Unga Ísland - 01.12.1947, Síða 20
10
áfram að ná tökum á áheyrendum sínum og hrífa þá, þó
að röddin fari að bila. Hún syngur þjóðlög frá mörgum
löndum og alltaf á frummálinu. Hún hefur sungið á sautján
tungumálum, og öllum kemur saman um, að hún beri þau
mál, sem þeir þekkja, ágætlega fram. Hvert land og hvert
tungumál á sér sín kvæði og lög með ólíkum blæ, svo að
þegar hún fer að syngja frönsk lög næst á eftir þýzkum,
Gyðingalög á eftir sænskum, lög frá Bandaríkjunum á eftir
austurrískum o. s. frv., þá skiptir hún ekki einungis um
tungumál, heldur um söngblæ og söngtækni og allan svip á
meðferðinni. Hver skepna og hver manneskja syngur með
sínu nefi. Maurinn á sér sína rödd, skortítan sína, fuglarnir
í skóginum, ástfangin ung stúlka, gömul tannlaus kerling,
hið léttasta gaman og ægilegasta vonzka. Þegar djöfullinn
opnar dyrnar fyrir vesalings syndara og segir honum að
„gera svo vel og ganga í bæinn“, er svipur hennar svo hræði-
legt sambland af grimmd og tilhlökkun, að það fer hryll-
ingur um hverja taug. Og þegar hún syngur Borðsálminn
eftir Jónas Hallgrímsson, verður þetta ljóð og lag, sem hver
Islendingur hefur kunnað frá barnæsku, alveg nýtt, eins og
maður hafi aldrei heyrt það fyrr. Hún hikar ekki við, eins
og enskur söngdómari hefur komizt að orði, „að rífa hina
yndislegu rödd sína í tætlur og tötra“ til þess að lýsa þeim
ótömdu tilfinningum, hrifningu, hörmum og ofsagleði, sem
stundum búa í þjóðlögunum. Það hefur líka verið sagt um
hana, að hún flytji þann boðskap, að allar þjóðir eigi, þrátt
fyrir sérkenni hverrar um sig, innst í hug og hjarta sömu
sorgirnar og sömu gleðina, eilífar, eldgamlar og alltaf nýjar.
Það er ekkert skrum, að Gagga sé víða fræg. Hún hefur
farið bæ úr bæ um flest lönd Norðurálfunnar og Norður-
Ameríku. Alls staðar hefur hún sigrað. Hún hefur komið
til höfuðborga sönglistarinnar, eins og til dæmis Vínar-
borgar, fyrst öllum ókunn, byrjað í minnsta sal, sem hægt
var að fá, en endað á því að troðfylla stærsta salinn og