Fréttablaðið - 08.12.2011, Page 70
8. desember 2011 FIMMTUDAGUR54
B
jarni fæddist á Mel
á Mýrum og ólst upp
í mikilli örbirgð.
Árið 1877 hélt hann
með góðra manna
stuðningi til náms
í Reykjavík. Að afloknu stúdents-
prófi fjórum árum síðar tók við nýr
kafli í lífi Bjarna.
„Slark og drasl“
Engin stúdentsveisla var haldin í
Skutulsey á Mýrum þar sem Þor-
steinn Helgason og Guðný Bjarna-
dóttir hokruðu með ómegðina í
þrjú ár eftir að þau fluttu úr hálf-
hrundum bæjarhúsum á Mel vorið
1881. Skutulsey er vestan við
Hjörsey, grasgefin og hlunninda-
rík á mælikvarða þess tíma og þar
gat Þorsteinn róið til fiskjar. Þau
hjón fluttu síðan að Presthúsum á
Kjalar nesi 1884 en Arndís dóttir
þeirra sem var um fermingu varð
eftir á Mýrum. Í Presthúsum voru
þau næstu níu árin og fjölskyldan
hallaðist að sjávarsíðunni. Þor-
steinn var einnig um tíma í Engey.
Óvíst er hvort Bjarni kom nokkurn
tíma í Presthús. „Ég hef einu sinni
komið til foreldra minna og verið
hjá þeim eina nótt síðan 1880,“
skrifaði hann árið 1890, „yngri
systkini mín þekki ég ekki, ekki
einu sinni í sjón. Mér hefur fund-
ist alla þá tíð síðan ég fór heiman
að, og í skóla, að ég væri ósköp ein-
mana í heiminum; ég átti engan í
Reykjavík sem lét sér nokkuð annt
um mig; ég varð að gjöra það allt
sjálfur, ákvarða og afráða allt
einn.“ Svo virðist sem kali hafi náð
að búa um sig innra með honum í
garð foreldra sinna.
Það var allt annað að vera stúd-
ent en skólapiltur. Þó að Bjarni hafi
notið ölmusustyrkja og unnið fyrir
sér, safnaði hann skuldum sem hann
hafði á bakinu að prófi loknu. Slark
og skemmtun tóku við, feimnin
hrundi af honum og skemmtanalíf
breiddist yfir einsemdina. „Ég var
feiminn þegar ég var ungur, og í
skóla, en öll feimni fór aftur af mér
á mínum stúdenta árum, við allt
það slark og drasl sem ég þá gekk
í gegnum.“ Hann gerði samt ekkert
ljótt eða til skammar, „það var þetta
sífellda knæpulíf; spila „billiarð“ og
drekka „baierskt öl“, og nenna ekki
heim að éta dögunum saman“ en
samt átti hann alltaf fyrir fæði og
húsnæði. „Reykjavík kallaði mig
þann iðnasta og stærsta drykkju-
mann „síðan þeir Þórður (Thór) og
Ásgeir fóru“ sagði bærinn.“
Bjarni var vel að manni en lenti
samt aðeins einu sinni í slags-
málum, við mann sem síðar afrekaði
það að lenda í slagsmálum við vakt-
arana að næturlagi, brjóta „niður
allt græna grindverkið hennar frú
Benediktsen“ og lenda í úti stöðum
við yfirvöld fyrir vikið. „Hann
er mjög óeirðasamur „við brenni-
vín“; hann er sá eini af stúdentum,
sem ég varð einu sinni að slást við
dálitla stund; hann gat ekki komið á
mannamót marga daga þar á eftir,
með sitt eigið andlit.“
Blankur eins og kirkjurotta
Bjarni flutti sig vestur yfir lækinn
og gerðist kostgangari í húsi sem
hét Þerney og fékk sér vinnu af
ýmsu tagi, svo sem ritarastörf þar
sem hann gat verið fínn í tauinu,
umgengist betri borgara og þurfti
ekki lengur að flengjast um landið
í vinnumennsku. Rétt eftir skóla-
slit kom þingið saman og Bjarni
gerðist þingskrifari. Flestir þing-
menn voru aðsópsmiklir héraðs-
höfðingjar og einn þeirra var Lárus
Blöndal, sýslumaður Húnvetninga.
Þegar þingi var slitið með lúðra-
blæstri söng Lárus „með lúðrunum
eitt eða tvö lög, Kong Christian stod
ved højen Mast, og eitt annað, og
söng svo vel og svo sterkt, að fleiri
undraði á því en mig; hann var svo
mjúkur eftir Champagnið í lands-
höfðingja-miðdeginum“.
Með gott próf úr Lærða skólanum
smeygði Bjarni sér í raðir heldra
fólks og samdi sig að háttum
þess þó að stundum gengi hann
um atvinnulaus, húsnæðislaus og
auralaus og tónlistin eina huggun-
in. Einn besti vinur hans á þessum
tíma var Árni „afi“ Jóhannsson,
söngmaður góður sem kunni hrafl
af gömlum lögum og kenndi Bjarna
þingeyskar hestavísur. Hann var
tveim árum eldri en Bjarni en var
enn í Lærða skólanum og útskrif-
aðist vorið 1886. Líklega var það
vegna þess að hann var eldri en
aðrir skólasveinar og
snemma sköllóttur
að hann fékk viður-
nefnið afi. Sumarið
1884 var Árni í Reyk-
holti og Bjarni skrif-
aði honum langt bréf
í galgopalegum stúd-
entastíl, sagðist vera
„að drepast úr leið-
indum … blankur
eins og kirkjurotta“,
húsnæðislaus og
atvinnulaus..“ ...
Langaði í lögfræði
eða tónlist
Bjarni hafði áhuga
á að lesa lögfræði
eða tónlist í Höfn en
hafði engin efni á því.
Hann ákvað að hefja
nám í Prestaskól-
anum og að afloknu
námi réð tilviljun því
að hann gerðist prest-
ur á Siglufirði, litlu þorpi nyrst á
Norðurlandi. Hann var þá orðinn
leynilega trúlofaður Sigríði Blön-
dal Lárusdóttur, sýslumanns dóttur
á Kornsá í Vatnsdal. Tónlist var
mikilvægur þáttur í lífi Bjarna og
hann fór að safna þjóðlögum innan
við tvítugt. Þjólagasöfnun hans átti
eftir að bjarga stórum hluta af þjóð-
lagaarfi Íslendinga frá glötun.
Söngur á norðurhjara
Tónlistin getur auðveldað mönn-
um að takast á við nýjar aðstæð-
ur. „Þegar hvasst er, þá syngjum
við tvísöng, stormurinn og ég;
ég er alltaf raulandi yfir fjöllin,“
segir Bjarni í bréfi til Sigríðar.
Hann naut nýrra áskorana og þar
sem þörf krafði fór hann strax að
leita leiða til úrbóta. Tónlistin varð
ein leið hans til að tengjast sam-
félaginu með virkari hætti en ella
hefði orðið.
Strax við sína fyrstu messu
í Hvanneyrarkirkju tók Bjarni
eftir því að söngurinn var ekki
nema rétt þolanlegur og organist-
inn hálfgerður klaufi. Söngurinn
var svipaður á Kvíabekk en þar
kunni enginn á orgelharmóníið.
Strax fyrsta veturinn sagði Bjarni
að hann vildi helst hafa stór-
ar og fallegar kirkjur með fögr-
um söng, svo hann safnaði fólki í
kirkjukór sem hann fór að þjálfa.
Betri kirkjusöngur var skref í átt
til nútímavæðingar í afskekktu
örsamfélagi Siglufjarðar. Bjarni
notaði kirkjukórinn til að tengja
fólk saman með nýjum hætti, sam-
hæfður söngur kom í stað þess að
hver syngi með sínu nefi.
Bjarni stundaði líka tónlist af
kappi fyrir sjálfan sig, hafði alltaf
orgelið úr kirkjunni hjá sér í Mað-
dömuhúsinu þegar
ekki var messað,
æfði sig og stúder-
aði tónlist, útsetti
það sem hann kall-
aði sína tónlist,
sem var eftirlætis-
tónlistin, skrifaði
nótur og sendi Sig-
ríði. Enn tengdi
tónlistin þau betur
en allt annað þó
einungis væri það
bréflega.
Þó að Bjarni væri
feginn að sleppa frá
Reykjavík og vera
laus við stefnu-
leysi stúdents -
áranna þurfti hann
haldreipi og stefnu
í lífinu. Ástin og
tónlistin gæddu til-
veruna tilfinninga-
legu inntaki og urðu
þannig að kjölfestu.
Hann skrifaði Steingrími Johnsen
kennara sínum, vini og söngfélaga
um „Musik sem interesserar mig
svo mikið“. Nýja, erlenda tónlistin
sem unga fólkið lék og skrifaði upp
af áfergju var margvísleg. Hver og
einn safnaði eftirlætislögum eftir
smekk þar sem samsetningin var
alltaf einstaklingsbundin. „Den
åfvergifna gjörir „lukku“ hjá þér,
það vissi ég nærri fyrirfram, – en
einnig hjá piltum,“ skrifar Bjarni
og lýsir því hvernig karakter
þeirra laga sem hann valdi sér féll
að persónu hans sjálfs:
Karakterinn í því litla lagi er
þannig, að mér finnst náttúrlegt
að það öðrum lögum fremur minni
þig á mig og mín litlu uppáhalds
lög. Þessum mínum litlu lögum,
sem einstöku sinnum hafa skemmt
þér ofurlitla stund, en mér miklu
oftar og miklu lengur, þeim gleymi
ég víst ekki í vetur. Þvert á móti
eiga þau nokkurn þátt í því hvað
mér oft og tíðum líður vel; það
er gaman að spila sín uppáhalds
stykki, og sem einhverjar þægi-
legar endurminningar eru hnýtt-
ar við, að hlusta á sjálfan sig spila
nærri því mechanískt, rétt eins og
annar spili, en vera með hugann
einhvers staðar úti í heiminum
á fjarlægum stöðum og liðnum
stundum. Það er ótrúlegt að maður
skuli geta haldið út til lengdar að
spila einn, án þess nokkur hlusti
á mann. Af nýjum stykkjum læri
ég mjög lítið, af því ég hef engar
nýjar nótur; ég spila mest þetta
gamla. Alverdens Melodier voru
teknar af mér fyrir jól, ég fæ þær
kannske aftur í sumar.
Samhliða prestsstörfunum á
Siglufirði var Bjarni umsvifa-
mikill á ýmsum sviðum. Hann var
stórhuga framkvæmdamaður og
veraldlegur jafnt sem andlegur
leiðtogi í bæjarfélaginu. Síldar-
ævintýrið var að hefjast og litla
þorpið að breytast í líflegan bæ.
Uppgrip og leyniknæpur
Ásýnd bæjarins breyttist fljótt.
Siglfirðingar veiddu sinn hákarl og
sinn þorsk, en hákarlaskipin, sem
fram að þessu höfðu þótt myndar-
legir farkostir, urðu smá við hlið-
ina á stóru norsku síldarskipunum
og lýsisbræðslan lítilfjörleg í sam-
anburði við síldarsöltun og síldar-
bræðslu. Bryggjur skutust í allar
áttir frá eyrinni og út á fjörðinn
þar sem skip lá við skip, stórýsi
voru byggð yfir starfsemina og
minni hús yfir fólkið en lítið var
hugsað um þrifnað og frágang í
öllum hamaganginum, sjórinn tók
við sorpinu og í sumarhitum gat
stæk ýldulykt lagst yfir þorpið.
Á nútímamælikvarða var Siglu-
fjörður fjarri því að vera stór:
varla nema um fimmtíu hús, hélt
sænski listamaðurinn Albert
Engström sem var á ferð um pláss-
ið árið 1911. Húsin voru þó hátt í
sjötíu, mörg af vanefnum byggð
úr torfi, timbri, bárujárni, innan
um tjarnir og votlendi og óskipu-
leg ásýndum. Á höfninni voru
skip af „öllu tagi, gufuskip, segl-
skip, lítil fiskiskip, og innst stórir
skipsskrokkar og sátu þar máfar
í röðum, þúsundum saman“. Nátt-
úran og umhverfið heilluðu þenn-
an glaðlynda Svía, hvort sem það
var nýfallinn snjór í fjalla brúnum
sem bar við himin, fiskilyktin
sem barst með golunni eða risa-
vaxnir tunnustaflarnir í kringum
geymsluhúsin. Engström kynnt-
ist Siglufirði frá mörgum hliðum:
„Við skoðuðum bryggjurnar og
geymsluhúsin, héngum inni í búð-
inni og gáfum okkur á tal við fólk,
sem gat gefið okkur dálitla innsýn
í daglega lífið. Við heimsóttum
hinn unga og sérstaklega viðkunn-
anlega lækni á staðnum, Guðmund
T. Hallgrímsson, en hann er maður
áhugasamur um margt. Við kynnt-
umst … Hafliða Guðmundssyni,
hreppstjóranum á Siglufirði. Við
sáum einnig gömlum lækni bregða
fyrir, sem rölti um rambandi full-
ur, og gömlum sýslumanni eins
fullum.“ Engström sagði að þrátt
fyrir áfengisbann væru 23 leyni-
knæpur sem Norðmenn og Fær-
eyingar sæktu. Á laugardagskvöld-
um kæmi allur flotinn að landi og
„inn í höfn og eitt, tvö, þrjú þús-
und fiskimenn ganga á land. Þá er
auðvitað þörf á kránum. Og stund-
um lendir þeim saman, nokkur
hundruð víkinga hvorum megin.“
Í landlegum gat allt logað í slags-
málum svo lögregluyfirvöld gátu
lítið annað gert en drekka sig full
líka. Lítið þýddi að ætla að koma
í veg fyrir innflutning á áfengi,
„þar sem stundum mörg þúsund
tunnum á dag, tómum eða fullum
af salti, er velt á land. Það er ekki
alltaf salt í tunnunum og fyrir hina
fáu tollsnuðrara er ekki annað að
gera en að víkja úr vegi til þess að
komast hjá limlestingum af þessu
veltandi vöruflóði.“
Íslendingar drekka sig fulla
Norðmaður sem Engström hitti
sagði: „Hitti maður Íslending,
drekkur hann sig alltaf fullan, hve
mikill bindindismaður sem hann
er.“ Engström spurði hvort prest-
arnir fái sér ekki bæði snúning og
í staupinu og Norðmaðurinn svar-
aði: „Tja, til dæmis presturinn í
X, hann drekkur en dansar ekki,
prestfrúin drekkur ekki, en dans-
ar vel!“ Hvort hann átti hér við
presthjónin á Siglufirði er óvíst.
Síldarsöltunin heillaði Eng-
ström: „Undir kvöldið kemur fiski-
flotinn inn. Á bryggjunum verður
krökkt af fólki og vinnan hefst.
… Hugsið ykkur mergð af fólki,
skipulagslausu að sjá, en allt fer
þó í röð og reglu. „Konur kverka
og salta, konur í hinum furðuleg-
ustu búningum, í olíubuxum, kné-
háum stígvélum og með hættuleg
vopn í höndum, alblóðugar til axla.
Brátt sést ekki í neitt fyrir blóði
og síldar hreistri. Loftið verður
þrungið einhverjum eimi, sem mér
virðist sambland af hafi, lífi og
hreysti.“ Síldin flæddi í land þrot-
laust fram á nótt, fólk vann eins
og vélar meðan máva gerið reif í
sig úrganginn. „Ég renni mér fót-
skriðu í blóði og slógi og geng á
land til þess að sjá, hvernig þetta
líti út þaðan séð. Það rökkvar ofur-
lítið og í þessari birtu verður manni
á að hugsa sér mannsöfnuð í villtu
svalli löngu áður en sögur hófust.
Inni í miðri mergðinni er John
Wedin í skinnjakka sínum, eins og
hann væri æðstipresturinn – því að
þetta er á hans bryggju. Mergðin af
máfunum eykur áhrifin. Og fjall-
ið gegnt okkur, sem öðru hvoru er
hulið dimmum ský jum, dökkblátt
og alvarlegt, jafnvel ógnandi.“
SÍLDARÆVINTÝRI Þegar sænski rithöfundurinn og teiknarinn Albert Engström kom til Siglufjarðar sumarið 1911 voru talin á þriðja
hundrað skip í höfn. Þessi mynd frá Siglufirði á þessum árum er af póstkorti.
Varð að gjöra allt sjálfur
Bjarni Þorsteinsson var prestur á Siglufirði og helsti forystumaður bæjarins þegar síldarævintýrið byrjaði. Bjarni var þjóð-
kunnur lagahöfundur, en hann hóf og þjóðlagasöfnun innan við tvítugt og bjargaði þannig stórum hluta af þjóðlagaarfi Íslend-
inga frá glötun. Viðar Hreinsson hefur skrifað ævisögu Bjarna, Eldhuginn við ysta haf, sem Fréttablaðið grípur hér niður í.
Á AKUREYRI Bjarni á Akureyri ásamt
vinum sínum árið 1890. Bjarni er lengst
til vinstri, þá skólabróðir hans Árni „afi“
Jóhannesson og vinur hans Stefán
Stephensen umboðsmaður.
Það er gaman að
spila sín uppá-
halds stykki, og
sem einhverjar
þægilegar endur-
minningar eru
hnýttar við, að
hlusta á sjálfan
sig spila nærri
því mechanískt...