Tímarit lögfræðinga - 01.06.1989, Side 54
er einnig á það að líta, að ákvæðið í 29. gr. 1. 56/1978 á sér hliðstæðu
og fyrirmynd í dönskum lögum um „markedsforing" frá 1974, en at-
hyglisvert er, að þarlendir fræðimenn hafa talið, að einkaréttarlegar
lögfylgjur tengjist ekki því ákvæði, þ.e. að því verði ekki beitt sem
ógildingarheimild (þar eigi þá t.d. við 36. gr. samningalaganna). Laga-
ákvæðið hafi, með öðrum orðum, einungis gildi að opinberum rétti.
Ekki virðist óeðlilegt að þetta sé a.m.k. haft til einhverrar hliðsjónar
við skýringu íslenska ákvæðisins.
Héraðsdómarinn í máli því, sem hér er til umræðu, tók að vísu þá
afstöðu, að ákvæðið í 29. gr. hefði einkaréttarlegt gildi, en taldi, svo
sem fyrr segir, eðlilegt að beita þrengjandi skýringu og takmarka
ákvæðið við ábyrgðartímann. Hæstiréttur hafnaði hins vegar þessum
skýringarkosti og beitti ákvæðinu hiklaust um það ákvæði ábyrgðar-
skilmálanna, sem fjallaði um flutningskostnað. Er í sjálfu sér þakkar-
vert að svo afdráttarlaus niðurstaða hafi fengist í því efni, en dóm-
urinn svarar þó ekki öllum spurningum, sem efnið varða, og vekur
raunar aðrar. Svo virðist sem dómendurnir hafi þegar nokkurn fyrir-
vara um víðtæki ákvæðisins í 29. gr., þegar þeir sjá ástæðu til að
segja: „orðalag þessa ákvæðis gefur ekki tilefni til verulegs vafa
í máli því, sem hér er til úrlausnar.“ Gæti þetta bent til þess, að þeir
hafi verið í einhverjum vafa um túlkun ákvæðisins að öðru leyti, og
tvímælalaust er, enn sem fyrr, full ástæða til að líta á 29. gr. sem
undantekningarákvæði, sem verði að „umgangst" með fullri varúð.
Eftir að víðtæk ógildingarheimild var lögtekin í nýrri 36. gr. samn-
ingalaga, vorið 1986, sýnist raunar mun eðlilegra að nota hana til
ógildingar samningsákvæða heldur en 29. gr. verðlagslaganna, hlið-
stætt því sem viðurkennt er í danskri lögfræði. Á það er hins vegar
að líta, að ákvæðið nýja í 36. gr. samningalaga kom ekki til sögunnar
fyrr en tæpum tveim og hálfu ári eftir að kaup þau gerðust, sem um-
rætt dómsmál fjallaði um. Engu að síður lætur Hæstiréttur ekki hjá
líða að vitna til þessa síðastnefnda ákvæðis, en þó með næsta óvenju-
legum hætti, þegar hann segir: „Ákvæði 29. gr. laga nr. 56/1978 er í
samræmi við almenn viðhorf um lagavernd kaupanda og neytenda-
vernd, svo og það viðhorf, sem markar samningsrétt hér á landi eftir
breytingu þá á lögum nr. 7/1936 urn samningsgerð, umboð og ógilda
löggerninga, sem gerð var með 6. gr. laga nr. 11/1986.“ Vísun með þess-
um hætti til óljósrar löggjafarstefnu eða „almennra viðhorfa“ og laga-
ákvæðis, sem kom til sögunnar löngu eftir að þeir atburðir gerðust,
sem mál þetta snýst um, er sjaldgæf í íslenskum dómum, og þótt víðar
væri leitað.
132