Heima er bezt - 01.12.1961, Blaðsíða 17
HEIMA_______________
BEZT BÓKAH I LLAN
Jón Sigurðsson: RIT, I. bindi, Blaðagreinar. Rvík. 1981.
Menningarsjóður.
Með bindi þessu hefst útgáfa á ritum Jóns forseta, sem hafin
er í tilefni 150 ára afmælis hans og styrkt af Alþingi. Er þetta
fyrsta bindið af þremur áætluðum, sem flytja skuli blaðagreinar
hans, og sér Sverrir Kristjánsson um útgáfuna. Við lestur þessa
bindis fáum vér þegar nokkra hugmynd um hvílíka feikna vinnu
Jón hefur hlotið að leggja í að skrifa blaðagreinir, og hversu snjall
blaðamaður hann hefur verið. Gamlar greinir eru sjaldan
skemmtilestur, en hér gegnir sérstöku rnáli, því að hér er um að
ræða merk heimildarrit í sögu landsins, og sumar þeirra bein
fræðirit um íslenzkan þjóðarhag á þessum árum. í greinunum
kemur Jón ætíð fram á sama hátt, heill og óskiptur, djarfur til
sóknar en traustur til varnar, rökfastur og stilltur, en þó oft
hvassyrtur. Ritið kynnir oss þannig bæði manninum og málefn-
unum. Inngangur Sverris er greinagóður, en óþarflega miklu máli
þykir mér eytt þar í hertogadæmadeiluna dönsku. Eins eru skýr-
ingarnar aftan við bókina góðar, en hvers vegna eru þær ekki
látnar fylgja hverri grein? Ef svo væri, yrðu þær aðgengilegri les-
andanum og kæmu að betra gagni.
Ólafur Tryggvason: Huglækningar. Akureyri 1961. —■
Kvöldvökuútgáfan.
Þetta er fyrsta bókin, sem skráð hefur verið um huglækningar
á íslenzku, enda þótt lækningarnar hafi lengi verið kunnar hér
og ýmsir við þær fengizt. En höfundurinn segir frá fleiru en
lækningum sínum, því að hann er dulvís á ýmsa vegu aðra, og
hann hugsar djúpt og leitast við að ráða hinar duldu rúnir, sem
hann skynjar. Þeir eru orðnir býsna margir, sem notið hafa góðs
af lækningamætti Ólafs. Enginn, sem til lians þekkir, efast um
heiðarleik hans og sannleiksást og löngun til þess að lina þján-
ingar meðbræðra sinna. Þeirra vegna hefðu því lækningasögur
bókarinnar verið óþarfar, en ég tel þa:r nauðsynlegan grundvöll,
sem ekki verði véfengdur vegna þeirra, sem um allt efast, og síðari
kynslóða, sem bókina lesa. Lækningarnar eru staðreynd, og þær
eru tryggilega vottfestar. Þar haggar engu um, þótt ýmsir kunni
að segja, að sjúklingunum hafi batnað af sjálfu sér. Slíkt gerist
eigi síður, þar sem venjulegir læknar eru að verki, og efast eng-
inn um kunnáttu þeirra og gagnsemi. En Ólafur segir frá fleiru
en lækningunum, í bókinni lýsir hann undursamlegum sýnum,
feiknlegum atburðum, sem rekja má til haturs og ills hugar, en
síðast en ekki sízt ræðir hann samband sitt við máttarvöld ósýni-
legs heims, og hversu þau nota krafta hans til þess að lina þján-
ingar meðbræðra sinna bæði þessa heirns og annars. Ýmsir kunna
að rengja orð Ólafs, þeir um það. Hinir, sem þekkja höfundinn,
vita betur, og lækningareynslan er órækasti vitnisburðurinn um,
að hér gerast yfirvenjulegir hlutir. Og vert er að minnast þess,
að rauði þráðurinn í kenningum Ólafs er góðvildin og kærleik-
urinn til alls og allra. Það viðhorf skilja allir, þótt lesendum
kunni að þykja sumt torskilið í frásögn hans, því að þegar höf-
undur tekur að hugleiða málin, hættir honum um of að hverfa
á vald þess, sem hann skynjar einn, en aðrir fylgjast naumast
með. Annars er hann prýðisvel ritfær, og vissulega takast þeir
kaflar vel, þar sem hann svarar spurningum, sem fyrir hann eru
lagðar. Lítill vafi er að þessi bók verður mikið lesin, og því meira
metin, sem menn kynnast henni betur.
Smábækur Menningarsjóðs, Rvík. 1961.
Nýlega eru þrjár bækur komnar út í þessum bókaflokki, sem
Hannes Pétursson, skáld, sér um. Fyrst í röðinni er frönsk saga
Litli prinsinn eftir Antoine de Saint-Exupéry í þýðingu Þórarins
Björnssonar, skólameistara. Þessi litla bók er saga, ævintýr eða
ljóð, eftir því hvað maður vill kalla hana, hugljúf og heillandi og
gerir hvorttveggja í senn að skemmta lesandanum og vekja hann
til umhugsunar um lífið og tilveruna. Hún er hóglát og barnaleg
við fyrstu kynni, en því betur sem hún er lesin, finnur lesandinn
að hér er fjallað um hin dýpstu rök á einfaldan og elskulegan
hátt. Þýðingin er á hreinu og tæru máli, sem fellur vel að efni
og anda bókarinnar.
Önnur bókin eru lnéf Konráðs Gíslasonar í útgáfu Aðalgeirs
Kristjánssonar og kallar hann bókina Undir vorhimni. Er bréfa-
úrval þetta gert og útgefið af smekkvísi og vandvirkni. Alltaf
leikur ljómi um þá Fjölnismenn, en þótt Konráð lifði þeirra
miklu lengst, hafa rnenn minnst heyrt hans getið. Þessi fáu bréf
færa hann beint heim til vor. Vér kynnumst honum glettnum
og gamansömum í bréfunum lil Jónasar. Vér mætum honurn
beygðum af harmi við lát unnustu sinnar og loks sjáum við hann
roskinn og raunamæddan á efri árurn sínum. En alltaf er hann
hinn sami, barnslega viðkvæmur, trölltryggur vinum sínum en
langminnugur á mótgerðir. Trúlegt þætti mér, að þetta kver
yrði talið meðal hinna sígildu rita í íslenzkum bókmenntum, og
einhvern veginn finnst mér það hvergi eiga heima, nema við hlið-
ina á ljóðum Jónasar vinar hans.
Þriðja bókin í hópnum er safn af lausu máli eftir Stein Stein-
arr og nefnist það Við opinn glugga. Ekki get ég að þvf gert, að
mér hefur ætíð fundizt dálætið, sem sumir hafa haft á ljóðum
Steins, vera eitt áþreifanlegasta teiknið um hnignandi ljóðasmekk
þeirra, sem mest skrifa um ljóðagerð. Eg gerði mér því ekki mikl-
ar vonir um þessa bók. En skemmst er um hana að segja, að hún
er skemmtileg aflestrar og víða bráðskemmtileg. Dómar hans um
menn og málefni eru hvassir, oft ósanngjarnir og jafnvel illkvittn-
ir, en lausir við hik og vangaveltur. Stíll bókarinnar er hnitmið-
aður, víða fyndinn og oft illskár. En allt um það er sá grunur
minn, að margar greinar í þessari bók muni lifa meginþorrann
af ljóðum skáldsins, en um ljóðagerð sína kveður hann upp einn
snjallasta dóm bókarinnar: „Eg hef aldrei ástríðu til að yrkja, en
mér er nauðsynlegt að geta sofnað á kvöldin, og í stað þess að
lesa reyfara fór ég að raða sarnan orðum". Hannes Pétursson hef-
ur annazt útgáfu bókarinnar og skrifar inngang að henni í hin-
um venjulega lofræðustíl um höfundinn. (Framhald á bls. 4)3).
Heima er bezt 417