Saga - 1998, Page 190
188
EINAR H. GUÐMUNDSSON
dag eru flokkuð sem raunvísindi, og nokkrir íslendinganna lögðu
á þau talsverða áherslu samhliða aðalnámsgreinum sínum.
Á dögum Gísla var hinn almenni háskólaborgari tiltölulega vel
að sér í vísindum samtímans. Stjörnulist, reikningslist og flatar-
málsfræði voru ásamt tónfræði uppistaðan í hinum svokallaða
fjórvegi, sem allir háskólastúdentar þurftu að læra. Margir kynntu
sér einnig frumspeki og náttúruspeki til nokkurrar hlítar.5 Algengt
var að stúdentar og kennarar héldu fyrirlestra eða framsögu í op-
inberum kappræðum um slík efni sem og ýmis önnur, ekki síst
guðfræði og heimspeki. Var það kallað að dispútera og voru fyrir-
lestrarnir oft gefnir út á prenti á kostnað höfunda eða velunnara
þeirra. Kver stúdentanna eru flest fremur léttvæg, en þó má finna
vandaðar ritgerðir innan um. Hefð þessi átti sér langa sögu, ekki
aðeins í Danmörku heldur í Evrópu allri, og má rekja hana allar
götur til tólftu eða þrettándu aldar. Sem dæmi má nefna, að í bók-
um Hafnarháskóla er þess getið að Oddur Einarsson (1559-1630),
kunningi og lærisveinn hins þekkta danska stjörnufræðings
Tychos Brahes (1546-1601) og síðar rektor að Hólum og biskup í
Skálholti, hafi haft framsögu í þremur slíkum kappræðum á árun-
um 1583 til 1585. Ekkert er nú vitað um það hvaða efni Oddur tók
fyrir né hvort erindi hans komu á prenti.6
Meðal þeirra sem dispúteruðu um raunvísindaleg efni á sautj-
ándu öld var Þorleifur Jónsson (1620-90), forveri Gísla Einarsson-
ar í skólameistarastarfinu í Skálholti og síðar prestur í Odda.
Hann hafði Erik Olufsen Torm (1607-67) sem einkakennara, en sá
var þá prófessor í stærðfræði við Hafnarháskóla. Fyrirlestur Þor-
leifs fjallaði um heiminn (Dissertatio physica de mundo) og var
haldinn 1644. Sumir sagnaritarar telja hann hafa komið á prenti,
en ekkert eintak er nú til, eftir því sem næst verður komist.7Sam-
tímis Þorleifi við nám í Kaupmannahöfn voru meðal annarra þeir
Gísli Magnússon (1621-96), Páll Björnsson (1621-1706) og Runólf-
ur Jónsson (um 1620-54). Þeir voru allir hneigðir fyrir stærðfræði
5 Náttúruspeki (Physica) fjallaði um heiminn og eðli hans í víðasta skilningi-
Hún náði því meðal annars yfir mörg svið sem í dag falla undir eðlisfræði
og heimsfræði.
6 H. F. Rordam, Universitetets Historie fra 1537 til 1621 II, bls. 423.
7 Páll Eggert Ólason, íslenzkar æviskrdr V, bls. 178. - Jón Halldórsson og
Vigfús Jónsson, Skólameistarasögur, bls. 137-39.