Nýjar kvöldvökur - 01.10.1934, Blaðsíða 14

Nýjar kvöldvökur - 01.10.1934, Blaðsíða 14
156 NÝJAR KVÖLDVÖKUR Ásgeir ungi heyrir hróp og köll, er skipverjar klifra eftir snarbröttu þilfar- inu í áttina til bátanna. En hann stend- ur grafkyrr og starir út yfir hafið. Rúm og tími máist út. Hverfur. Algeimurinn opnast fyrir sjónum hans. Lífið er eigi lengur háð lögmáli jarðneskrar tilveru. Árin eru augnablik. Öll æfi hans, árin liðnu, eru óslitin sólbjört braut, sem rennur inn í gullbrúna framundan um þvert hafið. »Ég næ þér aftur í kvöld, Gráni minn! Ég næ þér aftur!« Og Ásgeir ungi brosir út yfir kvöldblátt hafið. »Langfonn« legst alveg yfir á bak- borða, um leið og hún sekkur. öldustokk- nrinn sker yfirborðið í allri sinni lengd. Sjórinn nemur staðar sem snöggvast. Liggur eins og silfurblár, stríður streng- ur eftir endilöngum öldustokknum. Augnabliks eilífð. — Ásgeir ungi horfir á þetta með undrun og aðdáun. Svo brestur strengurinn. Sjórinn steypist eins og foss inn yfir þilfarið. Undir skip- inu opnast ógurlegur botnlaus hver, sem sjórinn steypist niður í á alla vegu, tæt- ir sundur allt lauslegt og þyrlar því sam- an í hamslausa hringiðu. »Langfonn« sekkur eins og steinn, en um leið verður geysimikil sprenging á ný. Hrikafagur vatnsstrókur þeytist gríðarhátt í loft upp tvístrast í allar áttir og fellur í hrynjandi gullflóði niður yfir hvæsandi og sogandi hverinn, sem smá fyllist. Kyrrist. Og marglit olíubrá breiðist út yfir sléttan sjóinn. Kafbáturinn gægist úr djúpi. Turn- hlemminum er lyft af. Ungur foringi stingur upp höfði og litast um. Hann lætur sjónaukann hvarfla og lítur yfir allt sem hann hafði gert. — Og sjá, það var harla gott! — Hér var ekkert frek- ar að hafast að. — í suðvestri þyrlast þykkir reykjarmekkir upp úr þremur reykháfum, sem nálgast hraðfari. Kaf- bátsturninn sígur rólega og hverfur. — Norðursjórinn er óslitinn blikandi spegill á ný. Björn Bergss unni sér ekki hvíldar daga né nætur. Hann gat ekki trúað því, að bros Ásgeirs unga væri slokknað. Horfið úr heiminum. Hann símaði því og skrifaði í allar áttir. Hafði bréfa- skipti við norska ræðismenn í öllum norðursjávarhöfnum. Þaul-las dánar- skýrslur og eftirlýsingar um týnda sjó- menn og horfna. Hafði tal af öllum skip- stjórum, sem um Norðursjó fóru, og hann náði til. I þrjá mánuði fulla hélt hann dauðahaldi í vonina. Hann gat ekki sleppt henni. — Einn desembermorgun snemma sat hann og skrifaði fátækri ekkju og barn- lausri norður á fslandi. Hann var þreytt- ur eftir nóttina. Dagurinn rann dapur og ömurlegur. Þykkt í lofti og drunga- legt. Grátt og kalt, hvert sem litið var. Hvergi var sólbros í vændum. Það var eins og gleðin væri þurrkuð út úr heim- inum. Björn Bergss reis á fætur, lokaði bréf- inu, frímerkti það og vó það í hendi sér. -— En hve svona lítil pappírsörk gat ver- ið þung! — »Sorgirnar þungar sem blý«, ómaði eins og dauft bergmál einhver- staðar djúpt í huga hans. — Bros Ásgeirs unga var slokknað!

x

Nýjar kvöldvökur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Nýjar kvöldvökur
https://timarit.is/publication/511

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.