Heima er bezt - 01.11.1984, Qupperneq 44
Skipherrann
djarfi
Sveinn Sæmundsson:
GUÐMUNDUR SKIPHERRA
KJÆRNESTED.
Rvík 1984 öm og örlygur.
Meðan á síðustu þorskastríðunum við
Breta stóð, voru fáir menn meira umtal-
aðir en Guðmundur Kjærnested skip-
herra. Hugdirfska hans, lagni, drengileg
og viturleg framkoma vakti í senn athygli
og aðdáun, bæði hér heima og erlendis, og
mikið dauðyfli má sá íslendingur hafa
verið, sem ekki hljóp kapp í kinn, er hann
heyrði um viðureign Guðmundar og
manna hans einskipa á lítilli fleytu gegn
flota breska heimsveldisins. Og sennilega
hefir enginn einn maður átt drýgri þátt í,
að þeim skiptum lauk, íslendingum til
gagns og sæmdar. Nú er fyrra bindið af
æfisögu Guðmundar komið á prent, og
hefir Sveinn Sæmundsson skráð það eftir
frásögn hans sjálfs. Þessi bók lýsir ekki
einungis æfiferli merkismanns, heldur
einnig mikilvægum þætti þjóðarsögunnar
og gefur innsýn í hvernig Landhelgis-
gæslan hefir þróast og starfað, en um þann
þátt í lífsbaráttu þjóðarinnar eru menn
almennt næsta fáfróðir. En umfram allt
kynnumst vér manninum sjálfum,
drengilegum og djörfum, sem sækir
ótrauður að settu marki. Og hvern skyidi
hafa órað fyrir því, þegar hann í frum-
bernsku var næstum orðinn berklaveik-
inni að bráð, að hann ætti eftir að lifa svo
litríka æfi og komast í jafnmargar þrek-
raunir. Og miklar happahendur hafa verið
á Unu hjúkrunarkonu, sem bjargaði þá lífi
hans með umhyggju sinni. Frásögnin öll
er látlaus og hressileg, laus við allt yfirlæti,
tilgerð og málalengingar, enda væri allt
slíkt ólíkt manngerð Guðmundar Kjær-
nested. Sagt er frá ýmsum æsispennandi
atvikum með ró og festu þess manns, sem
bæði veit hvað hann vill, og hvemig skal
bregðast við á örlagastundum fyrirvara-
laust. Þetta bindi endar á frásögn af fyrstu
togvíraklippingunni, svo að lesendur
verða enn að bíða um skeið eftir að heyra
framhaldið um stærsta og afdrifaríkasta
kaflann í æfi Guðmundar Kjærnested.
Þýddar smásögur
ÍSLENSKAR SMÁSÖGUR,
V. bindi þýðingar.
Rvík 1984. Almenna bókafélagið.
Þetta 5. bindi smásagnasafnsins og annað
bindi þýddra sagna flytur 23 úrvals smá-
sögur jafnmargra valdra höfunda úr
heimsbókmenntunum, sem rituðu á fyrra
helmingi þessarar aldar. Hafa þýðingar
þessar birst viða áður í ýmsum tímaritum
og sagnasöfnum. Hin elsta þeirra er Hvíti
selurinn, í Tímariti Bókmenntafélagsins
1902 í þýðingu dr. Helga Péturss. Þarna
eru því margir gamlir og góðir kunningjar,
sem gaman er að hitta á einum stað. Þýð-
endurnir eru allir úr hópi viðurkenndra
íslenskra rithöfunda og þýðenda og meðal
þeirra margir hinna snjöllustu rithöfunda
vorra. Meðal hinna eldri eru Einar H.
Kvaran, Jón Sigurðsson frá Kaldaðarnesi,
dr. Helgi PéturssogKristján Albertsson,og
úr yngri hópnum Indriði G. Þorsteinsson
og Kristján Karlsson, sem einnig er rit-
stjóri safnsins. Nöfn þessara manna og
raunar þýðendanna allra er trygging þess,
að vel sé að unnið, enda er verkið allt hið
vandaðasta bæði að efnisvali og íslensk-
um búningi. Það þykir brenna við, að fs-
lendingar séu áhugalitlir um smásögur, en
merkilegt má vera, ef þetta ritsafn, bæði
hinn frumsamdi og þýddi hluti þess kem-
ur lesendum ekki á bragðið, og kennir
þeim að meta þessa bókmenntagrein.
íslandsferð 1863
Sir Charles H.J. Anderson:
FRAMANDI LAND.
Rvík 1984. örn og örlygur.
Þetta er dagbókarkorn ensks aðalsmanns,
er ferðaðist hér á landi ásamt félaga sínum
1863. Hefir það aldrei verið prentað fyrr,
en þýðandinn Böðvar Kvaran komst yfir
handritið í fornbókaverslun í Englandi
fyrir nokkrum árum, þótti það forvitni-
legt, keypti það og þýddi. Leið þeirra
félaga lá um Suðurland, að mestu hina
hefðbundnu leið til Þingvalla, Geysis, og
Heklu, en þó lögðu þeir lykkjur á leið sína
upp að Hagavatni og að Gullfossi, sem
höfundur segir, að þeir félagar hafi séð
fyrstir enskra manna. Aðra ferð fóru þeir
til Krísuvíkur og kringum Reykjanes-
skagann. Dagbókin er engin fullkomin
ferðasaga, heldur stutt frásögn um við-
burði hvers dags, en ekki slípuð og samin
ferðabók að lokinni ferð. Höfundur hefir
víða hrifist mjög af því, sem fyrir augun
bar t.d. Þingvöllum, Geysi og útsýninu af
Heklu, sem þeir félagar gengu á. Hann
rómar mjög gestrisni íslendinga og talar af
miklum skilningi og hlýhug um land og
þjóð. Segir svo m.a.:
„Það er hrífandi að sjá muninn á hinum
iðnu Islendingum, sem hirða hey af
hverjum líklegum bletti, menn og konur
að vinnu af ítrasta krafti, og lötum Itölum
klerkaveldisins, sterkum og hraustum, er
slæpast og hanga i skikkjum sínum sem
iðjuleysingjar.“
Höfundur hefir verið ágætur teiknari og
er bókin prýdd mörgum ágætum myndum
bæði í litum og svarthvítu. Þeir félagar
hafa verið í fyllsta máta skotglaðir, eftir
því að dæma, sem hann telur upp af
skotnum lóum, spóum, rjúpum o.fl.
Höfðu þeir veiðina sér til matar og söfn-
uðu hömum. Nokkra furðu vekur, hve
margt þeir sáu af örnum, en engum náðu
þeir, þótt oft væri á þá skotið. Bókin, þótt
stutt sé, er eiguleg, bæði vegna fagurs út-
lits og mynda og geðfellds efnis, þótt höf.
sé fáorður og flytji engar nýjungar. Illa
kann ég því að tala um fjallaask í görðum
Færeyinga. Þar er vafalaust átt við reyni-
við, sem heitir „mountain ash“ á ensku.
Þessi fallega, litla bók sýnir ljóslega, að
enn kann sitthvað skemmtilegt að dyljast í
fórum Englendinga af ferðalögum þeirra
hingað til lands á liðinni öld.
Hvar er konan?
Halldór Kristjánsson:
ÁGÚST Á BRÚNASTÖÐUM.
Rvík 1984. örn og örlygur.
Saga Ágústs Þorvaldssonar fyrrum al-
þingismanns á Brúnastöðum er um margt
merkileg. Fyrstu ár æfinnar er hann á
364 Heima er bezl