Saga - 1998, Page 358
356
RITFREGNIR
tæpt á hlutum og sagt að um þá verði fjallað í síðara bindi, og stóð það
heima.
Síðara bindið greinir frá því hvernig Stykkishólmur varð miðstöð Vest-
urlands. í fyrstu er sögusviðið skoðað og farið vítt um eyjar og sveitir, og
bent á að viðgangur þorpsins hafi byggst á velferð byggðarlaga er sóttu
verslun og þjónustu til Stykkishólms. Annar hluti greinir frá Stykkishólmi
sem stjórnsýslumiðstöð þar sem sagt er frá staðsetningu amtmanns í
Hólminum, sýslumannsembættinu, og þingfundum á Þórsnesi, tengslum
heimamanna við Alþingi og Jón Sigurðsson o.fl. Stykkishólmur verður
einnig miðstöð heilbrigðismála þar sem héraðslæknar og apótekarar hafa
aðsetur. Eftir langa frásögn af ýmsum kaupmönnum tekur við kafli um
Árna Thorlacius sem kannski er frægastur í dag fyrir brautryðjendastörf
á sviði veðurathugana, og síðan um ýmsa presta og aðra framámenn sem
efldu félagsstörf og menningarlíf í Hólminum. Síðara bindi þessarar sögu
lýkur 1892 þegar samþykkt er að skipta Helgafellssveit í tvö sveitarfélög,
Stykkishólmshrepp, sem samsvaraði Stykkishólmssókn, og Helgafells-
sveit sem náði yfir Helgafells- og Bjarnarhafnarsóknir. Þrátt fyrir þetta þá
er ekki rakin saga Helgafellssveitar fram að þeim tíma heldur einskorða
höfundar sig að mestu við svæðið sem síðar verður Stykkishólmur. Á
þessu eru nokkrar undantekningar t.d. er fjallað um Helgafellsklaustur í
fyrra bindinu, en á allt of yfirborðslegan hátt. Ég hefði kosið að meira
hefði verið sagt frá umhverfi Stykkishólms, sveitunum í kring sem voru
forsenda fyrir þéttbýli í Hólminum. Að þessu er aðeins vikið almennum
orðum s.s. að Stykkishólmur hafi verið á „náttúrulegum krossgötum er
lágu á mótum fiskveiðisvæðis Breiðafjarðar og landbúnaðarsvæða á
Skógarströnd og í Dölum ...". í raun binda höfundar sig mjög við
„Nesplássið" eða torfuna kringum heimajörðina á Grunnasundsnesi, en
fylgja þó kaupmönnum til útlanda og alþingsmönnum á þing.
„Það var því þilskipaútvegurinn sem framar öðru ýtti undir þorps-
myndun í Stykkishólmi" (bls. 339). Telja höfundar að í byrjun 19. aldar
hafi Stykkishólmur verið að breytast úr verslunarstað í útvegsþorp.
Ásgeir grefur upp merkar heimildir um verðlaun fyrir útgerð og gerir
glögga grein fyrir þeim. Spurning er hvort ekki hefði mátt finna frekari
upplýsingar um fiskveiðar bænda í Breiðafjarðareyjum sem að hluta
lögðu upp sinn afla í Stykkishólmi eða lögðu inn vörur í verslunum í
Hólminum. Þrátt fyrir að í Stykkishólmi sé að byggjast upp útgerð lýs-
ir erlendur ferðamaður þorpinu með þessu hætti árið 1815: „staðurinn
samanstendur af tveimur kaupstaðarhúsum og pakkhúsum, er þeim til-
heyra, og íbúðarhúsi Hjaltalíns héraðslæknis" (fyrra bindi, bls. 235).
Stundum spurði ég sjálfan mig, hvernig er unnt að skrifa tvær bækur um
nokkur hús? En svo las ég áfram og fékk svar við því.
Báðar bækurnar byggja að langmestum hluta á frumheimildum, sér-