SunnudagsMogginn - 28.08.2011, Blaðsíða 33

SunnudagsMogginn - 28.08.2011, Blaðsíða 33
28. ágúst 2011 33 Skar og skarkali | 3 ekki í neinni sérstakri uppreisn gegn for- eldrum sínum, heldur öllu frekar í góðu samráði við þau. Það vill iðulega gerast að ef kennarar fetta fingur út í gattneyslu þjóðarinnar í kennslu- stundum og börn fara í góðri trú með vitn- eskju sína heim og reyna tala um fyrir for- eldrum sínum, þá er þeim snarlega kippt úr skólanum. Auk þess er það mjög trúlegt að kennarinn, hvort sem það er karl eða kona, noti sjálfur gatt, a.m.k. á tyllidögum. Oft má sjá bílstjóra sem þurfa að keyra langar vegalengdir innan Jemen, með út- roðnar kinnar af gatti, enda hjálpar það þeim að halda sér vakandi og einnig er það algengt meðal stúdenta sem nýta sér efnið við námið. Það leysist á morgun Frá klukkan tvö til fimm á hverjum degi hefst svo hinn eiginlegi gatttími dagsins og lífið dettur í hægagang. Mjög algengt er að karlmennirnir komi saman, þar sem þeir geta setið makindalega og notið stund- arinnar. Laufblöðunum er troðið í aðra kinnina í stóran gúlp svo hún lítur út eins og útblásinn blaðra, en þeir kyngja þeim ekki, heldur bæta frekar í smátt og smátt yfir daginn á meðan eitur þess smýgur út í blóð- rásina. Með þessu drekka þeir síðan annaðhvort vatn eða dísætt te og ræða málin, meðal annars vandamál þjóðarinnar sem eru jú ærin. Í vímunni, virðast svörin oft liggja ljós fyrir og sagt er að Jemenar leysi á hverjum degi vanda þjóðar sinnar sem þeir eru ákveðnir í að ganga í „á morgun“. Áður en það gerist, eru menn komnir að nýju á gatt- markaðinn að sækja skammtinn sinn og þannig líða dagarnir, vikurnar og árin. Máttlausar takmarkanir Um tíma höfðu stjórnvöld töluverðar áhyggjur af neyslunni og reyndu að sporna við henni með einhvers konar takmörk- unum, en aðgerðir þeirra þóttu þó frekar máttleysislegar og var auk þess afar illa tekið. Tilskipunum var heldur ekki fylgt eftir af neinni alvöru og því féll ákvörðunin fljótt um sjálfa sig. Bæði forsetinn og aðrir ráðamenn tyggja gatt öðru hverju og því var í raun ekki hægt að búast við mikilli hörku frá yfirvöld- um við að framfylgja banninu. Auk þess er litið svo á að ein af ástæðunum fyrir öllu ríkidæmi forsetans sé sú, að á með- an þjóðin hefur legið í dvala og dróma gatt- vímunnar hafi hann getað nýtt sér tækifærið og makað krókinn. Það hefur hann getað gert óáreittur hingað til, eða allt þar til mótmælin í landinu gegn honum hófust. Þessi einbeittu mótmæli í landinu und- anfarið hafa komið mörgum þeim sem til þekkja í Jemen töluvert á óvart og ekki að- eins það, í þessu ríkjandi karlasamfélagi var það kona sem átti upptökin. Þó vissulega hafi tilefni til mótmæla verið næg, fannst flestum alveg eins líklegt að Jemenar myndu láta sér nægja að mótmæla fyrir hádegi, en koma sér síðan einhvers staðar vel fyrir og tyggja gatt eftir hádegi. Það hefur hinsvegar ekki gerst og nú er lík- legt að brátt muni forsetinn, sem ríkt hefur í rúma þrjá áratugi, láta sér segjast og víkja. Er Þyrnirós tilbúin að vakna? En hvað er líklegt að muni gerast í kjölfarið á því að Ali Abdullah Saleh hrökklast frá völd- um? Munu Jemenar hrista af sér drómann og drungann, takast á í alvöru við þau fjölmörgu vandamál sem blasa við samfélaginu, skýrum og vímulausum augum? Telja þeir tímabært að Þyrnirós vakni og komi sér loks á fætur, hafi sig til og skapi sína eigin framtíð? Það er því miður ekki hægt að kenna Saleh um allt það sem aflaga hefur farið í Jemen, né er hægt að búast við kraftaverkum og stökki í framförum þótt hann víki. Margir eru á því, að Jemenar verði fyrst og fremst að horfast í augu við sinn eigin vanda og taka á honum sjálfir og hann sé sá að þjóðin er meira og minna í eiturlyfjavímu lunganum úr deg- inum, alla daga ársins. Þetta er ekki skemmtileg hefð, eins og þeir vilja sjálfir meina, heldur djúpstæður vandi sem bróðurpartur þjóðarinnar glímir við. En til þess að ástandið lagist þarf að fara fram kröftugt forvarnastarf og er talað um það sem lykilatriði að þjóðin hljóti betri menntun en hingað til. En til þess að árangur náist, jafnvel með aðstoð alþjóðasamfélagsins, þurfa Jemenar að byrja á því að viðurkenna vandamálið. Og þar eiga þeir langt í land. ’ Talið er að um 80% allra karlmanna í landinu tyggi gatt og u.þ.b. 50% kvenna. Börn byrja oft í kringum 12 ára aldurinn að nota efnið og þá ekki í neinni sérstakri uppreisn gegn foreldrum sínum, heldur öllu frekar í góðu samráði við þau. Jemenskir karl- menn með gatt- gúlp í kinninni.

x

SunnudagsMogginn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: SunnudagsMogginn
https://timarit.is/publication/785

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.