Tímarit lögfræðinga - 01.06.2004, Blaðsíða 62
Til viðbótar framangreindum tillögum umhverfisráðherra lagði meiri hluti
umhverfisnefndar til svohljóðandi breytingu á efni 27. gr. laga nr. 73/1997:
A eftir 3. gr. frumvarpsins komi ný grein er orðist svo:
Eftirfarandi breytingar verða á 27. gr. laganna:
a. 1. málsl. 1. mgr. orðast svo: Meiri háttar framkvæmdir, sem áhrif hafa á um-
hverfið og breyta ásýnd þess, svo sem breyting lands með jarðvegi eða efnistöku,
skulu vera í samræmi við skipulagsáætlanir og úrskurð um mat á umhverfisáhrifum
þar sem það á við.
b. Við greinina bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
Ráðherra skal kveða nánar á um útgáfu framkvæmdaleyfa í reglugerð.
Landgræðslu- og skógræktaráætlanir skulu vera í samræmi við skipulagsáætlanir og
mat á umhverfisáhrifum þar sem það á við.16
í nefndaráliti meiri hluta umhverfisnefndar Alþingis var þessi breytingar-
tillaga skýrð svo:
I öðru lagi eru lagðar til breytingar á 27. gr. laganna um framkvæmdaleyfi. Lúta þær
annars vegar að því að lagt er til að ákvæðið nái aðeins til meiri háttar framkvæmda
sem hafa áhrif á umhverfið og breyta ásýnd þess, en ekki allra framkvæmda sem
hafa áhrif á umhverfið. Hins vegar er lagt til að felld verði úr ákvæðinu vísun í
skógrækt og landgræðslu og verði ákvæðinu einkum ætlað að ná til breytinga á landi
með t.d. jarðvegi eða efnistöku. Loks er lagt til að nýrri málsgrein verði bætt við
ákvæðið þess efnis að landgræðslu- og skógræktaráætlanir skuli vera í samræmi við
skipulagsáætlanir.17
Þeir þingmenn sem skipuðu meiri hlutann voru ekki á eitt sáttir um hvernig
skýra átti þessa breytingu sem lögð var til á 27. gr. skipulags- og byggingar-
laga.18 Þannig var helst að skilja á sumum þingmönnum að landgræðslu- og
skógræktaráætlanir væru aldrei háðar framkvæmdaleyfi.19 Aðrir töldu að fæli
landgræðslu- og skógræktaráætlun í sér meiri háttar framkvæmd væri hún háð
leyfi samkvæmt 27. gr.20 Enn aðrir töldu að aðeins í því tilviki þegar skylt væri
að láta fara fram umhverfismat á landgræðslu- og skógræktaráætlun væri fram-
kvæmdin háð framkvæmdaleyfi.21 Breytingartillaga meiri hlutans var sam-
þykkt án þess að útkljáð væri hvernig skilja bæri tillögu hans. Þær breytingar-
tillögur, sem hér að framan var gerð grein fyrir, voru allar samþykktar og urðu
að lögum nr. 135/1997 um breyting á skipulags- og byggingarlögum nr.
73/1997.
16 Alþt. 1997-1998, A-deild, bls. 2355.
17 Alþt. 1997-1998, A-deild. bls. 2354.
18 Alþt. 1997-1998. B-deild, dálk. 2159.
19 Alþt. 1997-1998. B-deild, dálk. 2155.
20 Alþt. 1997-1998. B-deild, dálk. 2151.
21 Alþt. 1997-1998, B-deild, dálk. 2167-2168.
246