Nýjar kvöldvökur - 01.10.1934, Side 8
150
NÝJAR KVÖLDVÖKUR
úr tösku sinni og vösum heilmarga
pakka og pinkla. úr töskunni dró hapn
upp pottflösku meö rjóma og setti hana
gætilega í hornið undir borðinu. Því-
næst dró hann upp fimm stór vínar-
brauð úr hægri jakkavasa sínum, og úr
þeim vinstri stóran poka með smurðu
brauði með ýmsu góðgæti ofan á. Við
þetta bættist svo poki með bjúgaldinum,
nokkur epli, vindlingapakki, og að lok-
um heljarmikil munnharpa, tvöföld. Þá
var affermingunni lokið. — Svo raðaði
hann öllu vendilega í skrifborðsskúffuna,
tók upp hraðritunarblokkir sínar og
yddi þrjá blýanta.
»Tilbúinn!«
Bjöm Bergss stóð upp og tók af sér
klafann. Svo gaf hann hraðritaranum
nauðsynlegar fyrirskipanir og fylgdi síð-
an Ásgeiri inn á skrifstofu sína, settist
niður og skrifaði stundarkorn, en talaði
samt við Ásgeir á meðan.
»Jæja, lasm’. Hvernig er lífið á litinn
núna?«
»0 — það er alveg himinblátt!« svar-
aði Ásgeir og hló við. »Við förum áleið-
is til Gautaborgar á morgun til að sækja
»Júpíter«. Og ég fékk 100 krónur fyrir-
fram! — Ég hélt ekki að þeir þyrðu«.
»Ég bað Sólemndal skrifstofustjóra
um það. Ég hélt, að þú kynnir að þurfa
þess með«.
»Já, þakka þér kærlega fyrir! Það var
inndælt!«
»Heyrðu, Ásgeir. Raulaðu nú einu sinni
enn »Sjá roðann á hnjúkunum háu«, en
lágt, svo þú truflir mig ekki. Mig lang-
ar til að læra lagið, áður en þú ferð. —
Það er ekki víst, hvenær við hittumst
aftur. — Það eru svo margar tafir og
torfærur nú á tímum«.
»0, blessaður vertu! Við komum hing-
að aftur á sunnudag og leggjum af stað
í fyrstu Englandsferðina kl. 10 á mánu-
dagskvöldið. Það er þó ekki vist, að ég
fái tíma til að hitta þig, fyrr en við
komum aftur frá Englandi. En svo hitti
ég þig vikulega eftir það. »Við liggjum
hér alltaf 2—3 daga milli ferða«.
»Well. — Raulaðu nú lagið hægt og
greinilega!«
Ásgeir hafði mjög laglega söngrödd.
Dökkan og blæþýðan baryton. Hann var'
söngvinn og söngelskur mjög. — Hafði
yndi af að syngja — eins og flestir land-
ar erlendis, því — þá brúar söngurinn
hugarheimana til hvítra fjalla — um
bláa geimana.
Björn Bergss blístraði lagið lágt með
söngnum, en kepptist þó við að skrifa.
Tvær setjaravélar bruddu handritin í
næstu stofu, eins og fjósamaður munntó-
bak -— og máttu aldrei japla tómum
munni, því prentaralaunin voru 50 pct.
hærri fyrir næturvinnu.
»Þakka þér fyrir! Nú kann ég lagið.
Og nú verðum við að fá okkur kaffisopa
að skilnaði. En þú verður að drekka það
hérna, því ég má ekki sleppa blýantin-
um hérna megin miðnættis. Ég skal
smeygja smágrein um »Júpíter« — og
þig inn í bæjarfréttirnar í fyrramálið!
Nú hringi ég eftir kaffi«.
»Halló! — Kaffistofa, Torginu nr. 1.
— Já, »Dagblaðið« hérna. Sendið mér í
hvellinum kaffi handa tveimur og eitt-
hvað gott með því! •— Já, .— nýjar
rjómavöfflur og jarðeplakökur með nýju
smjöri? Ágætt! Fyrirtak! Þér eruð sann-
arleg perla, fröken Rein! — Já, eins-
konar kvöldverður. Þökk, fröken Rein.
Þökk!
Þetta kemur strax, Ásgeir. Dragðu nú
lausaborðið þarna hingað að skrifborð-
inu og breiddu á það eina af stóru papp-
írsörkunum þarna! Láttu nú sjá, að þú
berir nafn með rentu: Waiter, first
class! — Annars máttu vel raula lagið
einu sinni enn, meðan kaffið er að
koma!« —