Morgunblaðið - 24.10.2009, Síða 43

Morgunblaðið - 24.10.2009, Síða 43
Minningar 43 MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 24. OKTÓBER 2009 sem sjálfstæða einstaklinga í borg- aralegu samfélagi. Sömu gildi kenndi hann síðar barnabörnunum, auga- steinunum sínum. Árni Grétar var góður maður og frá honum stafaði hlýja og yndisleg nærvera. Hann var unnandi menn- ingar og lista, sjálfur var hann gott ljóðskáld. Hans er mikið saknað, en minning hans mun lifa. Við Kjartan sendum fjölskyldunni innilegar samúðarkveðjur og biðjum þess að almáttugur Guð styrki ykkur í sorginni. Megi hið eilífa ljós lýsa Árna Grét- ari Finnssyni. Karitas H. Gunnarsdóttir. Hverfulleiki lífs dylst ekki þeim er á næma strengi. „En takmark og til- gang sinn tilveran sýnt okkur hefur. Hún bendir á himininn, hann fyrir- heit mönnunum gefur,“ segir Árni Grétar Finnsson í ljóði. Skáldskapur veitti honum hugsvölun í önnum dag- anna. Þau Sigríður Oliversdóttir eig- inkona hans kynntust á bernskuslóð- um Árna á Akranesi en settust að í Hafnarfirði. Fögur og hrífandi varð hún Árna uppspretta ljóða og samleið lýsir hann svo: „Að hafa leiðst um langa bjarta daga og líka þegar mistrið huldi sýn. Hver stund með þér var ljúf sem ljóðræn saga. Hve lífið væri kalt og snautt án þín.“ Um- hverfi Fjarðarins varð Árna að ljóð- um. Hann yrkir „Við Álfaklett“ og tjáir þrá sína um fegri heim; „sköpuð er mér leit, skynja straumsins skil, skilja huldumál, finna fegri heim, frið í minni sál“. Árni orti í hjáverkum enda vel metinn lögmaður og forystu- maður í félagsmálum og lengi forseti bæjarstjórnar. Við Árni kynntumst þegar ég varð sóknarprestur Hafn- arfjarðarkirkju. Áhugi beggja á skáldskap varð að tryggri vináttu. Við ræddum ljóðagerð en líka skák enda Árni slyngur skákmaður er teflt hafði í liði Íslands á heimsmeistara- mótum stúdenta og orðfæri mann- taflsins birtist í kveðskap hans. Árni lét sig mjög varða kristni og kirkju. Sú hugmynd kom fyrst fram í samtali okkar að vel færi á því að byggja sam- an safnaðarheimili við kirkjuna og nýjan tónlistarskóla bæjarins. Árni prédikaði á nýársdegi í kirkjunni, sótti hana og orti trúarljóð. „Birtu jóla lýsir hann svo: „Sem svífi fann- hvítur svanur úr sortanum undur- hljótt svo kemur kærleikans birta með Kristi á jólanótt.“ Og þýðingu krosstáknsins þannig: „Hulinn kynngikraftur í krossins tákni býr og vísar þreyttum veginn sem villtur þangað snýr.“ Árni er örlátur í ljóð- um sínum. Eigin reynsla er yrkisefni hans en hann kveður líka spámann- lega inn í samtíð sína. Hann sýnir mikla samkennd og yrkir um „hinn brákaða reyr“ og fjallar um það sára hlutskipti „að fæðast í heiminn sem fatlað líf og finna þar hvorki skjól né hlíf“. Árni yrkir í síðustu ljóðabók sinni um áhrif Alzheimer-sjúkdóms- ins: „Hún er þarna, samt er hún horf- in. – Ég tala við hana eins og ekkert hafi breyst, tala um börnin okkar, barnabörnin, blómin í garðinum okk- ar, sem hún gróðursetti og unni …“ Sjálfur var Árni vanmegna síðustu misserin. Þó ætti erfitt með mál var hugsun hans skýr. Fyrr hafði hann ort: „Að lífið sé eins og óráðin gáta svo oft vér reynum í blíðu og stríðu en verðum að lúta þeim lífsins máta að lausnin bíði á öftustu síðu.“ Ég hitti Árna á sjúkrabeði rétt áður en hann lést og færði honum prédikun. Hann las hana og kinkaði kolli með birtu í augum enda segir á lokasíðu hennar: „Jesús Kristur léttir af mæðu og áhyggju og gerir lífsleið að ferð með sér að komanda ríki sínu.“ Og því er hægt að yrkja svo sem Árni gerir þótt gefið hafi á bátinn: „Hallar degi, hljóðnar dröfn, hægir reginbrýnu, sigli feginn svo í höfn sigurfleyi mínu.“ Vinátta Árna var mér og verð- ur mikils virði og kjarnyrtu ljóðin hans. Guð blessi minningu Árna Grétars og ástvini. Gunnþór Ingason. Í bók rifjar Richard M. Nixon upp leiða Dwights D. Eisenhowers for- seta yfir því hve erfitt hann átti með að tjá hugsanir sínar um tíma eftir veikindaáfall í embætti. Segist Nixon hafa hughreyst Eisenhower með að þetta þýddi einungis að hann hugsaði hraðar en hann talaði sem væri fá- gætt hjá stjórnmálamönnum. Sárt var hve erfitt reyndist að skilja sumt af því sem Árni Grétar vildi segja síð- ustu misserin. En skýrt var að hugar- flugið og skoðanirnar leiftruðu eins og fyrr. Aðdáunarverðast var þó að finna hve hann var óbugaður af því hvernig komið var máli og hreyfigetu hans; hve fjarlægt honum var vol eða víl. Árni Grétar vakti snemma athygli fyrir vaskleik til orðs og æðis. Lítil at- vik segja stundum stærri sögu. Í Verslunarskólanum vafðist t.d. ekki fyrir honum að gerast ritstjóri og ábyrgðarmaður nýs skólablaðs, „Merkúrs“, sem ráðist var í að gefa út til að rétta hlut nemenda og vernda blómlegt félagslíf þeirra þegar á móti blés úr óvæntri átt. Skólanefnd hafði úthýst úr skólahúsinu mikilvægum þáttum félagslífsins til að hlífa nýjum þiljum hússins. Árni Grétar lét sig engu skipta þótt hann mætti búast við andúð skólayfirvalda fyrir harða gagnrýni blaðsins. Ég held að Árni Grétar hafi aldrei veigrað sér við að leggja til baráttu ef hann taldi mál- staðinn þess virði. Um það var hann líkur nánasta samherja sínum á skólaárunum, Jóhanni heitnum J. Ragnarssyni hrl. Við þeir yngri nut- um þess að vera í liði með slíkum mönnum. Í HÍ haustið 1959 varð bar- áttumaðurinn Árni Grétar auðvitað vonsvikinn þegar Vaka náði ekki meirihluta í Stúdentaráði. Var honum efst í huga að snúast til harðrar stjórnarandstöðu í ráðinu. Málefni réðu hjá honum meira en metorð. Þurfti eiginlega að þröngva upp á hann formennsku í Stúdentaráði Há- skóla Íslands byggðu á samstarfi við jafnaðarmenn. En það var nærtækt í því andrúmslofti sem ríkti í landsmál- um. Minnihlutastjórn Alþýðuflokks- ins sat með stuðningi Sjálfstæðis- flokksins (það var þá sem Ómar Ragnarsson bjó til og flutti á skemmtunum „óskalagaþátt“ þar sem Alþýðuflokkurinn sendi Sjálf- stæðisflokknum kveðju með laginu vinsæla: „What am I living for, if not for you“!). Viðreisnarstjórn flokk- anna var í mótun. Samstarfið gekk af- burðavel á hvorum tveggja vígstöðv- um, enda einvalalið, og árangurinn eftir því. Árni Grétar var snjall skák- maður, m.a. valinn í sveit sem keppti á 5. alþjóðaskákmóti stúdenta í Varna, Búlgaríu, í júlí 1956. Einmitt þá skapaðist alvarlegt ástand í heims- málum vegna kalda stríðsins og deil- unnar um yfirráð Suez-skurðarins. Lýsti Árni því síðar hve sérstæð til- finning hefði fylgt því að vera þarna austan járntjalds vitandi aðeins óljóst að eitthvað ógnvænlegt væri að ske. Hæfileikarnir og viðhorfin, skörp hugsun, hreinskiptni og dugnaður urðu til þess að Árni Grétar var víða kvaddur til forystu. Og hann naut sín líka alla tíð vel þegar ró ríkti. Hann naut þess að ígrunda þjóðmál með vinum sínum, stundum stríðinn og oft glettinn, var söngelskur og orti ljóð. Margir líta nú þakklátum huga yfir farinn veg og hugsa hlýtt til Sigríðar og vel gerðra afkomenda þeirra heið- urshjóna. Ólafur Egilsson. Mér er það bæði ljúft og skylt að minnast læriföður míns, Árna Grét- ars Finnssonar hæstaréttarlög- manns. Honum kynntist ég árið 1987 þegar hann réð mig sem fulltrúa á lögmannsskrifstofuna sína við Strandgötuna í Hafnarfirði. Starfs- viðtalið var stutt, það hafði víst ekki skemmt fyrir að ég ætti ættir að rekja til Hafnarfjarðar. Þetta var upphafið að liðlega 20 ára samstarfi okkar sem aldrei bar skugga á. Hann gaf mér frjálsar hendur um vinnu- brögð en var alltaf til taks og reiðu- búinn að leiðbeina og ráðleggja þegar á þurfti að halda. Þannig byggði hann upp traust og virðingu okkar á milli sem varð grunnur að farsælu sam- starfi. Árni Grétar var þegar reynslumik- ill lögmaður þegar ég kynntist hon- um. Hann var mjög skipulagður og agaður í vinnubrögðum, hafði reglu á hlutunum. Hann var fljótur að greina kjarnann frá hisminu og var því kjarnyrtur og áheyrilegur í málflutn- ingi sínum. Af yfirvegun og rósemi hlustaði hann á alla og lét sér aldrei bregða þótt sumir kæmu til viðtals ill- ir og reiðir. Árni Grétar kenndi mér ýmislegt, bæði í lögmennsku en einnig varð- andi fjármál og rekstur. Hann mundi tímana tvenna og vissi að aðhald í fjármálum væri heillavænlegast til lengri tíma litið. Staða þjóðarbúsins væri betri ef ráðamenn hefðu þá af- stöðu að leiðarljósi. Árni Grétar rak lögfræðiskrifstofu sína í húsi númer 25 við Strandgöt- una í Hafnarfirði og gekk húsið undir nafninu 25-eyringurinn. Um tíma voru þar auk Árna og mín þeir Jó- hann Petersen, umboðsmaður Flug- leiða, Reynir Eyjólfsson, umboðs- maður Happdrættis Háskólans, og Sigurbergur Sveinsson, kaupmaður í Fjarðarkaupum, með skrifstofu í húsinu. Fyrir mig var það feikigaman að hlusta á þá félaga ræða tímana tvenna, leysa ágreiningsmál í pólitík- inni og koma fram með ýmsar heim- spekilegar vangaveltur um tilgang lífsins. Árni Grétar var fæddur og uppal- inn á Skaganum og hafði alltaf sterk- ar taugar þangað. Sýndi hann Skag- anum traust sitt með því að halda með Skagamönnum í fótboltanum þótt hann byggi í Hafnarfirði. Þótt Árni væri keppnismaður í eðli sínu var hann sjálfur enginn íþróttamaður og voru vindlarnir aldrei langt undan. Ekki heldur kom keppnisskapið fram þegar hann sat undir stýri á bílnum sínum með númerinu G2. Svo lötur- hægt keyrði hann bílinn að mér lærð- ist fljótt að vera fyrri til að bjóða far. Árni Grétar var víðlesinn og fróður um margt. Hann unni ljóðlist sér- staklega og var sjálfur laginn við þá iðju. Eftir hann liggja nokkrar ljóða- bækur sem geyma margar perlur. Eiginkona Árna Grétars, Sigga, eins og hún er alltaf kölluð, bjó þeim hjónum gott heimili. Þar réð hún ríkj- um. Veikindi hennar síðastliðin ár voru Árna þungbær. Ég kveð góðan vin og fyrrverandi starfsfélaga til margra ára með sökn- uði og virðingu. Við Ólöf sendum Siggu, börnum og þeirra fjölskyldum okkar innilegustu samúðarkveðjur. Stefán Bj. Gunnlaugsson.                          ✝ Innilegar þakkir færum við öllum þeim er sýndu okkur samúð og hlýhug vegna andláts og útfarar elskulegs föður okkar, tengdaföður, afa og langafa, JÓNS GÍSLASONAR, Fjólugötu 14, Akureyri. Sérstakar þakkir til læknanna Jóns Þórs Sverris- sonar og Vals Marteinssonar. Einnig til starfsfólks handlæknisdeildar Sjúkrahúss Akureyrar, Heimahjúkrunar á Akureyri, Kristnesspítala og Víðihlíðar á dvalarheimilinu Hlíð Akureyri. Sveinn Heiðar Jónsson, Erla Oddsdóttir, Sigríður Jónsdóttir, Stefán G. Jónsson, Sæbjörg Jónsdóttir, Jón Hlöðver Áskelsson, Karl Jónsson, Helga Kristrún Þórðardóttir, afa- og langafabörn. ✝ Innilegar þakkir færum við öllum þeim sem sýndu okkur samúð og hlýhug við andlát og útför ástkærs eiginmanns míns, föður, tengdaföður, afa og lang- afa, LÁRUSAR L. SIGURÐSSONAR, Skúlagötu 20, Reykjavík. Sérstakar þakkir færum við starfsfólki heima- hlynningar Landspítalans fyrir einstaka alúð og umönnun í veikindum hans. Jónína Þorsteinsdóttir, Sigríður Ásta Lárusdóttir, Runólfur Gunnlaugsson, Ágústa Lárusdóttir, Sigurður Þór Kristjánsson, Þorsteinn Lárusson, Steinunn Eiríksdóttir, Sigurður Lárusson, Ásta Björk Ólafsdóttir, barnabörn og barnabarnabarn. ✝ Þökkum auðsýnda samúð vegna fráfalls móður okkar, tengdamóður, ömmu og langömmu, ELÍNAR ODDSDÓTTUR, Ástúni 8, Kópavogi. Sólrún B. Kristinsdóttir, Hauður Kristinsdóttir, Magnús Alfonsson, Þóra Sjöfn Kristinsdóttir, Anna Margrét Kristinsdóttir, barnabörn og barnabarnabörn. ✝ Hjartans þakkir fyrir auðsýnda samúð og hlýhug við andlát og útför elskulegrar móður okkar, tengdamóður, ömmu og langömmu, ARNFRÍÐAR ÞORSTEINSDÓTTUR, Melgerði 13, Reyðarfirði. Sérstakar þakkir fær starfsfólk dvalarheimilisins Uppsala á Fáskrúðsfirði fyrir einstaka umönnun og hlý samskipti. Guð blessi ykkur öll. Þórhallur Jónasson, Benedikta G. Jónasdóttir, Eðvald Gestsson, Halldór Jónasson, Jóhanna Hallgrímsdóttir, Sylvía Dögg Halldórsdóttir, Ingi Örn Gíslason, Sigurbjörg Eðvaldsdóttir, Tómas Dagur Helgason og barnabarnabörn. ✝ Elskulegur faðir, afi og langafi, SVEINN TORFI SVEINSSON verkfræðingur, Hraungörðum, Garðabæ, verður jarðsunginn frá Víðistaðakirkju þriðjudaginn 27.október kl. 13.00. Vilborg Elín Torfadóttir, Stefán Sigurðsson, Ingibjörg Ásdís Torfadóttir, Sveinn Hallgrímsson, Ingibjörg Erna Sveinsson, Helgi Ólafsson, barnabörn og barnabarnabörn.

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.