Saga - 1998, Page 377
RITFREGNIR
375
Guðjón nýtur góðs af heimildakönnun sinni við ritun Reykjavíkursögu
og sögu íslenskrar blaðamennsku, hann er sjóaður rithöfundur og kann til
verka eins og best verður á kosið; ævisaga hans um Jónas frá Hriflu er
eljuverk. Hér fer saman markviss rannsókn á heimildum, skýr yfirsýn og
sérstaklega lipur stíll, orðauðgi og fjölbreytni að öðru leyti í framsetningu
máls. Frágangur af hendi forlags er góður; má þó mikið vera ef einhverj-
ir hafa ekki átt í vandkvæðum vegna letursmæðar. Ég veit ekki nema
þarft væri að birta skrá í lokabindi um öll kvæði sem vísað er til í þessu
riti. Að lokum þetta: Hér falla öll vötn í eina átt, höfundur var sæmdur ís-
lensku bókmenntaverðlaununum fyrir bókina á þorra síðastliðnum og ég
bíð spenntur eftir framhaldinu.
Sölvi Sveinsson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson: HÁDEGISVERÐUR-
INN ER ALDREIÓKEYPIS: ÞÆTTIR í STJÓRNMÁLA-
HAGFRÆÐI. Hið íslenska bókmenntafélag. Reykjavík
1997. 448 bls. Tilvísanaskrá. Atriðaorðaskrá.
Þetta ritverk er safn 18 ritgerða. í inngangi greinir höfundurinn, Hannes
H. Gissurarson prófessor, frá því, að efni þeirra sé að hluta sótt til dokt-
orsritgerðar hans frá árinu 1987. Jafnframt séu ritgerðirnar að stofni til úr
fyrri bók höfundar, Markaðsöfl og miðstýring, sem út kom 1988, en nú svo
mjög auknar og endurbættar, að óhætt sé að kalla þetta nýja bók. Af þessu
er ljóst, að umræddar ritgerðir eru árangur rannsókna Hannesar í allmörg
ár, að minnsta kosti undanfarin áratug.
Efni ritgerðanna er af því tagi, sem Hannes kýs að nefna stjórnmálahag-
fræði. Nánar tiltekið greinir hann frá því í inngangi, að hann telji, að riti
sínu „sé best lýst sem framlagi til þeirrar stjórnmálahagfræði (e. political
economy), sem hugsuðir eins og Adam Smith, John Stuart Mill, Karl
Marx, John Maynard Keynes og Friðrik Ágúst von Hayek iðkuðu".
Nú er það svo að hugtakinu „political economy" var upphaflega ætlað
að vísa til hagfræði þjóðríkisins eða samfélagsins - „political" í ofan-
greindu samhengi vísar nefnilega til „polis" í merkingunni borgríki, þjóð-
ríki eða samfélag. Hinir miklu frumkvöðlar „political economy", Smith,
Ricardo, Mill og Marx, voru þess vegna að vinna í einhvers konar hag-
nýtri samfélagshagfræði, þ.e. hagfræði, sem kæmi að notum við skipulag
hagkerfisins, hagstjórn. Stjórnmál í hinum tiltölulega þrönga nútímaskiln-
ingi þess orðs voru afskaplega fjarri hugsunarhætti þeirra og rannsókn-
um. Það væri því að mínu viti mun nákvæmara að þýða hugtakið
„political economy" með orðinu samfélagshagfræði eða jafnvel þjóðríkis-
hagfræði fremur en stjórnmálahagfræði.