Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2011, Blaðsíða 140
13«
Höskuldur Þráinsson
heimspeki (sjá t.d. Chomsky 1966, 1993). Meira máli skiptir þó að með
þeirri áherslubreytingu sem áður var nefnd, þ.e. því að beina athyglinni að
málkunnáttunni og „innra málinu“ (sjá t.d. Chomsky 1965, 1968, 1973,
1981, 1986), lagði Chomsky í raun grunn að nýrri tegund af mörgum
undirgreinum eða hliðargreinum málvísinda og tengslum málvísinda við
aðrar greinar.6 Þetta á m.a. við um sálfræðileg málvísindi (sjá t.d. Jörgen
Pind 1997, 2005; Pinker 1994), rannsóknir á barnamáli og máltöku (sjá
t.d. Sigríði Sigurjónsdóttur 2005), rannsóknir á tileinkun annars máls
(sjá t.d. Bley-Vroman 1989, Flynn, Martohardjono og O’Neil (ritstj.)
1998), rannsóknir á málstoli (sjá t.d. Sigríði Magnúsdóttur 2005), rann-
sóknir í sögulegum málvísindum (sjá t.d. Hale 2007, Eirík Rögnvalds-
son 2005a, Margréti Guðmundsdóttur 2008). Enn má nefna að margt af
því sem fengist er við innan máltækni eða tungutækni hvílir á rannsókn-
um sem hafa verið unnar innan málkunnáttufræðinnar svokölluðu (sjá
t.d. Eirík Rögnvaldsson 20050). Nú á síðustu árum hefur svo komið fram
undirgrein sem kalla mætti líffræðileg málvísindi (e. biolinguistics), þar
sem líka verður snertiflötur við mannfræði og þróunarsálfræði (sjá t.d.
Jörgen Pind 2005, Chomsky 2005). Gott yfirlit yfir það sem málið snýst
um í þeim fræðum má fá af því að lesa grein eftir Hauser, Chomsky og
Fitch (2002) og viðbrögð ýmissa málfræðinga við þeirri grein (sjá t.d.
Pinker og Jackendoff 2004, Fitch, Hauser og Chomsky 2005, Jackendoff
og Pinker 2005; sbr. líka Anderson 2004). Hér má líka nefna hugræn
málvísindi (e. cognitive linguistics), en það hugtak nær yfir býsna fjölbreytt
svið (sjá t.d. Evans, Bergen og Zinken 2007). Mjög margir, eða kannski
flestir, sem telja sig starfa innan þess víða ramma líta þó svo á að þeir séu
að lýsa málkunnáttunni sem býr innra með okkur, þ.e. hinni hugrænu
hlið málsins, eins og nafnið bendir til. Ágreiningurinn við Chomsky og
sporgöngumenn hans er því ekki um „efnislegu stoðina" sem lýst var hér
framar heldur um þá formlegu. Spurningin snýst þá fyrst og fremst um
það hvort rétt sé að ganga tiltölulega langt í því, eins og Chomsky gerir,
að lýsa ákveðnum þáttum tungumálsins á formlegan hátt (t.d. setninga-
gerð og merkingu) og gera síðan grein fyrir samspili þessara þátta við
atriði sem varða málnotkun, menningu, samfélag o.s.frv. Hin leiðin, sem
ýmsir fylgismenn hugrænnar málfræði aðhyllast t.d., er þá fremur fólgin
i því að horfa á þetta sem eina órjúfanlega heild. Evans, Bergen og Zinken
lýsa þessu einmitt með eftirfarandi orðalagi um viðfangsefni þessa „skóla'
6 Þessi tengsl eru til umræðu í ýmsum köflum bókarinnar Chomsky: Mál, sál ogsam-
félag sem spratt upp úr því þverfaglega námskeiði sem nefnt var í upphafi þessarar greinar
(Höskuldur Þráinsson og Matthew Whelpton (ritstj.), væntanl.).