Ægir - 01.11.1983, Blaðsíða 61
SKIPSTAPAR OG SLYSFARIR
Bakkavík ÁR100 fórst -
tveir bræður týndu lífi
Þann 7. september s.l. um kl. 1315, fékk vélbát-
urinn „Bakkavík" ÁR-100 á sig brotsjó rétt utan við
sundið sem markar innsiglinguna til Eyrarbakka.
Reis brotið upp hjá skerinu Brynka og fór báturinn
fyrst á hliðina, en þegar annar brotsjór fylgdi rétt á
eftir, fór hann á hvolf og var sokkinn innan 15 mín-
útna, eða þ.u.b. Á „Bakkavíkinni" voru þrír bræður.
Þegar bátnum hvolfdi, komust þeir allir um borð í
gúmmíbjörgunarbát. Tókst þeim bræðrum að skjóta
ú loft neyðarblysum frá björgunarbátnum sem velkt-
>st til í brimgarðinum, vestur með landinu. Ekki leið
þó á löngu þar til brotsjór reið yfir björgunarbátinn og
skolaði þá tveimur þeirra bræðra fyrir borð og sáust
þeir ekki meir. Þeim þeirra, sem eftir var, tókst að
hanga á bátnum þar til honum var bjargað, en þá
hafði liðið um klukkustund frá því að slysið varð.
Sjónarvottar voru að sjálfu slysinu úr landi, en
aðstæður allar hinar erfiðustu og því tók þann tíma er
að ofan greinir að bjarga þeim er af komst.
Maðurinn sem bjargaðist heitir Vigfús Markússon,
og þykir hann hafa sýnt mikla hreysti í þessum mann-
raunum. Stöðugt braut yfir gúmmíbjörgunarbátinn
meðan á hrakningunum stóð, en þakið á honum hafði
að mestu rifnað af við brotið sem hreif bræður hans
með sér.
Þeir sem fórust með „Bakkavík“ voru:
Þórður Markússon, skipstjóri, fæddur 29. nóv.
1953.
Sigfús Markússon, vélstjóri, fæddur 2. ágúst 1958,
báðir til heimilis að Ásgarði, Eyrarbakka.
„Bakkavík" ÁR-100 var byggður í Neskaupstað
1971 og var trébátur. Eigandi var Þórður heitinn
Markússon, skipstjóri.
í gegnum tíðina hafa sjóslys verið tiltölulega tíð á
þeim slóðum sem „Bakkavík“ fórst. Menn mundu
því ætla, að það hljóti að vera betri lausn að hefja
byggingu á brú yfir Ölfusárósa, en fórna fleiri manns-
lífum í stórhættulegum innsiglingum, morandi í
skerjum, þar sem sjó brýtur ef eitthvað er að veðri, og
liggja að hafnleysum þeim fyrir opnu hafi sem notast
er yið á Eyrarbakka og Stokkseyri. Brúarsmíðar hafa
verið framkvæmdar af minna tilefni og gagni áður á
íslandi. Eitthvað hlýtur einnig að sparast á móti við
að leggja niður hafnarmannvirkin sem þarna eru og
sækja í staðinn sjó frá Þorlákshöfn.
B.H.
ÆGIR-621