Ársrit Nemendasambands Laugaskóla - 01.01.1927, Page 104
98
þýft og snoðið, bæjarhúsin lágreist og hrörleg og engj-
arnar graslítil harðvelli eða forarflóar. Hér eru ein-
mitt verkefni, sem eru þess verð, að helga þeim krafta
sína. Hér eru ótal möguleikar til framfara og vaxtar.
Hann getur viknað af gleði, ef hann hittir fyrir melhól,
sem lágvaxinn og kyrkingslegur melagróðurinn er að
berjast við að hylja. Það er sem hver blettur kalli hann
til starfa, og úr augum málleysingjanna les hann einn-
ig auðmjúklega bæn um aðhlynningu og vernd. Og
hann leggur öruggur til starfa, verk hans brosa við
honum eins og bestu hollvinir, það er sköpunargleði í
hverju hans handtaki. Hans vald er meira og hamingja
hans ríkari en hins voldugasta þjóðhöfðingja. Á hverj-
um degi uppsker hann nokkuð af því, sem hann með
eigin hendi sáði deginum fyrir.
Og kvöld eitt sjáum við hann svo standa að loknu
dagsverki heima í hlaðvarpanum og horfa yfir jörðina,
er hann hafði helgað krafta sína ungur. Túnið er orðið
slétt og margfalt stærra og grösugra, engjarnar hefur
hann skorið fram og veitt á þær vatni, gamli bærinn er
horfinn og nýr risinn af rústum hans. Búpeningurinn
hefur vaxið að sama skapi, og honum er nautn að því,
hve frjálslegur hann er og þróttlegur í bragði. Og ef
við svo lítum á þennan mann, sem nú horfir yfir endað
dagsverk með bogið bak og silfurhærur á höfði, þá er
það æskueldurinn í augum hans, sem vekur hjá okkur
mesta athygli og aðdáun. Hendur hans eru að vísu
bognar og slitnar og andlitið letrað rúnum, en þær rún-
ir bera blæ fegurðar og göfgi, og í svip hans sjáum við
sama þroskann og líta má í öllum' hans störfum. Það er
dularfull máttug gleði, sem speglast í augum hans.
Hann hefur fundið þá hamingju, sem störfin veita
þeim, sem er samverkamaður Drottins, og pund hans
hefur borið ríkulegan ávöxt.