Heima er bezt - 01.01.1963, Blaðsíða 18

Heima er bezt - 01.01.1963, Blaðsíða 18
mannstyrk þurfti jörðin til að vera fullnýtt. Bærinn stóð við sjóinn, nálægt miðju láglendinu, í vari fyrir snjóflóðum. Skammt þaðan var ágæt lending, hyldjúpir vogar gengu inn á milli klettabríka, og gátu þilskip lagzt þar að landi, og gott var þar til setningar. Fyrir 1700 hafa heimildir mínar eigi annað af Látr- um að segja en að þaðan „gengu mörg skip“. En á 18. öld varpar förukonan Látra-Björg frægð yfir jörðina. Látra-Björg var af ættum fyrirmanna. Langfeðgar hennar voru sýslumenn, prestar og prófastar, og var hún fjórði maður frá Hrólfi Bjarnasyni sterka. Faðir Bjargar var Einar Sæmundsson „stúdent“, maður stór- gáfaður og skáld gott. Hann sigldi til Hafnarháskóla og lenti þar í óreglu.1) Kunnastur var hann fyrir skáldskap sinn, sem var óheflaður og níðskár sem dóttur hans. Einar stúdent ól mestan aldur sinn í útsveitum beggja vegna Eyjafjarðar. Nafn hans finnst víða í skjölum, og víst er, að oft leituðu valdamenn aðstoðar hans vegna lærdóms hans og vitsmuna, en aldrei hafði hann em- bætti. Munu mestu valdið hafa óvinsældir, er hann afl- aði sér með ljóðum sínum, hárbeittum og herskáum. Vel máttu þau feðginin, Einar og Björg, heita skáld út- nesjanna. Ljóðagerð þeirra var hörð og hömrótt, klið- þung sem brimið við Hvanndalabjarg og Gjögurtá. Einar stúdent bjó á Látrum 1722—1725, en Björg dótt- ir hans var fædd í Stærra-Árskógi 1716. Af einhverjum ástæðum varð Björg eftir á Látrum 9 ára gömul, þegar faðir hennar flytur aftur vestur yfir fjörðinn. Hjá vandalausu fólki dvelst hún síðan á Látr- um og telur sér þar jafnan heimili. Hún elzt þar upp og verður karlgild að burðum. Ekki mun hún verið hafa aldæla að skapsmunum, og fljótlega gerist hún „sjálfrar sín“, verður húskona, á sínar skepnur og sína matseld, rær á sjó með húskörlum og tekur hlut sinn. Margar vísur Bjargar lýsa sjónum og sjóferðum og eru stundum, bæði að efni og bragarhætti, sem brimhljóð við kletta: „Grenjar hvala-grundin blá geðs af kala stórum. Björg við gala og brotna þá bylgjur Valakletti á.“ Harðara er brimhljóðið í þessari vísu: Orgar brim á björgum, bresta ölduhestar. Stapar standa tæpir, steinar undan kveina. Þoka úr þessu rýkur, þjóð ei spáir góðu. Halda sumir höldar, hríð á eftir ríði. En Björg gat líka verið gamansöm á sjónum. Við einn hásetann kvað hún: 1) Hvorki íslenzkar æviskrár né ísl. Hafnarstúdentar geta um háskólavist Einars, og meira að segja dregið í efa að hann hafi orðið stúdent. Róðu betur, kær minn kall, kennd’ ekki’ í brjóst um sjóinn! Harðara taktu herðafall, hann er á morgun gróinn. Aðalbóndinn á Látrum all-lengi um þarvistardaga Bjargar var Jón nokkur Einarsson, og hét Randalín húsfreyja hans. Margt kveður Björg um þessi hjón og sjaldan í blíðum tón: Haukafell1) með heiftar-smell hrista mellan kunni. Jón fékk skell og hljóðin hvell af herjans kerlingunni. Margt bendir til, að heimilislíf hafi eigi verið glatt á Látrum. Má vel vera, að Björgu hafi þótt skemmtilegri ferðalögin en heimasetan þar. Ekki er vitað, hve snemma á ævinni hún gerist förukona. Hitt er víst, að henni varð vel til fanga. Hjálpaði þar bæði, að margir höfðu gaman af kviðlingum hennar, mannviti og hnytti- legum svörum, og að hún var talin göldrótt og ákvæða- skáld, óspör á blessunarorð fyrir velgerðir og bölbænir vegna mótgjörða, en hvort tveggja þótti við hrína. Galdramenn þeirrar aldar voru taldir hollvinir Satans og hann þeim bónþægur, en athugandi er, að Látra- Björg ákallar jafnan máttarvöld himinsins í vísum sín- um, og virðast þau vera henni þjónustusamleg. Skulu hér færð þess dæmi nokknr: Eitt sinn í harðindum og bjargarleysi, þá er ekki fékkst bein úr sjó, hvetur Björg Látramenn í róður, en rær ekki með. Þeir töldu róður vonlausan. Björg merkti sér einn öngul og kvað: „Sendi Drottinn mildur mér minn á öngul valinn flyðru þá, sem falleg er fyrir sporðinn alin.“ Á öngul Bjargar kom lúða, meiri og feitari en menn vissu dæmi til, en eigi nokkurt kóð á aðra öngla. Látra- menn færðu Björgu lúðuna óskipta, en hún skipti jafnt á milli allra þurfandi, er hún náði til. Eitt sinn er sagt, að bóndinn á Eyri á Flateyjardal gæfi Björgu fjóra harðfiska, væna og valda. Björg kvað þá: Góður Drottinn gefi þér göfuga fiska fjóra. Hann mun kannski hugsa sér að hafa þá nógu stóra. En á næstu vikum rak fjögur stórhveli á Eyrarfjör- ur. — Eitt hungurs- og hörmungarvorið gisti Björg að þeim bónda, er nefndist Nikulás og bjó við veiðivatn. Bóndi býður henni lengri vist, ef hann veiði vel. Björg kvað: 1) Haukafell = hönd. 14 Heima er bezt

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.