Skírnir - 01.01.1935, Blaðsíða 57
Skírnir]
Dr. Hannes Þorsteinsson.
55
duglegur og samvizkusamur kennari. Var hann meðal
annars ágætur latínumaður, enda var í þann tíð mest
áherzla lögð á þá grein til inntöku í skólann. Einnig
kenndi hann kristin fræði í latínuskólanum veturinn
1890—91, íslenzku og þýzku fyrir Halldór yfirkenn-
ara Friðriksson um tíma sama vetur, svo um tíma sagn-
fræði vorið 1896. Árin 1891—1894 starfaði dr. Hannes
einnig að skrásetningu og skipulagningu stiftsskjala-
safnsins og hafði til þess nokkurn styrk úr landssjóði
árin 1892—1894.
Árið 1891 lagði dr. Hannes inn á nýja braut. Keypti
hann nú blaðið Þjóðólf af Þorleifi Jónssyni, síðar póst-
meistara í Reykjavík. Var Þjóðólfur þá langelzta blað
landsins og allvíðlesið. Gerðist dr. Hannes útgefandi
þess og ritstjóri frá 1. jan. 1892. Jók hann útbreiðslu
blaðsins og stækkaði það að mun, enda gekk hann að
blaðamennskunni með dugnaði og samvizkusemi, gætti
þess mjög, að blaðið kæmi út á réttum tíma og að út-
sending væri í bezta lagi. Hafði hann og duglega menn
til þess starfs með sér, bæði Þorstein bróður sinn að
nokkru, meðan hann var í skóla, og svo réðust til hans,
hvor eftir annan, tveir ungir og efnilegir fræðimenn,
fyrst Jósafat Jónasson ættfræðingur, er síðan fór til
Vesturheims, og síðan Jóhann Kristjánsson ættfræð-
ingur (d. 1918), er var í þjónustu dr. Hannesar, meðan
hann átti Þjóðólf. Gerðist dr. Hannes bráðlega efnaður
maður, enda mun Þjóðólfur lengstum hafa gefið honum
allgóðar tekjur. Keypti dr. Hannes helming hússins við
Austurstræti 3 móts við Jón Brynjólfsson skósmið og síð-
ar kaupmann, og hafði þar bústað og ritstjórn og af-
greiðslu blaðsins. En blaðamennska á íslandi er og var
þreytandi starf, enda mun dr. Hannesi hafa orðið að því.
Kom og það til, að samflokksmenn hans, heimastjórnar-
menn, allmargir gengust fyrir stofnun nýs blaðs (Lög-
réttu) árið 1905, er hóf göngu sína 1. jan. 1906. Mun
dr. Hannesi hafa þótt sem í því væri ekki fólgið of mikið
traust eða þakklæti til sín fyrir örugt fylgi og starf það