Saga - 1998, Page 14
12
SVERRIR JAKOBSSON
barst hún til Þýskalands og suður Ítalíuskagann. Aðstæður í Frakk-
landi á 10. öld ýttu undir þróun mála, ríkisvald var í upplausn en
lénsmenn (castellani) styrktu stöðu sína. Öldin einkenndist af einka-
styrjöldum aðalsmanna en ófriðurinn bitnaði einkum á bændum.
Vígreifir lénsmenn herjuðu á héruð hver annars en forðuðust að
ráðast á mótherjann sjálfan sem sat öruggur í virkisborg sinni.
Fræðimenn hafa kennt slíkar styrjaldir við fæðardeilur (feud).15
Þeim fjölgaði sem höfðu bolmagn til að ræna fé kirkna og beita
klerka og munka ofbeldi. Svokallaðir verndarar (advocati) kirkj-
unnar ráðstöfuðu eigum hennar að eigin geðþótta og börðu á
kirkjunnar þjónum, þvert á lagagreinar, en vopnlausir klerkar áttu
bágt með að verjast ribböldum með alvæpni. Biskupar og ábótar
höfðu hag af því að tryggja friðinn en fá færi gáfust á því, uns
þeim datt í hug að tala beint til hinnar stríðshrjáðu alþýðu sem
ávallt vildi frið.16
Fyrstu friðarþingin voru haldin í Aquitaníu og Búrgund á sein-
asta fjórðingi 10. aldar. Riddarar og vopnaðir bændur (milites ac
rustici) sóru að virða friðhelgi kirkna og fátæklinga. Bannfæring
var lögð við að ráðast á klerka, ræna fé kirkna og kvikfénaði
bænda.17 Hreyfingin breiddist um allt Frakkland og alstaðar héldu
biskupar og fyrirmenn þing til að endurreisa friðinn og endur-
bæta stofnanir hinnar heilögu trúar. Milli kirkjuþinganna í Char-
roux 989 og Clermont 1095 líður varla sá áratugur að ekki komi
fram hve fús alþýðan var til að styðja málstað friðar. Sá andi guð-
hræðslu og trúarlegrar tilfinningasemi sem ríkti á þessum þingum
var kjörinn jarðvegur fyrir friðaráróður. Rodulfus Glaber lýsir
hvernig biskupar, ábótar og „aðrir helgir menn" söfnuðu lýðnum
saman á þingum og sýndu honum jarðneskar leifar dýrlinga og
fleiri helga dóma.18 í upphafi var eiður riddaranna eina trygging-
in fyrir því að samþykktum kirkjuþinga yrði fylgt en árið 1038
hvatti Aimon, erkibiskup í Bourges, alla trúaða yfir fimmtán ára
15 Wallace-Hadrill, „The Bloodfeud of the Franks". - White, „Feuding and
peace-making in the Touraine". - Koziol, „Monks, Feuds and the Making
of Peace". - Um fæðardeilur á íslandi sjá Byock, Medieval Iceland; Miller,
Bloodtaking and Peacemaking; og Helgi Þorláksson, „Hvað er blóðhefnd?".
16 Hoffmann, Gottesfriede und Treuga Dei, bls. 11-13.
17 Mansi, Sacrorum consilium nova, et amplissima collectio 19, bls. 89-90.
18 Raoul Glaber, Les cinq livres de ses histoires, bls. 103-105.