Heima er bezt - 01.01.1963, Blaðsíða 28
dauðhrædd um, að þú svifir burt á gráa skýinu, en sem
betur fer, ertu nú snúin við til okkar aftur!“
Ég lá í hálfan mánuð. Það var dekrað við mig eins
og ungbarn. Anna gamla, sem var ráðskona hjá þeim,
ieit á mig sem prinsessu. Kannske hafa fatabirgðirnar
mínar átt sinn þátt í því. Hún tók upp úr nokkrum
töskunum mínum og raðaði inn í skápinn og strauk og
skoðaði vandlega hverja flík. Ég held henni hafi alveg
ofboðið öll þau ósköp, sem ein stúlka gat átt.
„Blessað barnið, hefur þú komið í öll þessi föt?“ gat
hún ekki stillt sig um að segja. Ég játaði því og gat
varla varizt hlátri yfir undrunarsvipnum á andliti
hennar.
Páll kom oft á dag inn til mín, en stóð alltaf stutt
við. Björn sonur hans kom sjaldan og talaði fátt, en
horfði aftur á móti þannig á mig, að mér fannst hann
hlyti að sjá inn í innsta hugskot mitt.
Anna sagði mér, að hann hefði ekki farið úr fötum
margar nætur. Ég hafði verið ákaflega erfiður sjúkling-
ur og hrópað hástöfum á Hans.
„Þekkir þú Hans vel?“ spurði Anna gamla og horfði
rannsakandi á mig.
„Já,“ svaraði ég steinhissa. Hún vissi þó ósköp vel,
að Hans hafði verið með annan fótinn hjá Söru frænku
sinni frá því ég var smákrakki.
„Þú ættir að láta hann eiga sig, barnið gott,“ sagði
Anna alvarlega. „Hann er ekki fyrir þig.“
Ég fyllist mótþróa. Hvað var hún að skipta sér af
mínum málum og mínum vinum!
Pabbi hafði oft sagt, að þrjózkan væri versti löstur-
inn minn. Væri mér bannað eitthvað, þá væri alveg
öruggt, að ég gerði það einmitt. Pabbi hafði þá skoð-
un, að það hefði verið það sama sem að kasta mér í
fangið á Hansi að banna mér að vera með honum. Ég
komst að þessu, þegar ég las dagbækurnar hans. Og
ekki hefur honum alltaf verið rótt, þegar Hans var í
heimsókn.
Mér leiddist hræðilega í Álftafirði, enda gerði ég ekki
neitt nema sofa, lesa og borða. Páll var alltaf alúðlegur
við mig, en hann hafði svo lítinn tíma frá störfum sín-
um. Anna var í eldhúsinu meiri hluta dagsins, og Björn
sjaldan heima. Hann sá um allar sjúkravitjanir í hérað-
inu, en það var gríðar stórt, eftir því sem Anna sagði.
Það var samt Björn, sem kom til mín á nóttunni, þeg-
ar ég vaknaði upp af martröðinni hrædd og grátandi.
Það hefur kannske verið þess vegna, að ég forðaðist að
vera ein með honum á daginn. Ég trúði honum fyrir
svo mörgu, sem ég sá svo eftir að hafa sagt honum, —
ekki af því að ég héldi, að hann segði frá því, heldur
vegna þess að hann var fyrsta manneskjan, sem ég hafði
getað verið svo einlæg við. Mér var nautn af að tala, og
hann var svo sterkur og tók öllu með svo mikilli ró-
semi, breiddi ofan á mig og hélt í höndina á mér, þang-
að til ég var sofnuð. Oft raulaði hann lágt fyrir munni
sér, stundum sama lagið upp aftur og aftur.
Ég skammaðist mín fyrir að vera svona hrædd, en gat
ekki við það ráðið. Sem betur fór, kom það nú sjaldnar
og sjaldnar fyrir, að ég fengi martröð. Ég var farin að
læsa hurðinni á kveldin og lá svo ein og starði ofsalega
hrædd út í myrkrið, en vildi ekki hafa ljós alla nóttina
eins og smábarn.
Það innilega samband sem var á milli okkar Björns á
þessum köldu og dimmu vetrarnóttum, virtist rofna um
leið og myrkrið vék fyrir dagsljósinu. Stundum tók ég
eftir, að hann virti mig fyrir sér alvarlegur á svipinn,
en aldrei sagði hann neitt, þótt ekki hafi getað farið
framhjá honum, hve ég forðaðist hann. Sennilega hefur
hann skilið mig betur en ég sjálf.
Ég þráði Hans svo oft, þegar mér leiddist, að ég
ákvað að skrifa honum og biðja hann að koma, en þeg-
ar ég bað Björn um heimilisfang hans, sagðist hann ekki
hafa hugmynd um það, og ekki heldur, hvar hann nú
stundaði vinnu. iMér fannst þetta grunsamlegt og fór
beint til Önnu, en hún fór undan í flæmingi og lézt ekk-
ert vita. Þá var Páll eftir. Ég fór inn í skrifstofu hans
með umslag og bað hann að gefa mér heimilisfang Hans.
Mér fannst honum bregða, en samt sagði hann rólega,
að því miður vissi hann ekki nýja heimilisfangið, fyrr
en hann fengi bréf frá Hans, en hann væri farinn til
útlanda, til hvers sagði hann mér ekki.
Ég varð fyrir hræðilegum vonbrigðum, eins og ég
hafði nú hlakkað til að sjá Hans aftur. Meiri hluta dags-
ins sat ég uppi í herbergi mínu og lét ruggustólinn
ramba með mig fram og aftur. Ég reyndi að lesa, en
gat ekki fest hugann við efnið. Ég gat heldur ekki sofið,
þá lá ég vakandi á nóttunum. Allt var svo ömurlegt og
tilgangslaust.
Anna gerði allt sem gera þurfti, jafnvel þvoði gólfið
í herberginu mínu og þurrkaði af. Ég lét mér það vel
líka. Heima hafði Sara haft þessi störf á hendi, og mér
fannst sjálfsagt, að hér væri þetta í verkahring Onnu.
Það hvarflaði ekki að mér, að það væri skylda mín að
sjá sjálf um herbergi mitt, þótt ekki væri annað.
Stundum færði Ánna mér kaffið í rúmið. Ég kunni
því vel, og eftir nokkurn tíma varð það fastur liður í
morgunstörfum hennar. Það var notalegt að leggjast
södd útaf aftur, breiða sængina upp að eyrum og dorma
frameftir morgninum. Stundum náði ég varla í hádeg-
ismatinn, varð að flýta mér í fötin og geyma aðalsnyrt-
inguna þar til seinna.
Björn var búinn að ympra á því við mig, að ég hjálp-
aði til á sjúkrahúsinu smá stund úr deginum eða þá
Önnu með húsverkin. Þlvortveggja fannst mér jafn frá-
leitt. Anna virtist ekki vera í neinum vandræðum með
að koma sínum verkum af, og að fara að bjástra við
sjúklinga, nei takk! Veikt fólk hafði ég aldrei getað
þolað, en samt var einhver ofurveik rödd sem hvíslaði:
En þegar þú sjálf varst veik, og enginn hefði sinnt þér,
— hvað þá? En ég þaggaði þessa rödd óðar. Það var
fyrir lækna og hjúkrunarlið að sinna sjúkum, ekki fyrir
mig!
Éinn morguninn þegar Anna var rétt búin að setja
kaffibakkann á borðið hjá mér, kom Björn inn. Hann
24 Heima er bezt