SunnudagsMogginn - 28.08.2011, Blaðsíða 30

SunnudagsMogginn - 28.08.2011, Blaðsíða 30
30 28. ágúst 2011 V ið erum föst í pólitískri kreppu, sem veldur því að hvorki gengur né rekur. Hún snýst um tvö grundvallarmál, aðild að ESB og stóriðju og stórvirkjanir. Stjórn- arflokkarnir eru með og á móti aðild að ESB. Stjórnarflokkarnir eru með og á móti stóriðju og stórvirkjunum. Þessi sjálf- helda veldur stöðnun við uppbyggingu atvinnulífsins eftir hrun. Sú stöðnun er svo byrjuð að hafa áhrif á aðra þætti svo sem velferðarkerfið. Það má ekki miklu muna að sjá megi merki hnignunar í því. Það hefur áður verið djúpstæður ágreiningur í íslenzku samfélagi um hvert ætti að stefna en hann hefur alltaf verið leystur – þar til nú. Það var ágreiningur um, hvort stofna ætti lýðveldi 1944. Það var afgerandi meirihluti fyrir því meðal þings og þjóðar. Það var harkalegur ágreiningur um að- ild að Atlantshafsbandalaginu 1949. Það var skýr meirihuti fyrir því á Alþingi. Það var djúpstæður ágreiningur um varn- arsamninginn við Bandaríkin 1951. Það var afgerandi meirihluti fyrir honum á Alþingi. Það var alvarlegur ágreiningur um land- helgissamningana við Breta 1961. Það var meirihluti fyrir þeim á Alþingi. Það var ágreiningur um Búrfellsvirkjun og álverið í Straumsvík á viðreisnarár- unum. Það var meirihluti fyrir hvoru tveggja á Alþingi. Það var ágreiningur um inngöngu Ís- lands í EFTA undir lok viðreisnaráranna. Það var meirihuti fyrir henni á Alþingi. Það var ágreiningur um hvernig standa ætti að útfærslu fiskveiðilögsögunnar 1972 og lausn 50 mílna deilunnar 1973. Það var meirihuti fyrir hvoru tveggja á þingi. Það var ágreiningur um framhald varn- arsamningsins við Bandaríkin frá myndun vinstristjórnar 1971. Þjóðin afgreiddi það mál sjálf í þingkosningunum 1974. Það var ágreiningur um lausn 200 mílna deilunnar 1976. Það var meirihluti fyrir þeirri lausn á Alþingi. Það var ágreiningur um EES-samning- inn í byrjun tíunda áratugar 20. aldarinnar. Það var afgerandi meirihluti fyrir honum á Alþingi. Það var ágreiningur um Icesave á nýrri öld. Á þann hnút var höggvið í tveimur þjóðaratkvæðagreiðslum. Um öll þessi stóru mál var djúpstæður ágreiningur meðal þjóðarinnar en í öllum tilvikum var sá ágreiningur gerður upp með lýðræðislegum hætti, annaðhvort á Alþingi, í þingkosningum eða með þjóð- aratkvæðagreiðslum. Nú situr ríkisstjórn, sem er bæði með og á móti aðildarumsókninni að Evrópusam- bandinu. Nú situr ríkisstjórn, sem er bæði með og á móti stórvirkjunum og stóriðju. Venjulega standa ríkisstjórnir upp og hætta, þegar þær koma sér ekki saman um meginmál. Það gerði Hermann Jónasson í frægri ræðu á þingi ASÍ í byrjun desember 1958, þegar hann sagði að innan rík- isstjórnar sinnar væri engin samstaða um lausn aðsteðjandi vanda. Hann mundi því biðjast lausnar fyrir sína hönd og síns ráðuneytis. Meginástæðan fyrir því að Jóhanna Sig- urðardóttir fylgir ekki fordæmi Hermanns frá 1958 er sú, að það er orðið trúaratriði hjá forystumönnum Samfylkingar og Vinstri-grænna að sýna, að vinstristjórn geti setið út kjörtímabilið. Það getur hins vegar orðið þjóðinni dýrt, ef þessi stöðnun ríkir í tæp tvö ár í viðbót. Er leið út úr þessari pólitísku kreppu? Hún er til og í raun mjög einföld. Það er hægt að spyrja þjóðina í þjóð- aratkvæðagreiðslu, hvort hún vilji halda samningaviðræðum við Evrópusambandið áfram. Því var hafnað á Alþingi sumarið 2009 að þjóðin sjálf tæki ákvörðun um það, hvort sækja ætti um aðild. Þeir hinir sömu segja nú að þeir vilja fá að kjósa um samn- ing. Auðvitað liggur í augum uppi að verði gerður samningur mun þjóðin hafa síðasta orðið um hann. En þeir, sem þannig tala, geta þá varla verið andvígir því að sú þjóð, sem fékk ekki að taka sjálf ákvörðun um hvort hún vildi sækja um aðild, lýsi skoðun sinni á því eftir það sem á undan er gengið og í ljósi þróunar mála innan ESB og mynt- bandalagsins, hvort hún vill halda þeim viðræðum áfram. Atburðarásin innan ESB gefur fullt tilefni til að slíkrar spurningar sé spurt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Um nið- urstöðu slíkrar atkvæðagreiðslu getur eng- inn deilt, hvorki andstæðingar né aðild- arsinnar. Það er líka hægt að spyrja þeirrar spurn- ingar í sömu þjóðaratkvæðagreiðslu hvort þjóðin vill eða vill ekki leggja í fram- kvæmdir við tilteknar stórvirkjanir og ákveðin skilgreind stóriðjuverkefni. Þar með væri ákvörðun tekin á annan hvorn veginn og það þýddi ekkert fyrir fólk í hvorri fylkingunni sem væri að rífast um þá niðurstöðu. Þetta er raunhæf leið út úr þeirri póli- tísku sjálfheldu sem við erum í og hér hef- ur verið rakin. Með þessum hætti væri hægt að höggva á hnúta í báðum þessum stóru málum, hvað svo sem liði innantómu og tilgangslausu rifrildi við Austurvöll, sem því miður snýst aðallega um ekki neitt. Það virðist orðin föst regla hjá Al- þingi að ræða ekki það sem máli skiptir í hagsmunamálum þjóðarinnar en þeim mun meira um það sem litlu skiptir. Er Samfylkingin andvíg því, að ofan- greindra spurninga sé spurt í þjóð- aratkvæðagreiðslu? Það getur varla verið. Sá flokkur hefur sterka sannfæringu fyrir því að við eigum að ganga í ESB og taka upp evru en jafnframt að við eigum að virkja og byggja upp stóriðju. Varla er flokkurinn á móti því að skoðun þjóð- arinnar liggi fyrir í þessum tveimur mál- um. Eru Vinstri-grænir andvígir því að slík þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram? Það getur varla verið. Þeir segjast vera flokkur hinn- ar opnu og gagnsæju stjórnsýslu. Þeir segj- ast fylgjandi þjóðaratkvæðagreiðslum um meginmál. Hér er tækifæri fyrir VG að sýna að flokkurinn meini eitthvað af því, sem hann segir. Hvernig væri að stjórnarandstaðan láti á þetta reyna á Alþingi? Svona á að rjúfa hina pólitísku sjálfheldu Af innlendum vettvangi … Styrmir Gunnarsson styrmir@mbl.is Á þessum degi, þann 28. ágúst, árið 1862 var háð hrikaleg orrusta við Bull Run í Bandaríkjunum í borgarastríðinu sem þá var í gangi í því landi. Ekkert stríð hefur kostað bandarísku þjóðina jafnmikið mannfall og þetta stríð sem skildi eftir djúp sár í þjóðarsálinni. Upplifun bandarísku þjóðarinnar af seinni heimstyrj- öldinni sem eyðilagði Evrópu og skildi þjóðir þeirrar heimsálfu eftir í áfalli sem þær eru ekki enn komnar yfir, er allt annarskonar en evrópsku þjóðanna. Yfirleitt er dýrðarljómi yfir seinni heimstyrjöldinni og frásagnir bandarískra hermanna af stríðinu meira einsog þeir séu að lýsa þátttöku í einhverri gleði. Engu að síður misstu Bandaríkin yfir 300.000 manns í átökum sínum við nas- istana og hið fasíska Japan sem þá réð ríkjum á Kyrrahaf- inu og ástæðulaust að gera lítið úr fórn þeirra. En borg- arastyrjöldin kostaði þá margfalt meiri mannfórnir og almenningur í landinu fann fyrir hryllingnum á eigin skinni. Lægstu tölur sýna að yfir 600.000 manns hafi fall- ið í borgarastríðinu en aðrar tölur sýna að á aðra milljón manna hafi fallið. Og bandaríska þjóðin var mun fámenn- ari á 19. öld en í dag. Í dag búa yfir 300 milljónir í Banda- ríkjunum en þá var þjóðin ekki nema tæpar 30 milljónir. Styrjöldin braust út vegna ólíkra hagsmuna sem voru farnir að kljúfa þessa þjóð í tvennt. Í norðrinu voru öflug iðnaðarríki en í suðrinu var landbúnaður og þá sér- staklega bómullarrækt öflug. Einna harðvítugust voru átökin um hvort skyldi leyfa þrælahald eða ekki. En vegna þess öfluga kapítalisma sem hafði þróast í norðrinu var engin þörf fyrir þræla og fyrirlitning á þrælahaldi suð- urríkjamanna óx jafnt og þétt í norðrinu. Repúblikaninn Abraham Lincoln, sem var andstæðingur þrælahalds, vann demókratann Stephen A. Douglas í kosningum í nóvember árið 1860, þar sem atkvæðin skiptust algjörlega milli norðurs og suðurs. Lincoln vann nánast í öllum hér- uðum norðurs og vesturs, en í engu í suðrinu. Í apríl árið 1861 stofnuðu suðurríkin sjálfstætt ríki og gerðu árás á hermenn ríkjasambandsins. Stríðið stóð frá árinu 1861 til 1865 að norðanmenn höfðu sigur. Ein fyrsta alvöru orr- ustan átti sér stað við Bull Run árið 1861 þegar Norð- urríkjamenn töldu sig geta brotið þessa uppreisn Suð- urríkjamanna á bak aftur en voru sigraðir við Bull Run um sumarið 1861. Suðurríkjamenn höfðu síðan betur í flest- um orrustum en náðu aldrei að valda Norðurríkjamönn- um slíku tjóni að þeir gæfust upp. Í seinni orrustunni við Bull Run varð ósigur Norðurríkjamanna enn meiri en í fyrri orrustunni. John Pope, foringi norðanmanna, taldi sig hafa króað Thomas J. Jackson af eftir að hann hafði ráðist á birgðarstöðvar Popes. En yfirherforingi Suð- urríkjanna, Robert E. Lee, var nálægt og samhæfðar árásir Lee og Jackson brutu norðanmenn á bak aftur þannig að þeir misstu yfir tíu þúsund manns en Suðurríkjamenn að- eins rúmlega þúsund. Sigur Suðurríkjamanna í orrustunni var enn ein sönnun þess að þeir höfðu miklu betri herforingja en norð- anmenn, en þótt þeir ynnu hverja orrustuna á fætur ann- arri skiptu taktískir yfirburðir þeirra engu máli á end- anum. Því þeir voru ekki nógu strategískir til að vinna stríðið og ekki gátu pólitíkusar Suðurríkjanna heldur nýtt sér taktíska yfirburði herforingja sinna til sigurs. Þannig urðu taktískir yfirburðir suðurrísku herforingjanna Ro- berts E. Lee og Thomas J. Stonewall Jacksons aðeins til að lengja stríðið og gera óumflýjanleg endalok Suðurríkjanna sársaukafyllri. Þegar litið er til iðnaðarmáttarins sem var í norðrinu voru úrslitin hugsanlega ljós frá upphafi, en framleiðslan þar var margföld á við það sem var í suðrinu. Áhugaverð afleiðing af stríðinu er að eftir það og fram á annan tug 20. aldar kusu hörundsdökkir Bandaríkjamenn nánast allir repúblikana en aldrei demókrata. Það átti síð- an eftir að breytast. borkur@mbl.is Orrustan við Bull Run Norðanmenn hvílast rétt fyrir orrustu. Það er hrikalegt hversu margir slíkir ungir menn voru sendir í dauðann. ’ Suðurríkjamenn höfðu síðan betur í flestum orrustum en náðu aldrei að valda Norð- urríkjamönnum slíku tjóni að þeir gæfust upp. Rithöfundurinn Ambrose Bierce barðist með norð- anmönnum og reynsla hans af stríðinu gerði hann bitran. Á þessum degi 28. ágúst 1862

x

SunnudagsMogginn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: SunnudagsMogginn
https://timarit.is/publication/785

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.