka þátt í fjölskyldu- jólagleðskap, í þessari útgáfu. Hún tók eftir því að Margrétu sárnaði þetta og flýtti sér að bæta við: — Auðvitað sé ég að drengirnir þínir eru fallegir og yndis- legir og maðurinn þinn elskulegur, hann er höfðingi, og ég skil það vel, að mamma hlakkar til þessara merkilegu jóla eins og barn .... En ég fell svo hjárænulega inn í þessa mynd. Skilurðu mig? — Þú átt rétt á því að eiga notaleg og ánægjuleg jól, hérna á heimilinu, alveg eins og við! maldaði Margrét í móinn. — Já, þið munuð ætla að hafa vakandi auga á því, að ég njóti þess réttar míns. Þetta verður eins konar meðaumkunarat- höfn, af ykkar hálfu. — Þetta mátt þú ekki segja. Þú hefir fulla ástæðu til að vera glöð og hreykin yfir því, hve vel þér hefir gengið, en ég held, að nú liggi bara illa á þér, af því að þú ert þreytt. Þú varst miklu kátari um daginn, þegar við tókum á móti þér á hafn- arbakkanum. Framhald á bls. 32.

x

Vikan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vikan
https://timarit.is/publication/368

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.