Jörð - 01.12.1931, Page 44
128 í GAMLA DAGA [Jörð
suðaustan snjókoma eða stórrigningar. Þegar við lögð-
um upp í janúar-ferðina var stórrigning.
Vanalega tók pósturinn á austurleið gistingu á Núps-
stað, til að vera sem næst Sandinum (Skeiðarársandi).
Var svo einnig nú. Jón Jónsson bóndi á Núpsstað taldi
ekki líkur til, að við myndum fara yfir Sandinn næsta
dag, ef svona rigndi áfram um nóttina. Var bóndi
sriemma á fótum um morguninn, kemur inn til okkar og
segir ekki uppstyttulegt; enn sé sama dynjandi rigningin
og gerði hann ráð fyrir, að við þyrftum ekki að flýta
bkkur á fætur, »því að ekki er til neins að líta að Núps-
vötnunum í dag«. Var þá orðið marautt í byggð, en nóg-
ur snjór í fjöllunum, til að auka vatnavöxtinn. Þegar við
höfðum þegið góðgjörðir um morguninn, tókum við hest-
ana og bjuggumst til ferðar. Afsegir þó Jón að við leggj-
um í Núpsvötnin. Sá þá allvel til þeirra frá Núpsstað, og
sagði hann þau alófær. Gísli taldi það ekki myndi drepa
okkur, þó að við færum austur í Hlíð (Núpshlíð heitir
grasbrekka, er liggur undan enda Lómanúps) og sæjum,
hvernig þau litu út þaðan. Jón Íagði ríkt á við Gísla að
hætta sér ekki í Vötnin, og vonaðist eftir okkur strax til
baka. Fórum við nú sem leið lá austur í Hlíð. Var þá að
mestu ósundurslitið vatn yfir að líta frá Hlíðinni austur
að Gýgjum, en svo heita háar sandöldur alllangt austan
við Núpsvötn. Héldum við nú viðstöðulaust áfram út í
Vötnin. Gísli reið á undan og teymdi lausan fola, en ég
var á eftir með kofortahestana. Frá Hlíðinni og austur
að aðalvatninu voru álar með smáeyrum á milli, en 'sá
mestur, er næstur því var. Þarna vorum við komnir á
stærstu eyrina milli álanna, og nú lagði Gísli út í, til að
reyna hin vanalegu gömlu Núpsvötn; hitt var allt auka-
geta, sem við vorum búnir að fara yfir. Vatnið braut sig
þannig, að ríða varð brotið móti straum. Gísli hafði enn
lausa folann í taumi,-en ég beið á eyrinni að sjá, hvernig
honum gengi og hvort fært myndi vera.
Auðséð var, að vatnið var djúpt á brotinu. Gísli reið
rauðskjóttum hesti, er hann átti, stórum og ágætum grip;
og klauf hann sem klettur kol-mórauðan strauminn og