Árbók Háskóla Íslands - 01.01.1957, Blaðsíða 164
162
þykkt tillaga frá meiri hluta ráðsins, um að Stúdentaráð byði Stúd-
entafélagi Reykjavíkur og Félagi íslenzkra rithöfunda að gangast
fyrir sameiginlegum fundi þessara þriggja aðila um atburði þá, sem
gerzt hefðu í Ungverjalandi.
Fundur þessi var síðan haldinn í Gamla Bíói hinn 4. nóv. Var hann
geysifjölmennur, svo sem vænta mátti, og var ræðumönnum tekið
fádæma vel, en þeir voru: Sigurður Líndal stud. jur., Þóroddur Guð-
mundsson rithöfundur, Guðmundur G. Hagalín rithöfundur og Tómas
Guðmundsson skáld. Fundarstjóri var dr. Alexander Jóhannesson
prófessor.
í fundarlok var borin upp og samþykkt ályktun, þar sem lýst er
eindreginni samúð með Ungverjum í frelsisbaráttu þeirra og harð-
lega fordæmd vopnuð íhlutun Sovétríkjanna í mál Ungverja. Þá lýsti
fundurinn yfir óskiptri samúð sinni með öllum þeim þjóðum, sem
úthella þurfa blóði sínu í baráttu fyrir frelsi og mannréttindum.
Fundarstjóri lýsti því næst yfir því, að formenn þeirra samtaka,
er að fundinum stæðu, myndu að honum loknum ganga á fund rúss-
neska sendiherrans og flytja honum ályktunina. Fundarmenn kváð-
ust þá allir mundu slást með í förina.
Var síðan gengið undir íslenzka og ungverska fánanum svo sem
leið liggur að bústað sendiherrans. Fjöldi vegfarenda slóst með í hóp
fundarmanna, og varð gangan að lokum afar fjölmenn og tvímæla-
laust mesta mótmælaganga, sem farin hefur verið hér á landi.
Er þremenningarnir knúðu dyra í bústað sendiherrans, gegndi
enginn, og þegar svo hafði staðið um hríð, var ályktuninni stungið
í bréfahólf bústaðarins. Mannfjöldinn hrópaði „Lengi lifi frjálst Ung-
verjaland“ og hvarf því næst á burt.
Atburður þessi fór mjög friðsamlega fram.
Blóögjafir.
Á fundi Stúdentaráðs hinn 1. nóv. var einnig samþykkt tillaga frá
þeim Grétari Ólafssyni og Einari Baldvinssyni, um að ráðið gengist
fyrir því, að íslenzkir stúdentar gæfu ungverskum stúdentum blóð.
Undirtektir stúdenta urðu mjög góðar og söfnuðust á þennan hátt
rúmlega fimmtíu flöskur af blóði. Rauði kross íslands sá um send-
ingu blóðsins utan, og mun það hafa komið í tæka tíð.
Fjárframlag.
Á fyrrnefndum fundi Stúdentaráðs var einnig samþykkt, að ráðið
gæfi nokkra fjárupphæð í Ungverjalandssöfnun RKÍ. Þess má einnig
geta, að á fundinum í Gamla Bíói söfnuðust rúmar tíu þúsund krón-
ur í sama sjóð.