Vera - 01.12.1983, Blaðsíða 35
Stefnan í dagvistarmálum 1984
Nú þegar er hægt að gera sér allgóða grein fyrir
stefnu ríkisstjórnar og meirihluta borgarstjórnar í
dagvistarmálum. Skv. lögum ber ríkinu að greiða
helming kostnaðar við byggingu dagvistarheimila á
landinu öllu. Greiðsla ríkisins skiptist jafnt niður á
fjögur ár.
í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar fyrir árið 1984 er
upphæðin sem verja á til þessa verkefnis 30 milljónir. Hún
er 3 milljónum kr. hærri en í fjárlögum ársins í ár. Um er
að ræða 11% hækkun milli ára á metári verðbólgu í
landinu! Skv. upplýsingum menntamálaráðuneytisins
þýðir þetta, að ríkið mun hvergi nærri standa við þegar
gerðar skuldbindingar sínar, hvað þá heldur leggja nokk-
uð fram til nýbygginga á næsta ári. Bygging dagvistar-
heimila á greinilega ekki upp á pallborðið hjá ríkis-
stjórninni, fremur en annað sem miðar að sameiginlegri
þjónustu.
En hvernig er þá stefna íhaldsmeirihlutans í borgar-
stjórn?
I byrjun október sl. lögðum við fram í félagsmálaráði
tillögu um að 4% af tekjum borgarinnar næsta ár og út
kjörtímabilið yrði varið til uppbyggingar dagheimila og
skóladagheimila í borginni, eri þar með yrði hægt að gera
verulegt átak í þessum mikilsverða málaflokki. Ihalds-
meirihlutinn greiddi atkvæði gegn þessari tillögu. Það er
fremur óvenjulegt að meirihlutinn hafi fyrir að greiða til-
lögum mótatkvæði, venjulega láta þeir nægja að sitja hjá
og tryggja þannig að tillaga fái ekki framgang. En við
þessa afgreiðslu lá greinilega mikið við svo þeir höfðu
fyrir því að rétta upp hendina gegn henni. Klár stefna þar.
í borgarstjórn fyrir skömmu fluttum viö tillögu um að
borgarstjórn skoraði á fjárveitingarnefnd og þingmenn
Reykjavíkur að hækka ríkisframlagið frá því sem er í
fjárlagafrumvarpinu. Þessi tillaga fékk ekki stuðning
meirihlutans. Borgarstjóri lagði til að henni yrði vísað til
borgarráðs og gerðar fjárhagsáætlunar borgarinnar. Við
mótmæltum þessari afgreiðslu, sem í raun þýðirað málið
er svæft. Þessi afgreiðsla er því enn eitt dæmið um hug
meirihlutans til þessa málaflokks, því með henni er hann í
raun að lýsa yfir velþóknun á niðurskurðaráformum ríkis-
stjórnarinnar. Meirihlutinn virðist nefnilega hugsa sem
svo: - því minna framlag sem kemur frá ríkinu - því
minna þurfum við að leggja fram. Þá höfum við meiri
peninga í plastgras, mannlausa byggð í Grafarvogi, und-
irgöng og slaufur undir og yfir Miklubrautina svo allir
bílarnir komist í 30 þúsund fermetra verslanahöllina í
Nýja miðbænum.
Enn eitt dæmið um stefnuna í dagvistarmálunum. Á
þessu ári lagði borgin fram 9 milljónir í dagvistarbygg-
ingar. í raun verður einungis 6,1 milljón notuð af upp-
hæðinni. Meirihlutinn hefur nefnilega ákveðið að í ár
verði ekki byrjað á heimili upp í Seljahverfi sem var þó
búið að samþykkja að hefja byggingu á í haust.
Þegar þetta er ritað þann 19. nóvember hefur áætlun
um byggingarframkvæmdir borgarinnar næsta ár enn
ekki verið lögð fram. Miðað við stefnu ríkisstjórnar og
meirihlutans í borgarstjórn það sem af er árinu er því
miður einskis góðs að vænta í þessum málaflokki frá
meirihlutans hálfu á komandi ári.
En er ekki þessi stefna í dagvistarmálum eðlileg miðað
við efnahagsástandið kann einhver að spyrja. - Að mínu
mati er hér um stærra mál að ræða en svo. Það er ekki
fjárskortur, sem ræður ferðinni, um það höfum við ótal
dæmi. Skortur á öryggi og góðri daggæslu fyrir börn er
nefnilega ein af aðferðum karlveldisins til þess að halda
okkur konum áfram áhrifalausum og undirokuðum í þjóð-
félaginu. Þeir láta aðeins meira af hendi rakna í góðæri,
en þegar þrengir að og atvinna minnkar eru seglin rifuð í
þessum málaflokki og þar með er auðveldara að halda
konum áfram sem varavinnuafli. Baráttan fyrir nægum
og góðum dagvistarheimilum fyrir börn er því eitt af brýn-
ustu hagsmunamálum okkar allra.
Guðrún Jónsdóttir,
borgarfulltrúi Kvennaframboðs.
35
Ljósmynd: Anna GyOa Gunnlaugsdóttir