Vera - 01.12.1983, Blaðsíða 49
ELLI
eftir Eddu Björgvinsdóttur
og Helgu Thorberg.
Vaka, 1983.
Það er, held ég ekki, ofsögum sagt, að
við í Kvennaframboðinu hlustuðum á þær
Eddu og Helgu á tali í útvarpinu með sömu
ákefð og verðandi mamma á hjartslátt
barns í móðurkviði! Og mikið askolli vorum
við montnar af þeim, þegar það fékkst stað-
fest, að 60% þjóðarinnar hlustar líka. Og
brosa að Ella. Þennan íslenska karlmann,
sem kúgar konuna sína sem lætur kúga sig.
Því sé hann dæmigerður ellisti, þá er hún
það ekki síöur, gætið að því! Og þótt ég efist
ekki um, að kaldhæðið grín Eddu og Helgu
eigi sinn þátt í að draga meira en helming
íslendinga að útvarpinu vikulega, þá grunar
mig að viðtölin við fólkið í bænum eigi sinn
hlut í fáheyrðum vinsældum þáttanna. Þar
hafa birst myndir af raunverulegum konum
(einkum), stöðu þeirraog draumum, myndir
sem eru sjaldséðar í íslenskum fjölmiðlum.
En líklega er það hvoru tveggja, skopið og
alvaran, sem saman hafa gert Á tali að því
eftirlæti allra sem raunin ber vitni.
Og nú er Elli kominn í bók. Svartur á
hvítu, broslegur og raunalegur í senn. Ég
ímynda mér að það sé skeikult að gefa
útvarpsefni út á prenti ef það er á annað
borð jafnvel úr garði gert fyrir útvarp og efni
Eddu og Helgu. (Sumt útvarpsefni er auð-
vitað alls ekki eins og gert fyrir útvarp og
mætti jafnvel lesa af blöðum heima hjá sér
líkt og sumt sjónvarpsefni á fullt eins heima
í útvarpinu o.s.frv.) Við lestur bókarinnar
komst ég þó að þeirri niðurstöðu, að ef
eitthvað, þá væri ekki síðurgaman að horfa
á það sem þær stelpurnar segja en hlusta.
Satt best að segja fylltist ég yfirmáta að-
dáun á afreki þeirra og henni meiri en áður
og er þá nokkuð mikið sagt! Talsmátinn,
orðfarið og innihaldið gerir sig sjálfstætt af
leiknum í röddunum - þó ég verði auðvitað
að viðurkenna að þær skutu oftar en ekki
upp kollinum við lesturinn.
Elli sjálfur stekkur fullmótaður út úr bók-
stöfunum þegar á fyrstu síðu bókarinnar,
konurnar í símanum líka. Svo útpældir eru
þessir karakterar strax í fyrsta þætti og geri
aðrir rithöfundar betur. Og hver er svo Elli?
Ólíkt því sem aðrir höfundar telja sig þurfa
til að draga skýra mynd af persónu, segja
þær Edda og Helga ekkert um aldur, útlit,
atvinnu, menntun eða rúmmál. Viðhorfin
ein lýsa manninum; það sem hann er inn
við beinið en ekki hitt, sem hann kann að
bera utan á sér. Þetta þykir mér dásamlega
kvennapólitísk mannlýsing! Kosturinn hinn
er svo vitaskuld sá, að einmitt með því að
gera útlit Ella og stöðu ósýnilega, getur
hann verið hver sem er. Maðurinn minn eða
maðurinn í næsta húsi eða einhver enn
annar. Við þekkjum hann allar og konurnar
í símanum raunar líka og af sömu ástæð-
um. Ekki síst verða þau svona óskaplega
raunveruleg, og til aö hlæja að og býsnast
yfir.
Og hvernig er svo Elli og frúin og vin-
konan? Jú, Elli segir konunni sinni brjósta-
brandara, sem hún hlær að, Elli hefur víst
ekki vaknað á nóttunni þegar börnin hans
grétu og henni finnst það kostur og telur
vinkonu sína stálheppna að eiga svoleiðis
mann líka en vinkonan gerir góðlátlegt grín
að henni fyrir vikið. Vinkonan á eftir að gera
góðlátlegt grín að henni út alla bókina og
reyna á eins hlýlegan hátt og henni er fram-
ast unnt að vekja hana til einhverrar vitund-
ar um þá kúgun sem ríkir á heimili Ella og
hennar. Árangurslaust með öllu. Ellakona
vinnur jafnlangan vinnudag úti og Elli en
telur þó sjálfsagt að gera öll heimilisverkin
ein. Ellakonakann hitt og þetta beturen Elli,
svo sem að skipta um viftureim og sprauta
bíla (fyrir utan auðvitað matargerð, þrif,
barnagæslu og skipulag heimilis) en gætir
þess vel að sýna ekki þá ,,karlmannlegu“
hæfileika öðrum til að særa ekki stolt
mannsins síns. Ellakona er gjörsamlega
ábyrg fyrir útliti Ella og heilsu og fer með
hann eins og örvita ungabarn, sem ekki
kann fótum sínum forráð, fæðir hann og
klæðir (,,guð, lét ég þig fara í þessar
buxur!“) og gerir út með nesti í sólar-
landaferð. (Óborganleg lýsing þar!) Ella-
kona kann vel að hafa einhver áhugamál
utan Ella, en tími hennar og hugsanir
snúast þó alveg um áhugamál hans. Vilji
Ellakona úttala sig við vinkonuna í símann,
notar hún tækifærið þegar Elli er hvergi
nærri: hann er sofandi, í baði, á fundi, í
bridge, horfandi á fótboltann í sjónvarpinu.
Eða í útlandinu að hvíla sig með öðru fólki.
Umönnun hennar á Ella hefur sem sagt
kafsiglt alla tilveru Ellakonu og fyrir löngu
blindað hana á eigin veru og langanir án
þess hún hafi svo mikið sem tekið eftir því
sjálf. Og allt er þetta þó há-alvarlega ástand
sett fram af einskærri brosmildi og kæti! Ég
sá fyrir nokkru setningu í minningargrein
um konu, sem hljóðaði svona: ,,Hún var
manni sínum dásamleg eiginkona og auk
þess (auk þess!) góður félagi og vinur.“ Ég
sver þetta er satt! Ellakona fengi þann dóm
að vera manni sínum dásamleg eiginkona,
punktur, og þætti hól á sumum bæjum.
Þetta, geri ég ráð fyrir, er ellismi, sá ellismi
sem ég vona að bókin um Ella geti togað
svo sundur og saman að ekkert verði eftir
annað en slitrin ein.
Sem sagt, bók sem ætti að vera til á
hverju heimili (upplögð brúðargjöf!) fyrir
margra hluta sakir. Ragnheiður Kristjáns-
dóttir hefur myndskreytt hana mjög lipur-
lega, allar myndirnar eru skemmtilegar og
margar alveg afbragð. Bókin er í hand-
hægu broti, og utan á henni Ijósmynd af
höfundunum, sem ég veit ekki nema sé
,,grín“ líka því hún gæti verið skopstæling á
tannkremsauglýsingu en það er kannski
bara vegna þess hvað þær Edda og Helga
eru sætar sem er alveg makalaust af svo
hörðum kvenréttindakonum að vera! Til
hamingju elskurnar!
Ms.