Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.1981, Side 187
Ritdómar
185
vallarbyggingu setningarinnar korna skýrar fram. Nærvera þess í (28)b gefur til
kynna að það sem á eftir kemur sé nafnliður (og þá (yfirborðs)andlag með teljd).
Eins og áður hefur komið fram virðist HÞ gera ráð fyrir því að munurinn á
hinum tveimur gerðum af það fremst í setningu sé m. a. að gervifrumlagið sé
merkingarlaust formsatriði en „baklæga“ það-ið hafi aftur merkingarlegu hlut-
verki að gegna. Hins vegar virðist af því sem nú var minnst á svo sem „baklægt"
það geti í vissum tilvikum þjónað formlegum tilgangi þegar það stendur inni í
setningu. (Eða e. t. v. eru öll það sem þjóna formlegum tilgangi „gervi-það“
(gervi-þöð'?), og þá gervi-það ekki bundið við stöðu fremst í setningu.) Það er
spurning sem vert er að gefa gaum hvort í þessu felst einhver mótsögn í greiningu
HÞ. Hann segir aldrei berum orðum að merkingar- eða hlutverksmunurinn sé
skilgreiningaratriði í aðgreiningu á hinum tveimur gerðum af það, þótt ég hafi
þóst geta lesið það milli línanna. Hinar „setningafræðilegu“ röksemdir virðast
vega þyngra, og meðal þeirra er sú sem leiða má af muninum á hegðun Top í
(23)a og b. Að svo miklu leyti sem þetta verður ekki rakið til einhverra annarra
orsaka virðist svo sem það réttlæti einhvers konar greinarmun. Hins vegar er
e. t. v. ástæða til þess að varast það að búa til nýja flokka eða kategoríur nema
rík ástæða sé til. Ef það er gert, verður hómónýmía (samhljóða orð en mismunandi
merking) á hverju strái; „baklægt það“ og „gervi-það“ eru hómóným í einhverjum
skilningi, a. m. k. skv. greiningu HÞ. Lyons (1977:553 o. áfr.) leggur til að betri
vinnuaðferð í merkingarfræði sé að nota pólýsemíu (margræð orð, sama orð en
fleiri en ein merking) eins mikið og hægt er („maximize polysemy"), þ. e. að greina
ekki milli fleiri ólíkra orða (lexemes) en nauðsynlegt er. Ef þessi vinnuregla er
yfirfærð á setningafræðina, þá virðist samkvæmt henni æskilegra að hafa eina
setningafræðilega afleiðslu fyrir hvert setningaform meðan mögulega er stætt á
því. Það má vel vera að hér sé um að ræða dæmi þar sem ekki verður komist hjá
því að hafa tvær setningafræðilegar kategoríur (eða fleiri) á hlutum sem líta svipað
út, en ég vona að mér leyfist að efast.
4.
Tveir stærstu kaflarnir sem eftir eru, 5. og 6. kafli, eru helgaðir umræðu um
það hvort tvær gerðir „frumlagslausra“ aukasetninga (þar sem sögnin stendur
þá í nafnhætti) beri að leiða af „baklægum formum" þar sem frumlag stendur,
með því að fella niður viðkomandi frumlag með ummyndun eða færa það út
úr setningunni. Hér er annars vegar um að ræða setningar af gerðinni:
(29)a Jói hótaði að hætta í skólanum
b María bannaði Jóa að hæíta í skólanum
þar sem málmyndunarfræðingar hafa stungið upp á að gera ráð fyrir því að
„merkingarlega" frumlagið fyrir hœtta standi í djúpgerð og sé fellt niður með
ummyndun, í (29)a vegna þess að það er hið sama og frumlag sagnarinnar hóta,
og í (29)b vegna þess að það er það sama og andlagið með banna. Þessi sambönd
kallar HÞ samkvæmt málvenju ummyndanamálfræðinga „Equi-constructions“; ég
mun hér kalla þetta nafnháttarsetningar.