Morgunblaðið - 01.12.2008, Qupperneq 25
Umræðan 25
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 1. DESEMBER 2008
ATBURÐIR síðustu vikna á Íslandi hafa eðlilega valdið miklu umróti
í samfélaginu. Fólk veit varla sitt rjúkandi ráð og til að bæta gráu ofan
á svart fær almenningur vægast sagt afar misjafnar upplýsingar um það
ástand sem skapast hefur og framundan er. Hvað svo sem um íslensk
stjórnvöld má segja er þó tvímælalaust hægt að fullyrða að þau hafa illi-
lega brugðist í upphafi þeirrar kreppu sem nú er illu heilli hafin á Ís-
landi og er að mestum hluta heimatilbúin. Stjórnvöld hafa sýnt ótrúleg-
an hroka, logið að almenningi og gefið misvísandi yfirlýsingar á sama
tíma og þau ættu að sýna ábyrgð og samstöðu með þjóðinni og grípa til
aðgerða sem duga til að draga úr áhrifum kreppunnar.
Hér ætla ég ekki að rekja þá raunasögu sem valdið hefur því ástandi
sem nú blasir við. Raunar nægir aðeins að nefna örfá dæmi:
Ekki alls fyrir löngu leiddi Sjálfstæðisflokkurinn nýfrjálshyggjuna til
vegs og virðingar á Íslandi. Þá hófst hér óheft og vægðarlaus mark-
aðshyggja og hin illræmda einkavinavæðing. Bankarnir voru teknir
af þjóðinni og gefnir útvöldum gæðingum og sama gilti um ýmis fyr-
irtæki í eigu almennings í landinu svo sem Símann.
Íslensk stjórnvöld fóru ekkert eftir viðvörunarorðum þeirra sem
höfðu þekkingu og kunnáttu til að sjá að íslenska „efnahagsundrið“
gæti ekki staðist til lengdar og hlyti að hrynja með ómældum fórn-
arkostnaði. Allir þeir sem reyndu aftur og aftur að vara við voru
flokkaðir sem nöldrarar og sagðir vera á móti framþróuninni.
Fjármálakerfi íslenska ríkisins var sett í hendur flokksgæðingum
sem skorti kunnáttu og þekkingu til að stjórna.
Þannig mætti áfram telja og sýna fram á hvernig gerðir íslenskra
stjórnvalda hafa smám saman orðið til þess að skapa það ástand sem
nú ríkir í landinu.
Það að missa atvinnu sína, geta ekki staðið við fjárhagslegar
skuldbindingar og missa húsnæði sitt er eitt það versta sem fyrir
nokkurn mann getur komið. Það ástand skapar mörg alvarleg og
jafnvel óyfirstíganleg vandamál. Því er í raun ekki að undra þótt fólk
sé reitt um þessar mundir og enn reiðara verður fólk þegar stjórn-
völd sýna tómlæti, hroka og lygar eins og nú hefur gerst.
Við þær aðstæður sem hér hafa verið gerðar að umtalsefni verður
hver og einn að meta viðbrögð sín. Það getur enginn krafist þess að
þessi eða hinn eigi bara að vera jákvæður og þá muni allt lagast. Eða
hvað? Er kannski ein leið út úr vandanum sú að vera jákvæður og
taka að fullu þátt í allsherjar endurreisn, rífa sig upp úr kreppunni
og endurvinna orðstír Íslands sem um þessar mundir er nánast eng-
inn? Já, auðvitað er það ein leiðin og örugglega sú sem borið getur
árangur. En eigi hún að vera fær þarf að skapa skilyrði til þess að
jákvæðni fái dafnað og geti borið ávöxt. Þar þarf að vanda til verka
og þar þarf að stíga skynsamleg skref. Til þess að skapa jákvæð við-
horf til endurreisnar þarf meðal annars að ganga út frá þessum
grunnforsendum:
Að öllum nýfrjálshyggjuhugmyndum verði endanlega kastað fyrir
róða. Þær hafa þegar skaðað íslenskan almenning nóg og meira en
það.
Að eignir þjóðarinnar verði ekki miskunnarlaust gefnar útvöldum
gæðingum sem nota þær til eigin hagnaðar en til skaða fyrir þjóðina.
Að grunnstoðir samfélagsins, svo sem velferðarkerfið, verði efldar
til öryggis og hagsbóta fyrir almenning og einkavinavæðing þeirra
stoða komi þar hvergi við sögu.
Að heimili og atvinnulíf verði ekki gerð gjaldþrota í því ástandi sem
nú ríkir.
Að boðað verði til kosninga svo þjóðin fái að fella sinn dóm um það
sem gerst hefur og með hvaða hætti hún telur framtíðinni best borg-
ið.
Ég er þess fullviss að ef farið verður af stað með þessi og önnur
áþekk og jákvæð markmið í farteskinu mun íslenska þjóðin á undra-
skömmum tíma ná áttum og byggja réttlátara þjóðfélag en það sem
nú er okkur flestum svo mikil byrði.
Við getum
Ragnar Óskarsson, kennari og fyrrverandi
bæjarfulltrúi í Vestmannaeyjum.
ÞAÐ sem ríkisstjórnin á að ein-
beita sér að fram að jólum er að
taka til eftir sig og bjarga því sem
bjargað verður og koma upp neyð-
aráætlun fyrir fjölskyldur og fyr-
irtæki.
Sameining ríkisstofnana, breyt-
ing á stöðum og aðildarumsókn til
Evrópusambandsins bíður næstu
ríkisstjórnar.
Eftir áramót ættu stjórn-
málaflokkarnir að efna til próf-
kjara og boða til kosninga í vor.
Mín tillaga er sú að þeir sem hafa
áhuga á að komast á þing sendi inn
umsókn með upplýsingum um
menntun og starfsferil til flokk-
anna eða stofni nýjan flokk til að
auðvelda okkur kjósendum að velja
hæfasta fólkið í þetta skiptið.
Þjóðin
ætlar að
kjósa í vor
Elsa Jóhanna
Ólafsdóttir, Hvera-
fold 41, Reykjavík.
VIÐ lestur
skrifa sem birst
hafa um nýtil-
komna greiðslu-
jöfnunarvísitölu
vekur það
nokkra furðu
mína hversu litla
athygli þessi
vísitala hefur
fengið.
Þeir sem taka lán til íbúðakaupa
taka þau jafnan vegna þess að
íbúðarhúsnæði kostar meira en
fólk almennt hefur af peningum í
handraðanum og flestum er það
ljóst að lán kosta peninga í formi
vaxa og verðbóta. Vextir og verð-
bætur mynda síðan saman þann
fjármagnskostnað sem lántaki
þarf að standa undir.
Nú er það svo að verðbætur
hafa hækkað óheyrilega mikið, svo
mikið að fjöldi fólks á í erf-
iðleikum með þær greiðslur sem
til falla á hverjum gjalddaga.
Greiðslujöfnun er því kærkomin
leið fyrir þá sem eiga í erfiðleikum
með að láta enda ná saman og
jafngildir í raun viðbótarláni í
formi lánalengingar sem er nánast
sama formið og er á verðtrygg-
ingu lána. Í þessu tilviki þarf lán-
taki ekki að greiða lántökugjald
né stimpilgjald af þessari viðbót-
arlántöku. Bent hefur verið á að
greiðslujöfnun geti leitt til meiri
kostnaðar í formi vaxta (fjár-
magnskostnaðar) en hitt gleymist
að þetta getur leitt til léttari
greiðslubyrði sem um þessar
mundir getur skipt meira máli
fyrir greiðandann sem annars þarf
hugsanlega að taka á sig háa vexti
vegna yfirdráttar á bankareikningi
sem er jafnvel verri kostur.
Ég tel rétt að fólk sem er með
fjárhag sinn í járnum á annað
borð noti þessa leið til að tengja
saman greiðslubyrði lána sinna og
launakjör hverju sinni en horfi þá
frekar til þess að greiða aukalega
af lánum síðar ef fjárhagurinn
vænkast. Einnig er rétt að benda
á að hægt er segja sig frá
greiðslujöfnun hvenær sem er og
leggst þá uppsöfnuð jöfnun við
höfuðstól lánsins og dreifist yfir
það sem eftir er af lánstímanum.
Ásbjörn S. Þorleifsson
rekur bókhaldsþjónustu
og fjármálaráðgjöf.
Greiðslu-
byrði lána
og greiðslu -
jöfnunar-
vísitalan
ENGUM blöðum er um það að
fletta að yfir Ísland gengur nú
miklu meira en fjármálahrun. Í
kjölfarið fylgir efnahagskreppa
sem enginn getur sagt fyrir hve
djúptæk eða langæ muni verða.
Með hvaða ráðum hún verði
helst hamin og fjármálakerfi
landsins reist úr rústum hefur
verið rætt þindarlítið á opinber-
um vettvangi síðustu vikurnar. Miklu minna
hefur farið fyrir umræðu um það sem er líklega
alvarlegasti fylgifiskur fjármála- og efnahags-
kreppunnar en það er kreppa lýðræðisins í
þessu landi. Traustið, sem er líftaug lýðræð-
islegs skipulags, er augljóslega fokið út í veður
og vind. Það hlýtur að teljast höfuðverkefni í
íslenskum stjórnmálum næstu mánuði og ár að
endurreisa það traust. Ein meginforsenda slíkr-
ar endurreisnar hlýtur að vera að almenningur
verði þess var að þeir, sem hann hefur falið
gæslu fjár síns og hagsmuna, sæti ábyrgð gerða
sinna. Þetta tekur vitaskuld fyrst og fremst til
yfirstjórnenda „útrásarbankanna“ þriggja. Með
neyðarlögunum var bankastjórum þeirra vikið
til hliðar en um ábyrgðarhlut þeirra eða ann-
arra yfirstjórnenda í hruninu mikla hefur ekki
verið úrskurðað að öðru leyti.
Væntingar almennings undanfarnar vikur
hafa staðið til þess að yfirmenn opinberra fjár-
mála- og eftirlitsstofnana segðu einfaldlega af
sér en sómatilfinning þeirra sjálfra hefur a.m.k.
ekki enn leitt til þess. Þeir sitja sem fastast,
girða sig sumir af frá fréttamönnum og láta
með hátterni sínu eins og ekkert sé eðlilegra en
þeim verði falið að hafa eftirlit með endurreisn-
arstarfinu. Þetta ástand hefur sært gróflega
siðgæðisvitund almennings í landinu.
Eins og í pottinn er búið krefst hann ítarlegr-
ar rannsóknar óvilhallra og ótengdra aðila á
ábyrgðarhlut fjármálastofnana, sem hann hafði
falið ávöxtun sparifjár síns, opinberra stjórn-
sýslustofnana og stjórnvalda. Meðan slík rann-
sókn hefur ekki farið fram er tómt mál að tala
um endurheimt trausts. Við felum ekki brennu-
vörgunum að slökkva bálið! eins og nú er sagt.
Mestu varðar þó hvernig unnt verður að end-
urskapa það traust sem er forsenda þess að lýð-
ræðisskipulag okkar geti starfað með eðlilegum
hætti. Það varðar ekki svo mjög traust almenn-
ings á einstökum stjórnmálaflokkum heldur um
það sem kalla má eðlilega ábyrgðartilfinningu
stjórnmálamanna. Ekki fer hjá því að krafa al-
mennings um ábyrgð að þessu leyti beinist að-
allega að þeim stjórnmálamönnum sem hafa
undanfarinn hálfan annan áratug beitt sér fyrir
einkavæðingu íslenskra fjármálastofnana og að
því að móta þeim starfsumhverfi í anda ný-
frjálshyggju og alþjóðavæðingar.
Hér er augljóslega yfirgnæfandi ábyrgð-
arhlutur forystumanna tveggja stjórn-
málaflokka, þ.e. Sjálfstæðisflokks og Framsókn-
arflokks, þótt Samfylkingin hafi einnig komið
þar nokkuð við sögu. Lítum á nýlegt dæmi sem
boðar ekkert gott að þessu leyti: Í Kastljósi má-
nud. 17. nóv. sl. var Valgerður Sverrisdóttir,
nýbakaður formaður Framsóknarflokksins,
krafin af fréttamanni svars um ábyrgð hennar
sem þáverandi viðskiptaráðherra á einkavæð-
ingu bankanna. Valgerður vék sér undan en
vísaði til þess að ákvarðanir um einkavæðingu
hefðu verið teknar í takt við það sem gerðist
með öðrum þjóðum á Evrópska efnahagssvæð-
inu. Þetta dæmi minnir á að samfara aðild
landsins að slíkum fjölþjóðlegum samtökum
hefur krafan um ábyrgð stjórnmálamanna og
upplýsingu almennings færst í öldungis nýtt
samhengi. Á að líta svo á að slík aðild geri ís-
lenskan ráðherra óábyrgan sem stefnumótanda
í jafnþýðingarmiklu máli og einkavæðing bank-
anna var á sínum tíma?
Spurningar af þessum toga hafa fengið stór-
aukið vægi í ljósi síðustu og verstu atburða.
Það virðist nýtilkomið að íslenskir ráðamenn
hafi vaknað til vitundar um hvers konar skuld-
bindingar um ábyrgð ríkisins á innlánsreikn-
ingum íslenskra banka kynnu að fylgja aðild Ís-
lands að Evrópska efnahagssvæðinu – nefnilega
þær sem íslensk stjórnvöld hafa nú skrifað upp
á. Fyrst svo háttaði til um ráðamenn, hvað má
þá ætla um upplýsingu og vitund almennings?
Hvernig hugsa menn sér að unnt verði að af-
marka pólitíska ábyrgð og gæða lýðræðið
merkingu undir slíkum kringumstæðum? Þær
sýnast til þess eins fallnar að ýta undir póltíska
firringu, vanmáttarkennd og vonleysi.
Þetta leiðir hugann að því hve andstæð von-
inni um endurreisn pólitísks trausts og ábyrgð-
ar sú stefna er sem Samfylkingin knýr nú fast á
um, þ.e. að Ísland sæki hið fyrsta um aðild að
Evrópusambandinu. Að mínum dómi er ófor-
svaranlegt að ætla að taka jafnörlagaríka
ákvörðun við núverandi aðstæður þegar við
blasir eindregið vantraust almennings á ís-
lenskum stjórnvöldum og stofnunum. Eða
skyldi það vera uppbyggilegt fyrir tilfinningu
þjóðarinnar fyrir eigin getu og reisn í framtíð-
inni ef slík ákvörðun verður tekin þegar al-
menningur er niðurbeygður og með lakari
sjálfsvirðingu en dæmi munu finnast um í allri
sögu lýðveldisins?
Ábyrgð og traust í lýðræðiskreppu
Loftur Guttormsson, prófessor
emeritus við Háskóla Íslands.
GEGNUM aldirnar hafa skipst á góð og mögur ár.
Nú eru framundan hugsanlega tvö til þrjú mögur ár
hér á landi.
Sjaldan höfum við haft betri aðstöðu en í dag þegar
við tengjumst evrópska vinnumarkaðinum sem telur
um 500 milljónir manna í 27 löndum. ESS-aðild okkar
tryggir frjálsa för fólks til atvinnuþátttöku á þessum
stóra markaði sem er í þriggja til fjögurra tíma fjar-
lægð frá okkur.
Heildarfjöldi vinnandi fólks innan ES er um 220
millj. og því má áætla lauslega að 25-30 milljón störf losni árlega þegar
fólk lætur af störfum fyrir aldurs sakir eða þegar fólk skiptir um at-
vinnu.
Síðustu ár hefur erlent vinnuafl tekið þátt í uppbyggingunni hér á
landi og nú gefst okkur tækifæri til að taka þátt í uppbyggingunni hjá
öðrum þjóðum innan Evrópusambandsins og víðar.
Það þykir ekki tiltökumál að sjómenn séu allt að fimm til sex vikur í
veiðitúr til þess að draga björg í bú. Á sama hátt á það ekki að vera til-
tökumál að ungt og vel menntað fólk af öllum starfsstéttum nýti tækifær-
ið og sæki vinnu innan evrópska vinnumarkaðarins og víðar.
Ekki er nauðsynlegt að flytja með fjölskylduna í þessu skyni. Héðan
eru góðar flugferðir þannig að hægt er að fara héðan á sunnudagskvöldi
eða mánudagsmorgni og koma heim í vikulokin og vera með fjölskyld-
unni. Þetta er meiri samvera en sjómenn hafa löngum haft.
Með þessu aflast tekjur til þess að framfleyta fjölskyldunni og greiða
niður skuldir heimilisins. Miðað við núverandi gengi verða nær öll erlend
störf hálaunastörf.
Jafnrétti hefur verið til náms þannig að konur og karlar standa jafnt
að vígi að geta sótt vinnu erlendis.
Þess ber að geta að margir hafa haft þetta fyrirkomulag á und-
anförnum árum án þess að það þyki í frásögur færandi.
Haft hefur verið á orði að það væri einstaklega slæmt ef ungt fólk
flytti af landi brott. Það versta sem getur gerst er að ungt fólk sitji
heima atvinnulaust eða vinni á lækkuðum launum og með skertan vinnu-
tíma því að þannig dregur smám saman allan mátt og dug úr þessu frá-
bæra fólki.
Atvinnuþátttaka erlendis skapar þekkingu og reynslu sem getur síðan
nýst til þess að koma að nýjum málum til áframhaldandi uppbyggingar
hér á landi og því til hagsbóta fyrir alla.
Í öllum löndum eru margar ráðningarþjónustur sem eru stöðugt að
leita eftir starfsfólki, einnig eru fjölmörg dagblöð þar sem eru sérstakir
kálfar með atvinnuauglýsingum eins og við þekkjum hér á landi. Íslensk-
ar ráðningarþjónustur eru einnig í tengslum við erlendar ráðningarþjón-
ustur og geta því aðstoðað við að koma á tengslum auk þess sem Vinnu-
málastofnun vinnur ötullega að því að miðla upplýsingum um tækifæri
erlendis.
Þjóðin þarf á gjaldeyri að halda og því er atvinnuþátttaka á öðru mynt-
svæði besta framlagið til stuðnings samfélaginu til skamms tíma. Atvinnu
verður ekki að fá hér á landi fyrir alla þá sem hafa verið í störfum sem
verið er að leggja af. Breyting verður ekki á þessu fyrr en stöðugleiki
kemst á í kjölfar fullrar þátttöku okkar innan Evrópusambandsins.
Þeir sem telja sig ekki hafa tilskilda menntun til þess að sækja vinnu
erlendis eiga að nota tækifærið og bæta við sig menntun sem nýst getur
til framdráttar á sem stærstum markaði. Háskólinn á Bifröst, sem og aðr-
ir skólar, býður fólki að hefja nám um áramótin til undirbúnings há-
skólanámi og á öllum stigum háskólamenntunar.
Mikilvægt er að hver og einn meti stöðu sína og leiti sér ráðgjafar um
möguleg tækifæri því „þeir fiska sem róa“.
Við erum á 500 milljón
manna vinnumarkaði
Reynir Kristinsson starfar sem
deildarforseti viðskiptadeildar
Háskólans á Bifröst.