Saga - 1998, Page 378
376
RITFREGNIR
Því hef ég svona mörg orð um þessa tiltölulega ómerkilegu nafngifta-
fræði að mér sýnist þetta ritgerðasafn Hannesar alls ekki dæmigert fyrir
hefðbundna samfélagshagfræði í anda gömlu hagfræðimeistaranna frá
18. og 19. öld. Kemur þar ýmislegt til. Mikilvægast er að það er of lítið af
formlegri hagfræðilegri greiningu í ritgerðarsafni Hannesar til þess að
það geti talist hefðbundin samfélagshagfræði. Þá er í ritgerðum hans mun
meira af pólitískri og hagfræðilegri hugmyndasögu, stjórnmálaheimspeki
og jafnvel hversdagslegri stjórnmálaumræðu en tíðkast í hefðbundinni
samfélagshagfræði. Bók Hannesar seilist með öðrum orðum talsvert víð-
ar til fanga en svo, að hún geti talist dæmigert rit í samfélagshagfræði í
skilningnum „political economy".
Bókin skiptist í þrjá hluta. Sá fyrsti, sem nefnist „Sjónarmið", inniheld-
ur sex ritgerðir. Þær snúast einkum um samanburð á markaðskerfinu
annars vegar og miðstýringu hins vegar sem tækjum til að ráðstafa tak-
mörkuðum gæðum. í öðrum hluta bókarinnar og þeim lengsta snýr höf-
undur sér að sérgreindari viðfangsefnum. Þar fjallar hann m.a. um verð-
bólgu, gengi krónunnar, tekjuskiptingu, fiskveiðistjörnun, hagvöxt og fá-
tækt þróunarlanda. Þennan hluta bókarinnar kallar höfundur „Vand-
ræði", sennilega vegna þess að hann telur viðfangsefnin eins konar vand-
ræðamál. í þriðja og síðasta hluta bókarinnar tekur höfundur þjóðfélags-
leg skipulags- og réttarfarsmál til meðferðar og beitir þar m.a. svokölluð-
um almannavalsfræðum (e. public choice theory). Þar er einnig að finna í
viðauka tíu hugmyndir að stjómarskrárbreytingum, hina áhugaverðustu
lesningu.
Niðurstaða höfundar í fyrsta hluta bókarinnar kemur ekki á óvart. Hún
er sú, að sem tæki til að ráðstafa takmörkuðum gæðum samfélagsins með
hagkvæmasta hætti hafi markaðskerfið yfirburði yfir miðstýringu. Mark-
aðsbúskapur sé með öðrum orðum hagkvæmari en áætlunarbúskapur.
Þessi skoðun er raunar hvorki frumleg né umdeild. Flestir hagfræðingar
og aðrir þjóðfélagsfræðingar hafa fyrir alllöngu komist að sömu niður-
stöðu. Að þessu leyti má segja, að höfundur sé að bera í bakkafullan læk-
inn. Ritgerðirnar í þessum hluta bókarinnar eru þó langt frá því að vera
þarflausar. Hannesi tekst nefnilega ágætlega að útskýra markaðskerfið
og starfsemi þess á mjög svo aðgengilegan hátt og á greinargóðri íslensku
og það án þess að gerast sekur um umtalsverðar missagnir. Þetta er um-
talsverður árangur, eins og þeir þekkja sem hafa freistað þess að kenna
flókna sérfræði. Þessi hluti bókarinnar er því mikill fengur fyrir þann
mikla meirihluta þjóðarinnar, sem ekki er beinlínis fræðimenn á þessu
sviði. Þeirra á meðal má nefna stjórnmálamenn og aðra sem starfa að
skipulagi samfélagsmála, framhaldskólanemendur og raunar alla alþýðu
manna, en miklu skiptir, að allir þessir aðilar hafi glöggan skilning á því
mikilvæga skipulagstæki samfélagsins sem markaðskerfið er.