Tímarit lögfræðinga - 01.06.2004, Blaðsíða 22
með hliðsjón af því að fella þessa hluti saman og því hlutverki sem aðalhlut er
ætlað að gegna. Þannig verða hjólbarðar bifreiðar t.d. að vera af réttri stærð
fyrir felgurnar og fullnægja þeim öryggiskröfum sem gerðar eru til bifreiðar-
innar.21 Sjá til athugunar um þau sjónarmið sem hér voru nefnd dóm Hæsta-
réttar frá 19. september 2002 í málinu nr. 102/2002 (vörubifreið). Þar var talið
að gera hefði mátt þá kröfu til seljanda vörubifreiðar, sem hafði atvinnu sína af
því að selja vörubifreiðir og gámabifreiðir, að hann kannaði rækilega hvort
forsendur kaupanda um útbúnað bifreiðarinnar og verð stæðust, en hins vegar
hafi hann látið það sig einu gilda. Ofullnægjandi upplýsingar af hálfu seljanda
hafi leitt til þess að kaupandinn hafi gengið til kaupanna í trausti þess að
kostnaður við að breyta bifreiðinni væri mun minni en raun varð á. Var fallist á
það með kaupanda að ósanngjarnt væri af seljanda að bera samninginn fyrir sig
og honum yrði því vikið til hliðar í heild með stoð í 36. gr. samningalaga.
I sumum tilvikum hefur kaupandinn mesta sérþekkingu til að bera þegar
metið er hvaða eiginleika söluhlutur skal hafa svo að tilgangi kaupanna verði
náð. Birtist það þá gjarnan þannig gagnvart seljanda að kaupandinn treystir ekki
á sérþekkingu hans. I slíkum tilvikum er lítil sanngimi í því að seljandinn beri
ábyrgð á því að ekki hefur náðst hinn sérstaki tilgangur með kaupunum þótt
honum hafi mátt vera um það kunnugt. Því er gerð undantekning varðandi þau
tilvik þar sem atvik bera það með sér að kaupandinn hefur ekki, hvað hinn
sérstaka tilgang varðar, byggt á sérþekkingu seljanda eða mati hans eða hafði
ekki sanngjama ástæðu til þess. Undantekning þessi á t.d. við þegar kaupandi
hefur lagt fram nákvæma, tæknilega sundurliðun á eiginleikum söluhlutar. Ef
hluturinn er gæddur þessum eiginleikum getur kaupandinn ekki borið það fyrir
sig gagnvart seljanda að hann geti ekki notað hlutinn.22
2.2.4 Söluhlutur hafi sömu eiginleika og prufur og líkön
Söluhlutur verður að hafa þá eiginleika til að bera sem seljandi hans hefur
vísað til með því að leggja fram prufu eða líkan, sbr. c-lið 2. mgr. 17. gr. kpl.
Samhljóða ákvæði er í d-lið 2. mgr. 15. gr. nkpl. Einungis pmfur og líkön sem
seljandinn hefur lagt fram hafa þýðingu í þessu sambandi. Þá á áskilnaður
greinarinnar einungis við um þá eiginleika sem seljandinn hefur vísað til með
því að leggja fram prufur eða líkön. Akvæðið fjallar því ekki um þýðingu þess
að kaupandi hefur lagt fram prufur eða líkön. Samningur getur eigi að síður
borið það með sér að hlutur skuli vera í samræmi við þá eiginleika sem fram-
lagðar prufur og líkön kaupanda hafa til að bera. I framkvæmd kemur stundum
fyrir að eiginleikar vörunnar eiga að fullnægja mati sérfróðra eftirlitsmanna eða
annarra slíkra. Þessi tilvik falla ekki beint undir ákvæði c-liðar en geta eftir
atvikum fallið undir 1. mgr. 17. gr. kpl.23
21 Alþt. 1999-2000, A-deild, bls. 835, og Alþt. 2002-2003, A-deild, bls. 3802.
22 Alþt. 1999-2000, A-deild, bls. 835, og Alþt. 2002-2003, A-deild, bls. 3802.
23 Alþt. 1999-2000, A-deild, bls. 835, og Alþt. 2002-2003, A-deild, bls. 3802-3803.
206