Kirkjuritið - 01.12.1949, Side 15
J’ÆÐING JESÚ OG FYRSTA BERNSKA 273
í Betlehem, eða þau Jósef ekki viljað skilja, meðan hagir
stóðu svo. Þeir sem álykta út frá Matteusarguðspjalli,
að þau Jósef og María hafi upphaflega átt heima í Betle-
hem, skýra svo för Maríu frá Nazaret til Betlehem, að
hún hafi viljað hraða sér heim til að ala þar barn sitt.
Frásögnin yndislega um Betlehemshirðana er á því máli
og með þeim blæ, sem einkennir lýsingu á fegurstu og til-
komumestu sýnum: Þeir sjá úti undir beru lofti himneskar
hersveitir, heyra undursamleg orð um fæðingu Messíasar
og hverfa heim til bæjarins og finna þar ungbarn í reifum,
liggjandi í jötu. Erfikenning frá 4. öld heldur því fram,
að hirðai’nir hafi verið með hjörð sína á völlum fyrir
austan Betlehem. Og til hins sama benda fornar kirkju-
rústir á þeim stað. Menn hafa reynt út frá því að álykta
um árstíðina, er Jesús fæðist. Hirðar á Gyðingalandi
höfðust venjulega við undir beru lofti með hjarðir sínar
frá páskum og til haustregnsins, í nóvember. Hins vegar
kom það einnig fyrir, að þeir stæðu á vetrum yfir hjörð-
um, er fórna skyldi í Jerúsalem. En þær voru þá reknar
í byrgi að kveldi. Virðist því sennilegra, að Jesús sé fæddur
um sumar eða haust.
Á áttunda degi var sveinninn umskorinn samkvæmt
fyrirmælum lögmálsins. Var þá venja, að ættingjar og
vinir væru viðstaddir. En ekki getur Lúkas þess við um-
skurn Jesú eins og Jóhannesar skírara áður. Munu for-
eldrar Jesú hafa látið umskera hann í kyrrþey. Umskurn-
in var ytra tákn þess, að hann teldist til safnaðar Guðs.
Henni fylgdi nafngjöf eins og síðar kristinni skírn. Nafn
sveinsins hafði þegar verið ákveðið áður en hann fæddist.
Það var algengt nafn á Gyðingalandi og frægt frá dögum
Jósúa, á grísku Jesús eða Jason. Nafnið þýðir: Jahve er
hjálpræði. Mattheusarguðspjall skýrir þannig: Hann
mun frelsa lýð sinn frá syndum þeirra. Lúkas segir svo
frá, að honum er umskurnin aukaatriði. Hitt varðar mestu,
að sveinninn var látinn heita Jesús. Svo hefir að líkindum
einnig farið foreldrum hans.