Morgunblaðið - 03.05.2009, Page 28
28 Grænland
MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 3. MAÍ 2009
Ertu frá Greenpeace?“ spurði veiðimaðurinn Ragnar Axelsson ljósmyndara stuttur í spuna þar sem fundumþeirra bar saman á snjóbreiðunni í Kulusuk. Augun stóðu á stilkum. Aðkomumenn eru tortryggilegir þar umslóðir, einkum þeir sem eru vopnaðir myndavélum. „Nei,“ flýtti Ragnar sér að segja enda veiðimaðurinn ekkiárennilegur með alblóðugan hnífinn á lofti. Hann var að gera að sel sem lá þar strípaður í skaflinum.
„Hefurðu nokkuð séð kjúklinga á hlaupum?“ spurði þá veiðimaðurinn, Gideon Kilime, öðru sinni og brá sér af ísmeygi-
legri kímni í líki fiðurfjár. „Nei,“ svaraði Ragnar undrandi og velti því fyrir sér eitt augnablik hvort hann væri staddur í
Monty Python-mynd. „Það halda allir að við getum lifað á kjúklingum,“ hélt Gideon áfram. „Eina vandamálið er að það
eru engir kjúklingar hérna. Við verðum að veiða okkur til matar eins og inúítar hafa gert í 4.500 ár á Grænlandi en það
kemur sér illa að við megum ekki lengur selja selskinnin út af einhverjum evrópskum reglugerðum og Greenpeace.
Hvernig eigum við að lifa?“ Vandlætingin leyndi sér ekki. Þegar Gideon hafði lokið við að gera að selnum komu börnin í
þorpinu hvert með sinn poka til að hirða bitana og fara með heim til fjölskyldna sinna. Eftir að Gideon gerði sér grein fyr-
ir því að Ragnar var ekki slettireka fór vel á með þeim. Ljósmyndarinn fékk því sinn skerf. „Ég varð að éta hráan sel til að
vera ekki skorinn á háls,“ segir hann sposkur. Og bragðið? „Það var ágætt.“
Ragnar hefur margoft sótt Grænland heim gegnum árin og gjörþekkir þar aðstæður. Honum þykir miður að komið sé
fram við veiðimannasamfélagið af slíkri vanþekkingu og virðingarleysi og reynt að þvinga upp á það nýjum gildum.
„Menn verða að veiða sér til matar. Þeir skreppa ekki út í sjoppu að kaupa kók og prins úti á víðavangi,“ segir hann og
hristir höfuðið. Ekki bætir það úr skák að veiðilendunum fer fækkandi þar sem ísinn er á hröðu undanhaldi. Hann er til
dæmis ekki traustvekjandi á myndinni hér til hliðar. Hvor ber þar sök, maðurinn eða almættið?
Vetur konungur sat enn í hásæti sínu þegar Ragnar var í Kulusuk á dögunum. Það er til marks um fannfergið að hann
þurfti að moka herramanninn á myndinni hér efst til vinstri út úr híbýli sínu. „Hann varð voða glaður að sjá mig.“
Hvergi er líklega meiri þörf fyrir besta vininn en í fásinninu á ísnum og hundarnir setja sterkan svip á samfélagið. Þeir
létu sér fátt um finnast meðan Ragnar var á stjákli í kringum þá. Athygli vekur að þeir eru í hlekkjum. Það helgast af
þeirri einföldu staðreynd að þeir eru ekki allra.
Fegurðin er eftir sem áður óspillt á Grænlandi. Um það vitnar hús trommudansarans í kvöldhúminu. En það eru við-
sjárverðir tímar og enda þótt inúítarnir finni sér örugglega farveg – það er þeirra eðli – er fólk upp til hópa með böggum
hildar. Ekki er ósennilegt að Grænlendingar upplifi sig almennt eins og blessað barnið á myndinni – áhyggjufullt, eitt og
yfirgefið. Spurning allra spurninga brennur á vörum: Hver er framtíðin? orri@mbl.is
Hefurðu séð nokkra
kjúklinga á hlaupum?