Tímarit lögfræðinga - 01.05.1998, Blaðsíða 62
kenning reglnanna stríða gegn eðli EES-samningsins og uppbyggingu hans.59
Að þessu leyti felur EB-réttur í sér ríkari réttarvernd til handa einstaklingum en
leidd verður af EES-samningnum en eins og fram hefur komið gegna þessar
tvær reglur mikilvægu hlutverki í því sambandi. Sú staðreynd að EFTA-ríkin
ætluðu ekki að framselja löggjafarvald til stofnana EES kemur hins vegar ekki
í veg fyrir það að regla um skaðabótaskyldu aðildarríkis geti falist í EES-samn-
ingnum.
4. SKAÐABÓTASKYLDA AÐILDARRÍKJA - EINNIG MEGINREGLA
AÐ EES-RÉTTI?
Hér að framan hefur verið leitast við að sýna fram á það að EES-samning-
urinn sé þjóðréttarsamningur sem nýtur sérstöðu m.a. vegna hinna háleitu
markmiða sem samningsaðilarnir hafa sett sér og þeirra leiða sem orðið hafa
59 Fræðimenn eru ekki allir sammála þessari skoðun. Walter van Gerven hefur gengið lengst
fram f því að halda fram beinum réttaráhrifum og forgangsáhrifum að EES-rétti, sjá bls. 33-56.
Einnig má vísa til skrifa Leif Sevón, bls. 339-354. Davíð Þór Björgvinsson hafnar beinum
réttaráhrifum og forgangsáhrifum en færir hins vegar rök fyrir því að veita beri EES-reglum sem
ekki hafa verið lögleiddar í landsrétt samkvæmt því sem 7. gr. EES-samningsins mælir fyrir um
réttaráhrif þannig að jafna megi að nokkru til beinna réttaráhrifa eins og það hugtak er notað í EB-
rétti, sjá bls. 144-150 og 160-164. Henrik Bull telur að þar sem EES-samningurinn er ekki
yfirþjóðlegur til jafns við EB-rétt sé ekki hægt að heimfæra reglumar um bein réttaráhrif og
forgangsáhrif yfir í EES-rétt, sjá bls. 595 og 599. Þá er Fredrik Sejersted þeirrar skoðunar að
meginreglan sé skýr: „Ikke-gjennomf0rte forordninger og direktiver kan ekki ha „direkte virkning“
i norsk rett, i den forstand at den kan utledes rettigheter og plikter fra dem som norske borgere kan
piberope for nasjonale domstoler", sjá bls. 144. Sömu skoðunar er Stefán Már Stefánsson, sjá bls.
38-39. Spuming er hvort EFTA-dómstóllinn hafi í Re.stamark-má\inu með óbeinum hætti komist að
þeirri niðurstöðu að bein réttaráhrif í skilningi EB-réttar ættu ekki við að EES-rétti. Málið varðaði
áfengiseinkasölu í Finnlandi. Áfrýjunamefnd tollyfirvalda leitaði ráðgefandi álits EFTA-dómstóls-
ins og spurði m.a. þeirrar spurningar hvort ákvæði 16. gr. EES-samningsins væri nægilega skýrt og
óskilyrt til að hafa bein réttaráhrif. Án þess að svara spumingunni vék EFTA-dómstóllinn að því
hvort ákvæðið væri nægilega skýrt og óskilyrt til að falla undir bókun 35 við EES-samninginn. í
dóminum er það rakið að ákvæði 16. gr. sé efnislega sambærilegt við 1. mgr. 37. gr. Rómarsátt-
málans sem viðurkennt er að hefur bein réttaráhrif innan EB-réttar. Með hliðsjón af því markmiði
EES-samningsins að tryggja einsleitni og sömu réttarstöðu einstaklinga á öllu efnahagssvæðinu var
talið að einnig yrði að skýra 16. gr. svo að hún uppfyllti skilyrðið um að vera nægilega skýr og
óskilyrt. í 3. lið í ráðgefandi áliti dómsins segir svo: „Skýra verður 16. gr. þannig, að hún uppfylli
það skilyrði, sem felst í bókun 35 við EES-samninginn, um að vera nægilega skýr og óskilyrt". (Sjá
EES-viðbæti við Stjórnartíðindi EB nr. 59, 31. desember 1994 [94/EES/59/15].) Ef EFTA-dóm-
stóllinn lítur svo á að réttarreglur EES geti haft bein réttaráhrif hefði verið rétt að láta það fram
koma (Restamark-málinu. Dómstóllinn gerði það á hinn bóginn ekki og er því freistandi að draga
þá ályktun að bein réttaráhrif eigi ekki við t' þeim skilningi sem hér um ræðir. Vincent Kronen-
berger kemst að annarri niðurstöðu og skýrir dóminn á þann veg að með honum hafi EFTA-
dómstóllinn viðurkennt bein réttaráhrif EES-reglna sem uppfylla ákveðin skilyrði, sjábls. 209-212.
Sjá reifun Restamark-málsins og umfjöllun hjá Davíð Þór Björgvinssyni og Dóru Guðmunds-
dóttur: „Starfsemi EFTA-dómstólsins“. (1996) 46 TL, 4. hefti, bls. 149-156. Það skal að lokum
tekið fram að enda þótt beinum réttaráhrifum og forgangsáhrifum sé hafnað er að sjálfsögðu hægt
að veita EES-samningnum aukið vægi með réttarreglum innanlands, t.d. eins og gert er í ríkjum þar
sem þjóðréttarsamningar verða sjálfkrafa hluti af landsrétti og hafa þar forgang. Slík áhrif eiga þá
rætur sínar annars staðar en í EES-samningnum.
146