Morgunblaðið - 03.01.2009, Blaðsíða 29
29
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 3. JANÚAR 2009
Allt er leyfilegt í ást og stríði Sætur koss er veittur í hita augnabliksins. Álengdar bíður lögreglan þess sem verða vill.
Júlíus
Stefán Jóhann Hreiðarsson | 2. janúar
Fylgi við hvað?
Ríkisstjórnin virðist eitt-
hvað vera að hressast og
uppskera fyrir þrásetu
sín. Sjálfstæðisflokkurinn
eilítið stærri en síðast og
Samfylkingin eilítið minni.
Vinstri grænir tróna
áfram á toppnum.
Það er vandséð hvaða kostir eru best-
ir hvað varðar hugsanlegar breytingar.
Sjálfstæðisflokkurinn ber hug-
myndafræðilega og sögulega mesta
ábyrgð á því stjórnleysi, sem óprúttnir
bisness- og bankamenn nýttu sér til að
sækja auðfenginn gróða, og raddir frjáls-
hyggju eru alls ekki þagnaðar á þeim
bænum, þó að þær séu lágværari en áð-
ur. Vandræðagangur flokksins í Evrópu-
málunum er ekki sannfærandi. Samfylk-
ingunni hefur ekki tekist að skapa sér
sérstöðu eða trúverðugleika í stjórn-
arsamstarfinu, ef Evrópumálin eru und-
anskilin. Framsóknarflokkurinn og nú-
verandi formaður hans, svo og
fyrrverandi formaður Halldór Ásgríms-
son, voru virkir arkitektar í að teikna upp
kvótaránið og framsal ríkisbankanna.
Vinstri grænir er með sína
mótþróaþrjóskuröskun og Frjálslyndi
flokkurinn ótrúverðugur.
Sem sagt fátt um fína drætti. . . .
Meira: stefanhr.blog.is
Egill Jóhannsson | 2. janúar
Iðrun forsenda fyrirgefn-
ingar, forsendu trausts
Traust í íslensku sam-
félagi er í lágmarki í dag
og margir spyrja hvernig
það verði uppreist. Það
verður ekki fyrr en lyk-
ilstofnanir samfélagsins
sýna iðrun, einlæga iðrun. Iðrun er for-
senda fyrirgefningar þjóðarinnar sem er
forsenda þess að hægt sé að byrja að
byggja upp traust.
Stofnanir samfélagsins þurfa að iðr-
ast áður en þær byrja að byggja upp
traust. Í gær og fyrradag gerðu bæði for-
seti Íslands og forsætisráðherra tilraun
til iðrunar. Þeir máttu ganga lengra. Þeir
mega þó eiga það að þeir reyndu á með-
an aðrir forhertust. Forherðing er and-
heiti iðrunar. . . .
Þar sem ég telst vera hluti af við-
skiptalífinu þá mæli ég með að stofnanir
viðskiptalífsins, sem m.a. kröfðust þess
að fá frelsi til athafna, biðjist afsökunar á
því að meðlimir þessara stofnana nýttu
það frelsi án ábyrgðar.
Þegar fyrrgreindar lykilstofnanir hafa
sýnt gott fordæmi þá fylgir þjóðin í kjöl-
farið því hver og einn þarf auðvitað að
líta í eigin barm á sama hátt. Ég óska öll-
um gleðilegs nýs árs og þakka fyrir sam-
skiptin á því gamla.
Meira: egill.blog.is
STYRMIR Gunn-
arsson færði fyrir því
góð rök í ræðu 1. des-
ember síðastliðinn að
afdrif fullveldis landsins
muni ráðast á lands-
fundi Sjálfstæðisflokks-
ins í janúarmánuði. Þar
verði tekin ákvörðun
með eða móti aðild og
aðildarumsókn að ESB
sem mun skipta sköp-
um fyrir afdrif þess stóra máls. Ég
tel að ritstjórinn fyrrverandi hafi
hér rétt fyrir sér eins og svo oft en
langar að velta hinu upp, hversu
heilbrigt er það samfélag þar sem
lítill útvalinn hópur kjósenda hefur
slíkt ofurvald yfir samfélaginu.
Það sannast mjög á þessu að Ís-
land er ekki lýðveldi heldur flokks-
veldi eins og Njörður P. Njarðvík
benti svo hnyttilega á um daginn og
mig langar að gera þetta óheppilega
stjórnskipulag að umfjöllunarefni
hér á eftir.
Kjósendur og ofurkjósendur!
Í orði kveðnu gerir stjórnskipan
okkar ráð fyrir að löggjafarvaldið sé
sjálfstætt vald, ein þriggja grunn-
stoða lýðræðisins og að þeir sem þar
sitja séu einasta bundnir af sann-
færingu sinni og eiðstaf sem þeir
sverja stjórnarskrá lýðveldisins. Al-
þingismenn eru valdir af kjósendum
í beinum lýðræðislegum kosningum,
eða er ekki svo!?
Nei, í reynd eru alþingismenn oft-
ast valdir af stjórnmálaflokkum sem
tefla þeim síðan fram sem sínum
fulltrúum fyrir almenning sem fær
við kosningar að velja einn bókstaf,
en hvorki einn mann né tiltekið
mengi manna sem
viðkomandi telur best
fallna til forystu.
Fyrir vikið eru þing-
menn eign flokkanna.
Þeir eru bundnir af
því að fylgja flokks-
samþykktum og lúta
flokksaga.
Af herskara í þing-
liði Sjálfstæðisflokks
eru einungis einn eða
tveir sem geta með
einhverjum rétti sagt
að þeir hafi verið
kosnir af því að þeir telji rétt að Ís-
land kanni ESB-aðild. Allir hinir
voru, eins og flokkurinn sjálfur, fyr-
ir kosningarnar, yfirlýstir andstæð-
ingar aðildar og fóru ekkert dult
með þá skoðun sína. Hafa þeir þá
umboð til að tala fyrir og vinna eftir
annarri algerlega andstæðri sann-
færingu nú á miðju kjörtímabili? Já,
samkvæmt almennum skilningi á
flokksveldinu Íslandi þá getur
landsfundur Sjálfstæðisflokksins
sem sóttur er af örfáum prósentum
kjósenda sama flokks breytt umboði
allra kjósenda flokksins. Svo sam-
dauna erum við þessu kerfi að
mörgum þykir hreinlega ekkert at-
hugavert við þessa skipan mála.
Við búum því við það kerfi að ofar
venjulegum kjósendum eru til of-
urkjósendur sem skipa flokksþing
stjórnmálaflokkanna. Flokkarnir
koma fram sem nokkurskonar milli-
liðir milli kjósenda og alþing-
ismanna og með nokkrum hætti
æðri hvorum tveggja, kjósendum og
alþingismönnum. Breyti flokkurinn
um stefnu þá hafa fulltrúar flokks-
ins ekki aðeins leyfi til heldur bein-
línis þær skyldur að fylgja annarri
stefnu en þeir gerðu þegar hinir
óbreyttu kjósendur fólu þeim umboð
sitt til þingsetu.
Einstakir þingmenn í Sjálfstæð-
isflokki eru jafnvel í anda þessarar
hugsunar farnir að hampa því að
þeir fái brátt betra umboð en Sam-
fylkingin til að vera ESB-sinnaðir!
Kjósendur eru hér greinilega af-
gangsstærð.
Lítum aðeins nánar á afleiðing-
arnar af þessu verklagi.
Þingmenn í imbatakti
Það hefur verið kallaður imba-
taktur þegar fjöldi manna apar hver
upp eftir öðrum einhverja hegðun
án þess að sérstök hugsun hvers og
eins eða sjálfstæð ákvörðun liggi
þar að baki.
Svo mjög erum við öll orðin sam-
dauna því kerfi sem hér er rætt um
að það þykir fréttnæmt ef einstakir
þingmenn ganga ekki í imbatakti
síns flokks. Þetta er fjarri því að
vera sérstakt vandamál Sjálfstæð-
isflokks og á stundum virtist mér af
setu á hinu háa Alþingi að í liðsheild
Vinstri grænna sé jafnvel lagt enn
meira upp úr flokksaganum. Stjórn-
málamenn eins og Pétur Blöndal
(D), Kristinn H. Gunnarsson (?) og
Valgerður Bjarnadóttir (S) verða
þannig endalaus uppspretta aula-
fyndni og upphrópana fyrir að fylgja
sannfæringu sinni fremur en fyr-
irframgefinni línu frá flokki sínum.
Svo langt gengur hugmyndin um
að þingmenn eigi að berjast í liðum
að það er jafnvel talið til frétta ef
þingmenn í stjórnarandstöðu tala
ekki í takt hver við annan. Í reynd
væri það miklu meiri frétt ef í til
dæmis eftirlaunamálinu sem rætt
var á Alþingi um daginn kæmu bara
fram tvær skoðanir, skoðun stjórn-
armeirihluta og skoðun stjórnarand-
stöðu. Málið er einmitt þannig vaxið
að það ætti að vera útilokað þar sem
hver maður er eiðsvarinn að fylgja
sannfæringu sinni að allir í stjórn-
arandstöðunni annarsvegar og allir í
stjórnarliðinu hinsvegar, kæmust að
sömu niðurstöðu. Þetta er einnig
mál þar sem rökstyðja má að flokks-
línur séu með öllu óþarfar og til þess
eins að laska hið lýðræðislega hlut-
verk Alþingis.
Óþörf afgreiðslustofnun
Í raun og veru gerir imbatakt-
urinn það að verkum að Alþingi
verður að stærstum hluta óþörf af-
greiðslustofnun framkvæmdavalds-
ins. Þegar formenn tveggja flokka
sem saman mynda þingmeirihluta
koma saman, t.d. í Viðey eða Val-
höll, þá geta þeir í raun og veru
samið um niðurstöðu atkvæða-
greiðslu í þingsölum. Og gera það
blygðunarlaust. Þannig var samið í
tveggja manna tali um EES-aðild
okkar fyrir tæpum 20 árum, upp-
skiptingu stjórnarráðsins fyrir hálfu
öðru ári og þannig er nú verið að
semja um ESB-umsókn þjóð-
arinnar. Meðan fjárlaganefnd sú
sem ég sat í haustið 2007 þingaði um
sparnað og aðhald tilkynnti rík-
isstjórnin að henni forspurðri um
aukin útgjöld. Formaður og varafor-
maður komu af fjöllum en urðu vita-
skuld að hlýða. Starf okkar var
þannig að mestu hégómi.
Það liggur við að miðað við núver-
andi ógöngur þessa kerfis væri eins
hægt að leyfa kjósendum að kjósa
mannlausa listabókstafi og segja svo
eftir kosningar; talsmaður D-lista
fer hér eftir með 25 af 63 atkvæðum
í hlutafélaginu Íslandi, talsmaður S-
lista 18, talsmaður F-lista 4 o.s.frv.
Eftirláta svo bara framkvæmda-
valdinu að stjórna landinu eins og
hverju öðru hlutafélagi. Þegar kæmi
að því að ákveða eitthvað gæti ein
flokksskrifstofa komið málum í gegn
með því að ná samningum við aðrar
flokksskrifstofur þar til meirihluti
væri fenginn. Það er auðvitað nokk-
uð ýkt að draga myndina upp með
þessum hætti en raunalega satt
samt.
Það er engum vafa undirorpið í
huga þess sem hér ritar að flokks-
valdið er grundvöllur þess að Al-
þingi er frekar máttlaus stofnun og
var algerlega ónýt til þess að afstýra
hér þeim hörmungum sem flokks-
veldið Ísland hefur leitt yfir þjóðina
á undanförnum árum. Leiðin hér út
úr er ekki einföld því við sterk öfl er
að eiga. Eitt skrefið í átt til nýrra
tíma er vitaskuld breyting á kosn-
ingafyrirkomulagi þar sem tryggður
er í meira mæli en nú réttur kjós-
enda til að velja einstaklinga fremur
en flokka. Það má vitaskuld gera
með einmenningskjördæmum en
vænlegra væri þó að gera landið allt
að einu kjördæmi og auka um leið
persónuval. Annað skref gæti verið
að velja framkvæmdavaldið í sér-
stakri kosningu en á því fyr-
irkomulagi eru samt nokkrir aug-
ljósir gallar.
Sem fyrr verða fyrstu skref í átt
til breytinga samt að koma frá al-
menningi og gerist ekki nema fram
komi grasrótarframboð til næstu
kosninga sem hafnar núverandi
flokkakerfi og þeim klafa sem það
leggur á lýðræðislega kjörna full-
trúa.
Eftir Bjarna
Harðarson »Eitt skrefið í átt til
nýrra tíma er vita-
skuld breyting á kosn-
ingafyrirkomulagi
þar sem tryggður er í
meira mæli en nú réttur
kjósenda til að velja
einstaklinga fremur en
flokka.
Bjarni Harðarson
Höfundur er bóksali á Selfossi.
Imbataktur flokksveldisins
BLOG.IS
Árni Þór Sigurðsson | 2. janúar
Er of flókið að kjósa?
Margir hafa lýst þeirri skoðun, í umræðunni um Evrópumálin, að eðli-
legt sé að viðhafa tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu. Með því er átt við
að áður en stjórnvöld taka stefnumótandi ákvörðun um að fara í aðild-
arviðræður við Evrópusambandið, eigi þau að leita eftir umboði frá
þjóðinni til þess, burtséð frá niðurstöðum viðræðnanna. Nái stjórnvöld
síðan samningi við ESB um aðild, yrði slíkur samningur að sjálfsögðu
einnig borinn undir þjóðaratkvæði. Geir Haarde formaður Sjálfstæðisflokksins bættist
um áramótin óvænt í hóp þeirra sem vilja tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu.
Þessi afstaða fer mjög fyrir brjóstið á samfylkingarfólki, og yfirleitt þeim sem eru
mjög áfram um aðild Íslands að Evrópusambandinu......................................................
Getur verið að það sé of flókið að kjósa? Getur verið að það sé of flókið að viðhafa
beint lýðræði á mörgum stigum málsins? Af hverju óttast stuðningsmenn ESB-
aðildar þjóðina? Frá mínum bæjardyrum er einmitt mikilvægt að stíga varlega til jarð-
ar, að þjóðin sé ávallt beint og milliliðalaust með í ráðum, að þjóðin eigi ekki bara síð-
asta orðið eins og það er oft kallað, heldur taki sjálf ákvörðun um það hvort fyrsta
skrefið verður stigið. Það er lýðræði.
Meira: arnith.blog.is